30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

139. mál, könnun á mikilvægi íþrótta

Ingi Björn Albertsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri till. sem hér liggur frammi og vil taka undir hana, enda tel ég að öll umræða um íþróttamál sé til góðs. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á niðurskurð á framlögum til íþróttamála og tel það harmleik mikinn ef svo fer sem horfir í dag. Einnig vil ég taka undir gagnrýni á að leggja niður Íþróttasjóð og tel að sú verkefnaskipting sem þar er farið fram á, að færa það yfir á sveitarfélögin, eigi ekki rétt á sér þar sem íþróttir séu mál þjóðfélagsheildarinnar en ekki einstakra sveitarfélaga og eigi ekki að vera komið undir geðþóttaákvörðunum einstakra sveitarstjórna. Ég tel að með því væri verið að stofna íþróttalífi í landinu í verulega hættu.

Það var komið hér inn á keppnisíþróttir og að hlutur kvenna væri of lítill vegna þeirra. Það er nú einfaldlega þannig að kynin eru misjafnlega af guði gerð og falla misjafnlega vel að hinum ýmsu íþróttum þannig að það er ekkert óeðlilegt að það skiptist mikið, enda er það svo. Kvenfólk einokar ákveðnar greinar á meðan karlmenn einoka hinar og verður kannski bið á því að við sjáum kvenfólk t.d. stunda box.

Almennt talað gengur þetta þannig fyrir sig, t.d. í knattspyrnunni, að þar er tekið við ungum börnum, 5–6 ára byrja þau að koma. Þeim er strax kennd stundvísi, hreinlæti, snyrting, að klæða sig vel, þeim er kennt mataræði, þeim er kennt að þau þurfi á góðum svefni að halda, þeim er kennd virðing fyrir andstæðingnum, þeim er kennt að starfa í hóp, þeim er kennt að treysta hvert öðru, þeim er kenndur viðbragðsflýtir, agi, hlýðni. Allt þetta skilar okkur góðum og nýtum þegnum út í þjóðfélagið þannig að ég hlakka til að sjá niðurstöður þessarar könnunar. Ekki síst hlakka ég til að sjá þær tölur sem koma út úr því þegar metið er hvað sjálfboðavinna er mikið atriði innan íþróttahreyfingarinnar.

Það hefur ekkert verið talað um það hér, og ég hefði gjarnan viljað sjá það í þessari till. metið til fjár, hvers virði landkynningin er okkur. Það má nefna menn eins og formann Borgaraflokksins, Albert Guðmundsson. Hvers virði var hann okkur í landkynningu? Hvers virði er Ásgeir Sigurvinsson, Bjarni Friðriksson í júdó, Einar Vilhjálmsson í spjótkasti o.fl. o.fl.? Þetta hefði ég mjög gjarnan viljað sjá líka reiknað út. Þarna er um verulega stóran póst að ræða.

Það hefur komið fram í skoðanakönnunum að innan íþróttahreyfingarinnar reykja unglingar minna, þeir neyta minna áfengis, það er minni hætta á vímuefnanotkun og þeir skila sér betur í námi þannig að allt stefnir þetta á einn veg: Íþróttir skila góðum og nýtum þegnum út í þjóðfélagið.

Ég vil ekki eyða tíma þessa fundar meira. Ég hef áður fjallað mikið um íþróttamálin, en ég fagna þessari till. og styð hana.