30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

139. mál, könnun á mikilvægi íþrótta

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna þáltill., sem hér er borin fram af Finni Ingólfssyni o.fl., og tel hana mjög tímabæra. Við sem höfum gert það að lífsstarfi okkar að vinna að íþróttamálum í sjálfboðavinnu vitum að það er vel þess virði. Við vitum hvað það er mikilvægt í nútímaþjóðfélagi að íþróttir séu fyrir sem flesta. Við höfum löngum undirstrikað það, sem hér kom fram, að íþróttir eru mjög hollar, þær bæta heilsuna og draga úr sjúkdómum. Hreyfing nú til dags er orðin mjög nauðsynleg fyrir þá sem vinna skrifstofustörf og störf sem bjóða upp á litla hreyfingu. Við höfum lengi vitað að iðkun íþrótta dregur úr reykingum og drykkjuskap. Þetta er óhjákvæmilega afleiðingin af því að stunda íþróttir því það vita allir að til að ná árangri í íþróttum þarf að stunda hollt líferni. Það hefur einnig sýnt sig að þeir sem stunda íþróttir hafa meiri aðgæslu við fleira, eins og hvíld og mataræði. Allt þetta kemur fram í bættri heilsu og bættum hag fyrir þjóðarheildina.

Ég tel að íþróttir séu eitthvert ódýrasta uppeldistæki sem til er. Ég hef séð það margoft, t.d. í skíðalöndunum. Þegar þúsundir unglinga eru þar á skíðum dag hvern er manni ljóst hvað þetta er óskaplega mikið uppeldisatriði. Á sama tíma sem það kostar stórar fjárhæðir að reka ýmsa aðra þætti sem lúta að unglingum og börnum eru íþróttir mjög ódýrt tæki til að veita þeim ánægju og stuðla jafnframt að hollustu.

Við höfum séð hvað snertir íþróttahreyfinguna að það hefur verið lagt til í fjárlögum að skera framlög niður til hennar. Ég minntist á í ræðu hér á Alþingi að það væri um það bil 2% eða minna af rekstri íþróttahreyfingarinnar sem væri ætlað til hennar á fjárlögum. Ef við reiknuðum líka það sem sjálfboðaliðar leggja fram í forustustörfum er ég hræddur um að þessi tala yrði enn þá minni. Ég held að það megi fara aftur til 1914 til að sjá jafnlítið áætlað til íþrótta á fjárlögum frá Alþingi.

Íþróttir eru fyrir alla og við höfum séð aukna þátttöku almennings í íþróttum, bæði yngri og eldri. Þetta hefur mikla hollustu í för með sér og mikla ánægju. Ég tek undir það, sem flm. sagði um nútímaþjóðfélag, að það væri nauðsyn á íþróttum í nútímaþjóðfélagi og þeir sem gerðu sér ekki grein fyrir því væru langt á eftir tímanum. Ég vil líka segja að þátttaka karla og kvenna hefur oft verið mismikil, en síðustu árin hefur þátttaka kvenna farið mjög vaxandi í íþróttum almennt. Ég tel að það hafi fyrst og fremst verið svo að áður fyrr voru íþróttir ekki taldar við kvenna hæfi. En þetta hefur breyst mjög mikið. Ég get sagt t.d. að í skíðaíþróttinni munu vera fleiri konur þátttakendur en í öðrum íþróttum. Þær ná ekki síður árangri og hafa ekki síður ánægju af en karlar.

Ég vil að öðru leyti ekki lengja mál mitt mjög, en vil taka sterklega undir það sem hér kemur fram. Ég er sannfærður um að efnahagslegt gildi íþrótta er mjög mikið. Þær hafa mikil áhrif til uppeldis og þroska. Íþróttirnar eru nauðsynlegar í nútímaþjóðfélagi.