30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

117. mál, flugfargjöld

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 121 um athugun á flugfargjöldum. Till. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram athugun á flugfargjöldum hjá íslenskum flugfélögum með sérstöku tilliti til hárra fargjalda í innanlandsflugi. Jafnframt verði gerður samanburður á fargjöldum á flugleiðum innan lands og til útlanda, svo og milli Evrópu og Norður-Ameríku með viðkomu í Keflavík. Greinargerð um þetta efni verði lögð fyrir Alþingi ekki síðar en haustið 1988.“

Þetta er efni till. Tilefni þess að hún er flutt er ærið að mínu mati. Hún gerir ráð fyrir því að sérstök athugun fari fram á fargjöldum sem einum af þeim þáttum sem snúa að viðskiptavinum flugfélaganna. Síðan á að gera Alþingi grein fyrir niðurstöðum þeirrar könnunar innan eins árs.

Í þessari till. er staðhæft að fargjöld á innanlandsleiðum séu há og það er vissulega mat flm. En það er best að láta tölur tala sínu máli. Frá 3. nóvember sl. voru fargjöldin hjá Flugleiðum á helstu flugleiðum innan lands eins og fram kemur í grg. á bls. 2. Ég nefni þar örfá dæmi:

Flugfargjöld fram og til baka frá Akureyri eru tæp 7000 kr., 6836 kr. nákvæmlega að meðtöldum 200 kr. flugvallarskatti. Til Egilsstaða eru flugfargjöldin 9060 kr. fram og til baka. Til Ísafjarðar eru fargjöldin 6396 kr. Til Norðfjarðar 9344 kr. Til Vestmannaeyja, sem er ein af styttri flugleiðunum innan lands, er fargjald fram og til baka 4508 kr. Taxtar annarra flugfélaga en Flugleiða eru mjög svipaðir, þeirra sem hafa einkaleyfi á öðrum leiðum innan lands og þar sem vegalengdir eru sambærilegar. Þetta hefur haldist í hendur á undanförnum árum í aðalatriðum.

Við þessar tölur er því að bæta að fyrir farþegann bætist við ferðakostnaður að og frá flugvöllum hverju sinni. Með sérleyfisbifreiðum nemur hann á lengri leiðum um og yfir 1000 kr. Það er tekið dæmi af sérleyfisleiðinni Neskaupstaður-Egilsstaðir þar sem fargjaldið var ekki alls fyrir löngu 1240 kr. Og menn þekkja leigubílataxtana að og frá flugvelli hér í Reykjavík þar sem er varlega áætlað meðaltalstalan 1000 kr. Hér kemur þegar saman er lagt fargjald fyrir farþega sem á hvað lengsta leið frá landsbyggðinni til Reykjavíkur sem nemur um eða yfir 11 000 kr.

Hér er um að ræða gífurlegan toll á íbúa landsbyggðarinnar, gífurlega byrði sem kemur sannarlega þyngst niður á þeim sem fjærst búa höfuðstaðnum. Íbúar sem búa á norðausturhorni landsins greiða enn hærri gjöld en hér hefur verið talið og þurfa að millilenda á Akureyri. Þar er fargjaldið eitt saman frá Vopnafirði, svo dæmi sé tekið, 10 206 kr. Og það er ekki svo að það sé einhver lítill hluti flugfarþega sem þarf að standa undir slíkum gjöldum. Samkvæmt upplýsingum Flugleiða er það nær helmingur farþega sem ferðast á þessum almennu töxtum, nákvæmlega talið að þeirra mati 45% sem samkvæmt úrtaki ferðuðust á þessum fargjöldum veturinn 1986–1987. Vissulega eru til taxtar með lægri gjöldum á þessum leiðum, bæði fjölskylduafsláttur, afsláttur fyrir íþróttafólk og svokallaður apexafsláttur, en það er mikill minni hluti sem notfærir sér þessa taxta, þá hina lægstu. Raunar er umhugsunarefni hversu fáir notfæra sér svokallaða apextaxta í innanlandsflugi, en þeir eru líka miklum takmörkunum háðir í sambandi við bókanir og tímaáætlanir.

Ég hef rætt þetta mál við forsvarsmenn Flugleiða við undirbúning þessarar till. Vissulega reiða þeir fram ýmsar skýringar varðandi þau háu fargjöld sem hér tíðkast og bera sig saman við það sem gerist erlendis. Við hljótum hins vegar að horfa til þess hversu flugið er snar og mikilvægur þáttur í samgöngum hér innan lands á lengri leiðum. Það er engan veginn sambærilegt við það sem gerist á flugleiðum erlendis þar sem farþegar eiga kost á fjölmörgum öðrum möguleikum, sérstaklega með rútubílum eða járnbrautum þar sem fargjöldin eru þeim mun minni.

