30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

142. mál, könnun á launavinnu framhaldsskólanema

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 150 leyfi ég mér að flytja till. til þál. um könnun á launavinnu framhaldsskólanema. Meðflytjendur mínir eru hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, Guðrún Helgadóttir, Sturla Böðvarsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Sighvatur Björgvinsson og Stefán Valgeirsson. Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta kanna hvernig háttað er vinnu framhaldsskólanema meðfram námi. Kannaðir verði eftirfarandi þættir:

a. fjöldi vinnustunda á viku,

b. hvenær sólarhrings störfin eru unnin,

c. kjör og réttindi námsmanna í launavinnu,

d. ástæður þess að nemar vinna launuð störf með námi.“

Herra forseti. Vissulega væri fróðlegt og gagnlegt að hafa fleiri þætti með í þessari könnun, á það hefur mér verið bent eftir að þessi till. er fram komin, og vil ég biðja hv. nefndarmenn sem munu fjalla um þetta till. að hafa það í huga. Ég nefni t.d. atriði eins og það hvers kyns nemandinn er, á hvaða aldri, hversu há laun hann hafði fyrir sumarvinnu sína, hversu miklu fé hann eyðir á viku að jafnaði og e.t.v. að fá það eitthvað sundurgreint. Þetta síðasttalda fellur e.t.v. nokkuð sjálfkrafa undir d-lið tillögunnar. Hvað aldur og kyn snertir þá fannst mér það reyndar svo sjálfsagt að ég sá ekki ástæðu til þess að nefna það í tillögugreininni.

Ástæðurnar fyrir því að þessi till. er borin fram nú hér á hv. Alþingi liggur væntanlega nokkuð í augum uppi. Það er að okkar dómi verulegt umhugsunar- og áhyggjuefni að svo virðist sem launavinna framhaldsskólanema færist sífellt í vöxt. Skyndikannanir í einstökum skólum benda til þess að í efstu bekkjunum vinni allt að 70% nemenda meðfram námi, og hafa reyndar heyrst hærri prósentutölur, nokkrir þeirra jafnvel meira en 20 klst. á viku, og þarf ekki að fara í grafgötur með það hvaða áhrif það hlýtur að hafa á námsárangur og þátttöku í félagslífi skólanna.

Gerðar hafa verið skyndikannanir í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu sem ég hef hér undir höndum. Tvær þeirra voru gerðar í Menntaskólanum í Kópavogi, sú fyrri í febrúar 1986 og sú síðari í febrúar 1987. Í fyrri könnuninni bárust svör frá 220 nemendum af 350 eða tæplega 63% nemendanna. Skýringin á því að ekki tóku fleiri þátt í þessari könnun er sú að könnunin var gerð í kennslustund sem hófst klukkan 10 að morgni og þá voru ekki allir nemendur komnir í skólann samkvæmt sinni stundaskrá. Sumir voru reyndar í leikfimi og einhverjir voru fjarverandi vegna veikinda eða vinnu. Könnunin sýndi að 42% aðspurðra stunduðu einhverja launaða vinnu en það samsvarar 10 nemendum í 24 nemenda hópi. Helstu niðurstöður í einstökum árgöngum leiða það í ljós að 25% nemenda í fyrsta bekk Menntaskólans í Kópavogi stunduðu launavinnu og vinnustundir voru að meðaltali 12 á viku hjá þeim sem vinna. Í öðrum árgangi var hlutfallið 37% og vinnustundir sömuleiðis að meðaltali 12 á viku eins og í fyrsta bekk. Í þriðja árgangi var hlutfallið komið upp í 53% og enn var vinnustundafjöldinn um 12 klst. á viku en þegar komið var upp í fjórða árgang þá var vinna nemenda utan skóla orðin miklu meiri eða um 73% og vinnustundafjöldinn um 15 klst. á viku. Skiptingin nokkuð jöfn eftir kynjum.

Útkoman í könnuninni í febrúar á þessu ári er sú að það er rúmlega helmingur nemenda sem vinnur meðfram námi. Hvað einstaka árganga varðar þá fer vinna nemenda meðfram skólanámi vaxandi eftir því sem ofar dregur í skólanum. Sem dæmi má nefna að það eru átta nemendur sem vinna 11–20 stundir á viku eða 22,8% sem vinna þetta margar vinnustundir á viku. Í þeim hópi eru sjö stúlkur og einn piltur. Þrjú vinna meira en 20 stundir á viku, tvær stúlkur og einn piltur.

