15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Ingi Björn Albertsson:

Hæstv. forseti. Ég vil gera að umræðu þann hlutann í frv. til fjárlaga fyrir árið 1988 sem fjallar um Félagsheimilasjóð, Íþróttasjóð, æskulýðsmál og íþróttamál. Framlög til þessara málaflokka hafa verið stórlega skert eða felld algerlega niður.

Hæstv. forseti. Félagsheimilasjóður er nú felldur niður í samræmi við stefnu stjórnvalda um tilfærslu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga. Sömu sögu er að segja um Íþróttasjóð. Ekki er ljóst á þessu stigi málsins hvernig þessi tilfærsla á að fara fram. Eðlilegt getur þó talist að endurskoðun stjórnsýslu fari fram, en slíkt ber að gera í samráði við sveitarstjórnirnar, íþróttafélög, ungmennafélög og aðra er hagsmuna eiga að gæta. Þetta hefur ekki verið gert og eru slík vinnubrögð forkastanleg. Báðir þessir sjóðir hafa skuldbundið sig til að greiða hlutdeild í framkvæmdum sem þegar eru hafnar en eru misjafnlega langt á veg komnar.

Hvernig ætlar ríkisstjórnin að standa við þær skuldbindingar sem sjóðirnir hafa þegar tekið á sig, bæði við kostnað vegna fullkláraðra verkefna og svo þeirra sem skemmra á veg eru komin en klárast á næstu árum? Ætlar ríkisstjórnin að velta þessum skuldbindingum sínum yfir á sveitarfélögin sem mörg ráða ekki við þær skuldbindingar sem þau nú standa frammi fyrir á öðrum sviðum? Á sama tíma og framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafa verið skert er augljóst að verkefni sveitarfélaganna verða ekki aukin nema til komi veruleg hækkun á tekjum til þeirra. Að fella niður Íþrótta- og Félagsheimilasjóð er óviðunandi því íþróttir, æskulýðs- og menningarstarf eru ekki sveitarstjórnarmál eingöngu heldur málefni héraðssambanda, íþróttabandalaga, ýmissa félaga, íþrótta- og ungmennafélaga um land allt. Hvernig verður t.d. með íþróttahús er Íþróttabandalag Akraness er að reisa og treyst hefur á ríkisframlagið, Íþróttafélag fatlaðra og annarra af þeim hátt á annað hundrað aðilum sem búið er að taka á fjárlög ársins 1987? Nógu slæmt hefur þótt að ríkið hafi greitt sinn hluta óverðbættan fram að þessu.

Eins og að málum er staðið í dag annast sérstök deild innan menntmrn. samræmingu og upplýsingar til byggjenda íþróttamannvirkja, safnar upplýsingum innanlands sem erlendis frá og veitir þar með ómetanlega þjónustu þeim sem standa í byggingu íþróttamannvirkja. Hvernig hugsa stjórnvöld sér að þessi þáttur verði leystur framvegis? Á stjórn Sambands ísi. sveitarfélaga að setja upp nýja þjónustumiðstöð er annast þessi mál? Ef svo er hver á þá að borga það?

Aðstöðumunur sveitarfélaga er mikill. Þeir styrkir sem greiddir hafa verið í gegnum Íþrótta- og Félagsheimilasjóð hafa víða um land orðið til þess að hraða uppbyggingu mannvirkja sem annars er vafasamt að hefðu risið. Þessar ráðstafanir koma í sjálfu sér ekki á óvart þegar skattpíningarfrv. þetta er skoðað þar sem einfaldlega er alls ekki gert ráð fyrir því að nokkur lifandi sála hafi efni á frístundum. Allur frítími fólks á greinilega að fara í að vinna fyrir sköttum samkvæmt skattpíningarstefnu fjárlagafrv. Sennilega er Reykjavíkurborg eina sveitarfélagið sem getur ráðið við að framkvæma hugmyndir hæstv. fjmrh. Ég fullyrði að langflest önnur sveitarfélög ráða ekki við að taka þennan þátt að sér. Þetta mun leiða til frekari byggðaröskunar í landinu vegna þess að ungt fólk vill stunda útiveru, íþróttir og holla tómstundaiðju. Það leitar til þeirra staða þar sem bestu aðstæðurnar eru og þar sem fjölbreytilegustu möguleikarnir eru á þessum sviðum.

Mikilvægt er að auknu fjármagni sé varið til frjálsrar æskulýðsstarfsemi í landinu. Stórauka ætti framlög til æskulýðsstarfsemi á vegum Íþróttasambands Íslands, Ungmennafélags Íslands, Bandalags ísl. skáta, Íslenskra ungtemplara og KFUM og KFUK. Starf þessara samtaka og félaga er ómetanlegt fyrir íslenska æsku.

Framlög til frjálsrar íþróttastarfsemi hafa nú verið stórskert. Íþróttasamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Öryrkjabandalag Íslands standa saman að Íslenskri getspá hf. sem rekur lottóið á Íslandi. Þessi starfsemi hefur gengið mjög vel, svo vel að hæstv. fjmrh. sér ofsjónum yfir þessari velgengni og ræðst nú ómaklega að eigendum Íslenskrar getspár hf. Það er blóðugt að þegar fundin er upp ný og arðbær fjáröflunarleið innan fjársveltra félagasamtaka skuli þeim vera refsað fyrir framtakið. Þetta leiðir það af sér að forustumenn félagasamtaka hugsa sig um tvisvar áður en þeir fara út í arðvænlega fjáröflun þar sem sýnilegt er að stefna ríkisstjórnarinnar er að refsa dugmiklum samtökum.

Það er alveg ótrúlegt að í nútímaþjóðfélagi seint á 20. öldinni skuli enn vera til ráðamenn heils þjóðfélags sem ekki skynja mikilvægi íþrótta. Ég vil gjarnan benda á nokkur dæmi um mikilvægi íþrótta fyrir þjóðfélag okkar. Íþróttir eru einhver besta fjárfesting sem hægt er að hugsa sér - eða hvað halda menn að íþróttir spari þjóðfélaginu mikil útgjöld í heilbrigðiskerfinu?

Mikið er talað um að efla beri forvarnarstarf vegna neyslu fíkni- ávanaefna. Er hægt að benda á betra forvarnarstarf en fram fer á vegum íþróttafélaganna? Því verður ekki á móti mælt að íþróttaiðkun mótar einstaklinga og skilar hæfari þegnum út í þjóðfélagið. Frammistaða íslenskra afreksmanna á erlendri grund er einhver albesta landkynning sem hægt er að hugsa sér og verður seint metin til fjár. Ef íþróttastarfið í landinu verður gert nánast óvirkt eins og nú virðist stefnt að er stór hætta á að fleiri og fleiri ungmenni lendi í ógöngum á grýttum vegi óreglunnar. Það er því alveg ljóst að íþróttir eru þjóðarnauðsyn, enda gera allar þjóðir sér grein fyrir því og hvetja og styðja mjög við bakið á slíkri starfsemi í löndum sínum. Við megum ekki stíga skrefið aftur á bak. Við verðum að horfa fram á veginn. Það verður að styrkja íþróttastarfsemina í landinu, alls ekki að skerða hana. Eins og hæstv. fjmrh. kallar það hefur hann stigið harkalega á hemlana. Ég vil í því sambandi benda á að slíkt hefur oft orsakað slys.