Ég hef ekki tekið inn í þennan samanburð þann mikla tíma sem fer í þessi ferðalög því ef ætti að reikna vinnutap fólks sem þarf að fara erinda sinna til höfuðstaðarins eða á öðrum leiðum innan lands verða tölurnar vissulega langtum hærri.

Ég hef fengið hjá Flugleiðum samanburð á tekjum þeirra miðað við flogna kílómetra og almennt og hef látið það fylgja til upplýsingar í fylgiskjölum með þessari till. Ég tel að við athugun á þessu máli, verði till. samþykkt sem ég vona að gert verði, þurfi sannarlega að fara ofan í einstaka þætti þessara mála og meta það af fyllstu sanngirni, einnig í ljósi erfiðari skilyrða á margan hátt til innanlandsflugs hér en gerist í ýmsum löndum sem við þó erum að bera okkur saman við.

Ég vek athygli á því sem fram kemur í grg. á bls. 3 þar sem dregnar eru fram kostnaðartölur í sambandi við flug yfir Norður-Atlantshafið. Þar kemur fram sú sérkennilega staðreynd að farþegi sem kaupir farmiða á leiðinni New York-Lúxemborg greiðir sem almennt fargjald 14 530 kr. fyrir farið, en farþegi sem flýgur sömu leið út frá Keflavík greiðir nær 40 000 kr. eða þrefalda þessa upphæð, nákvæmlega talið 39 690 kr. Þetta hafa stundum verið kallaðir átthagafjötrar í sambandi við fargjöld. Ég tel að hér sé sannarlega á ferðinni umhugsunarefni sem við hljótum að ræða á hv. Alþingi og sem sá aðili sem falið yrði að fara ofan í þessi mál þyrfti að taka tillit til.

Við blasir að geysileg hækkun hefur orðið á fargjöldum í innanlandsflugi á þessu ári. Þessi hækkun nemur hvorki meira né minna en 33% það sem af er ársins. Fargjaldahækkunin í utanlandsflugi er heldur minni eða nálægt 30%. Þetta eru tilfinnanlegar hækkanir sem snerta þá mest sem hæst gjöldin þurfa að bera og mest þurfa að nota flugið.

Eins og ég gat um áðan er hér öðru fremur um að ræða bagga fyrir íbúa landsbyggðarinnar, þá sem lengst búa frá höfuðstað landsins, Reykjavík. Og það er umhugsunarefni með hvaða hætti eðlilegt sé og fært sé að bæta stöðu þessa fólks með einum eða öðrum hætti, bæði einstakra sérhópa sem þurfa að ferðast á þessum leiðum og eins annarra sem leið leggja til höfuðstaðarins. Ég er ekki með mótaðar tillögur í þessum efnum, hvorki í sambandi við niðurgreiðslur né styrki til einstakra hópa, en ég tel þó mjög eðlilegt að á þau mál sé litið við athugun þessara mála.

Ég vil ekki draga neina dul á það að ég tel að mjög margt hafi verið vel gert í íslenskum flugmálum og af hálfu íslenskra flugfélaga. Þau hafa starfað um margt við erfið skilyrði í landi þar sem veðrátta er rysjótt og skilyrði til flugs eru lök og alveg sérstaklega þar sem af opinberri hálfu hefur ekki verið búið að fluginu með endurbótum á flugvöllum og öryggisbúnaði eins og þörf hefði verið á. Þetta þarf að sjálfsögðu að taka með í reikninginn. En það er gífurlegt hagsmunamál fyrir íbúa þessa lands að fargjöld, bæði innan lands og ekki síður í samgöngum á milli landa, séu með þeim hætti að því megi treysta að þar sé kostnaði haldið í lágmarki og þar sé ekki verið að efna til óþarfa kostnaðar eða safna óeðlilegum gróða í þágu þeirra sem fá einokunarleyfi á viðkomandi flugleiðum.

Við skulum minnast þess að hér er ekki í raun um beina samkeppni að ræða. Hér er um að ræða einokun þeirra sem fá leyfi til flugrekstrar á viðkomandi leiðum. Ég tel að eitt af því sem þurfi að athuga séu kostir þess og gallar að halda uppi því kerfi, sem hér viðgengst, að úthluta einstökum flugfélögum slíkum einokunarleyfum án þess að um raunverulega beina samkeppni sé að ræða.

Það er tillaga mín, sem felst í þessari þáltill., að óvilhallir aðilar annist þá athugun sem till. felur í sér þannig að við fáum hér til umræðu á Alþingi innan árs hlutlæga niðurstöðu sem unnt verði að byggja á meðferð og umræðu hér á Alþingi um hvernig hægt verði að taka á þessum málum, notendum flugsins til hagsbóta og auðvitað einnig með eðlilegu tilliti til þeirra sem stunda þann rekstur sem hér á í hlut.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til hv. atvmn. þingsins.