Í Menntaskólanum við Sund var gerð könnun 10. nóv. sl. Spurningalisti var lagður fyrir alla nemendur skólans sem eru 795. Þar af svöruðu 713 nemendur eða 89,7%. Það sem stingur í augu þegar litið er á niðurstöður þessarar könnunar er sú staðreynd að á öllum aldursstigum vinna stúlkurnar talsvert meira en strákarnir enda þótt þeir eyði svo samkvæmt könnuninni töluvert meira fé að jafnaði vikulega heldur en stúlkurnar. Þetta minnir okkur á þá staðreynd að stúlkur eiga yfirleitt síður kost á vel launaðri sumarvinnu og verða því hugsanlega að bæta sér það upp á þennan hátt.

Niðurstöður könnunarinnar eru þær að í fyrsta bekk vinna 34,8% piltanna með náminu en 48,6% stúlknanna. Í öðrum bekk eru hlutföllin þau að 43,2% strákanna vinna með námi og 63,5% stelpnanna. Í þriðja bekk eru það 51,5% stráka og 65,6% stelpna. Í fjórða bekk eru það orðin 46,4% stráka og 78,6% stelpnanna. Það er enn fremur mjög athyglisvert að á annað hundrað nemenda vinna meira en 12 klst. á viku. Það eru 12 strákar og 17 stelpur sem vinna á milli 20 og 40 klst. á viku og yfir 40 tíma á viku eru það 3 strákar og 2 stelpur.

Það er ýmislegt fleira sem kemur fram í þessari könnun sem er fróðleg og skemmtilega unnin eftir því sem ég hef vit á. Það var félagsgreinadeild í 4. bekk sem vann úr könnuninni með aðstoð kennara, Pétrúnar Pétursdóttur. En þessar niðurstöður hljóta að teljast ískyggilegar og sé þetta ástand dæmigert fyrir marga framhaldsskóla er vissulega ástæða til einhverra viðbragða.

Tímasókn og heimavinna í framhaldsnámi er flestum ærin vinna og jafnast á við fulla dagvinnu að viðbættri auka-, helgar- og jafnvel næturvinnu þegar svo stendur á. Það er þó vissulega engin nýlunda að námsmenn vinni launuð störf meðfram námi í lengri eða skemmri tíma og geta ýmsar ástæður legið þar að baki, tímabundin fjárþörf eða bágar heimilisástæður. Slíkt hefur þó fremur heyrt til undantekninga og hlýtur að teljast óæskilegt með öllu.

Sú tíð er liðin að menntun var forréttindi fárra og blásnauðir unglingspiltar grúfðu sig niður á milli þúfnakollanna þegar ríkismannasynir riðu hjá á leið í Latínuskóla. Á þeim tíma leyfðu stúlkurnar sér ekki einu sinni að fella tár yfir slíku svo fjarlægt var að þær nytu réttinda til mennta. Nú á dögum á menntabrautin að vera öllum aðgengileg, óháð kyni, búsetu eða efnahag. Það er því í flestra augum fremur ótrúlegt að knýjandi ástæður reki mikinn fjölda framhaldsskólanema til launavinnu með námi. En hverjar sem ástæðurnar eru er nauðsynlegt að vita þær og reyna að bregðast við þessari þróun með einhverju móti.

Ef það er raunin að til séu þeir framhaldsskólanemar sem vinna allt að 30 eða 40 stundir á viku með fullu námi þá skila þessir nemendur um 70 vinnustundum á viku og getur þá hvorki gefist mikill tími til heimanáms né þátttöku í félagslífi sem einnig stuðlar að þroska og lífsfyllingu þessara ungmenna. Eitthvað hlýtur undan að láta og það vill þá oft verða námið. Stundum flosna þessir einstaklingar upp frá námi en oftar verða afleiðingarnar þær að námið tekur lengri tíma en ella þyrfti, mikið verður um endurtekna áfanga eða að nemendur rétt ná að skríða í gegnum próf og koma því illa undirbúnir til náms í öðrum skólum eða til starfa á öðrum vettvangi. E.t.v. má skoða slakan árangur á fyrsta ári í Háskóla Íslands að einhverju leyti í ljósi þessara staðreynda. Það er háskólamönnum verulegt áhyggjuefni hversu há fallprósenta er orðin í sumum greinum. Árið 1986 féllu t.d. 63% á fyrsta ári í viðskiptafræði og 55% árið 1987. Í almennri sálarfræði féllu 72% nemenda á fyrsta ári árið 1986 og 71% árið 1987. Í almennri lögfræði féllu 80% nemenda í fyrra en 71% sl. vor, en það er rétt að geta þess að þeir sem ekki mæta í próf eru taldir fallnir og fá einkunnina núll. Ef hins vegar er skoðuð fallprósentan hjá þeim sem þreyttu prófið í almennri lögfræði þá er hún 74% árið 1986 en 59% árið 1987. Háskólamenn telja það vaxandi vandamál að nemendur komi of illa undirbúnir til háskólanáms og við hljótum m.a. að leita orsakanna í því hversu mjög launavinna framhaldsskólanema meðfram námi hefur færst í vöxt.

