30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

139. mál, könnun á mikilvægi íþrótta

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að taka undir orð ýmissa þm. sem talað hafa hér á undan og lýsa yfir ánægju minni yfir þáltill. Ég tel till. gagnmerka og af hinu góða og tel að athugunin sem till. gerir ráð fyrir þurfi og eigi að fara fram. Þótt við vitum að íþróttir hafi mikla þýðingu fyrir íslensku þjóðina er einnig gott að hafa það í skýrsluformi og að vel athuguðu máli hvert raunverulegt vægi íþrótta er í íslensku þjóðfélagi almennt.

Þúsundir ungmenna iðka íþróttir ár hvert og þar fer fram mjög jákvætt starf, bæði í sjálfboðaliðsvinnu sem og með stuðningi hins opinbera og sveitarfélaga. Það er Íslendingum mjög mikilvægt að íþróttahreyfingin sé efld og allt íþróttastarf í landinu því það stuðlar að andlegu og líkamlegu heilbrigði. En það sem skiptir kannski ekki síður máli fyrir smáþjóð eins og Íslendinga er að íþróttir efla þjóðarmetnað og það er mjög mikilvægt fyrir sjálfstæðisvitund þjóðarinnar þegar unga fólkið tekur þátt í keppni og gerir það fyrir hönd Íslands. Það er kannski eitt af þeim atriðum sem við þurfum að huga betur að í sambandi við það hvernig við viljum vernda íslenskt sjálfstæði og íslenskt þjóðerni í framtíðinni.

Auðvitað skiptir meginmáli hverjar eru fjárveitingar til íþróttamála á hverjum tíma og hefur verið staðið vel að þeim málum í gegnum árin almennt, bæði af hálfu hins opinbera með beinum og óbeinum hætti gegnum fjárlög eða með öðrum hætti eins og lög og reglur segja til um. Ég vil einnig vekja athygli á að Reykjavíkurborg hefur í gegnum tíðina veitt íþróttahreyfingunni mikinn stuðning og eflt allt íþróttastarf á Reykjavíkursvæðinu. Nægir að benda á hin stóru og miklu íþróttamannvirki sem Reykjavíkurborg hefur staðið að með þeim hætti sem sveitarfélag getur veitt stuðning í þeim efnum. Er það allt til mikillar fyrirmyndar og mikils sóma, bæði fyrir borgina sem og íþróttahreyfinguna sem hefur tekið við þessum íþróttamannvirkjum og notað þau jafnframt því sem íþróttafélögin hafa lagt ómældar fjárhæðir í þau mannvirki og þá starfsemi sem þar fer fram.

Ég vil þess vegna lýsa yfir stuðningi við þáltill. og einnig vil ég undirstrika enn á ný að þótt í fjárlögum í ár séu ekki háar upphæðir vegna íþróttamála og hefðu mátt vera hærri er með öðrum hætti reynt að efla íslenska íþróttahreyfingu fyrir tilstuðlan annarra laga og reglna eins og kunnugt er.