Það má leiða getum að því hverjar séu helstu orsakir þessarar þróunar. T.d. er nokkuð augljóst að mat samfélagsins á menntun hefur áhrif á viðhorf ungs fólks. Menntun er heldur lítils metin til launa og í seinni tíð hefur lítið farið fyrir umræðum um lífsfyllingu í starfi heldur er gildi þess fyrst og fremst mælt í krónum. Þó er nú prófskírteinið talið nauðsynlegur aðgöngumiði að ýmsum leiðum í starfi og námi en óþarft þykir að fórna til þess öllum lífsins lystisemdum. Enda dynja áreitin á unga fólkinu úr öllum áttum, kröfur um tískufatnað, hljómflutningstæki, ferðalög, jafnvel bíla. Fordæmin skortir svo sannarlega ekki. Fullorðið fólk hlýtur að líta í eigin barm og íhuga hvort neyslukapphlaup hinna eldri hafi smitað svo ungmennin að þau telji nauðsynlegt að vinna allt að 30 klst. á viku með skólanámi til þess að fjármagna óhófseyðslu sem foreldrar þeirra eru skiljanlega ekki tilbúnir að greiða fyrir þau. Sé svo þá er eitthvað meira en lítið bogið við það verðmætamat sem við innrætum ungu kynslóðinni og þá er ástæða til að staldra við og hugsa sinn gang.

Í tillögunni og grg. er ekki sérstaklega fjallað um tilhögun þeirrar könnunar sem við leggjum til né kostnað í því sambandi. Að okkar mati væri eðlilegt og sjálfsagt að fela verkið Félagsvísindastofnun Háskólans. Samkvæmt mjög lauslegri áætlun gæti kostnaðurinn verið um 300 þús. kr. eða í hæsta lagi nálægt 400 þús. kr. Besta ráðið væri að tengja slíka könnun svokölluðum spurningavagni Félagsvísindastofnunar með viðbótarúrtaki úr aldurshópnum 1620 ára. Þyrfti þar að koma til að öllum líkindum 600-800 manna úrtak í þessum aldurshópi en framhaldsskólanemar eru áætlaðir 14 208 talsins í vetur. Næsta könnun Félagsvísindastofnunar eða spurningavagn verður líklega í febrúar nk. og svo annar næsta vor en þeir eru tvisvar til þrisvar á ári.

Herra forseti. Okkur hlýtur að vera kappsmál að fá að vita hvað rekur stóran hluta framhaldsskólanema til þess að vinna launavinnu meðfram námi og þess vegna er þessi till. borin fram á Alþingi. Flm. telja einnig nauðsynlegt að fá fram í dagsljósið hvort þessir einstaklingar njóta kjara og réttinda í samræmi við vinnuframlag sitt eða hvort hér er verið að ganga á lagið og notfæra sér ódýran vinnukraft. Það hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess að tengja saman skólanám og atvinnulíf og e.t.v. álíta þessir sívinnandi skólanemar sig vera að svara kröfum nútímans að þessu leyti. Sennilegast er þó að í fæstum tilfellum sé um nokkur eðlileg tengsl að ræða milli launavinnunnar og námsins. Er t.d. bágt að sjá að afgreiðsla á bar fram eftir nóttu sé að neinu leyti stuðningur við nám í menntaskóla eða að sjoppuafgreiðsla sé í nokkrum tengslum við tækninám.

Herra forseti. Ég held að það þurfi ekki að hafa fleiri orð um ástæður fyrir því að þessi tillaga sé borin fram og ég leyfi mér að vona að henni verði vel tekið, enda borin fram af fulltrúum allra stjórnmálaafla í þinginu, og ég vona að fámennið hér í þingsal sé ekki vitnisburður þess að þm. hafi ekki áhuga á þessu máli. Þegar niðurstöður könnunarinnar eru ljósar verður að meta hvort og hvernig unnt er að bregðast við þeirri þróun sem að mati flm. er veruleg ógnun við þau markmið framhaldsskólanna að skila hæfum og vel menntuðum einstaklingum út í þjóðfélagið og til enn frekara náms.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að till. verði vísað til síðari umr. og hv. félmn.