30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

153. mál, lagning vegar með suðurströnd Reykjanesskaga

Flm. (Níels Árni Lund):

Herra forseti. Á þskj. 165 er að finna þáltill. sem er 153. mál Alþingis og ég flyt ásamt hv. 5. þm. Suðurl., Guðna Ágústssyni, og hljóðar hún svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að láta gera kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um gerð vegar með suðurströnd Reykjanesskaga milli Þrengslavegar við Þorlákshöfn og Grindavíkurvegar. Niðurstöður þeirrar athugunar skulu liggja fyrir við endurskoðun vegáætlunar á næsta ári.“

Í mínum huga er ekki spurning um hvort greiðfær vegur verður lagður þessa leið heldur miklu fremur hvenær. Sannfæring mín er sú að hann muni skila arði og breyta ýmsum þáttum í búsetu og afkomumöguleikum íbúa á Suðurnesjum og á Suðurlandi til hins góða, auðvelda og auka samskipti milli þessara byggðarlaga og leggja grundvöll að nýrri atvinnustarfsemi.

Vegalengdin milli Grindavíkurvegar og Þrengslavegar mun vera upp undir 70 km sé farið með suðurströnd Reykjanesskaga. Þar er nú að nafninu til akfær leið, annars vegar um Ísólfsskálaveg nr. 427 og svo um Krísuvíkurveg nr. 42. Þessi vegur er lítið sem ekkert farinn; enda alls ekki í því horfi að bjóði upp á mikla umferð. Vegurinn er að stórum hluta niðurgrafinn, krókóttur og ófær langan tíma ársins vegna snjóa og aurbleytu. Fullyrða má að góður vegur á þessari leið yrði mikið notaður og að hann mundi skapa nýja möguleika í samgöngu- og atvinnumálum, ekki aðeins fyrir íbúa næsta nágrennis heldur einnig fyrir stóran hluta annarra landsmanna. Má í því sambandi benda á eftirfarandi:

Innan tíðar verður tekin í notkun brú yfir Ölfusárósa. Hún mun valda miklum breytingum í samgöngum á Suðurlandi. Örstutt verður á milli útgerðarstaðanna Stokkseyrar, Eyrarbakka og Þorlákshafnar eða um 15–20 km í stað 40–45 km sem nú er. Mun þessi breyting skapa nýja og fjölbreytta möguleika í samvinnu þessara staða og er þegar farin að hafa áhrif á mótun framtíðarstefnu þeirra í ýmsum málum. Með greiðfærum vegi milli Þorlákshafnar og Grindavíkur mundu opnast nýir samgöngumöguleikar á svæðinu og ýmsar leiðir styttast til muna.

Sem dæmi má nefna að Grindavík-Þorlákshöfn um Reykjavík er nú um 110 km. Sú leið yrði aðeins um 60 km og mundi styttast um 50 km væri farið með suðurströnd Reykjanesskaga. Leiðin Hveragerði-Keflavík um Reykjavík er um 95 km. Sú leið mundi styttast um 25 km eða niður í um 70–80 km. Leiðin milli Suðurlandsundirlendis og Suðurnesja mundi styttast að öllu jöfnu um 30–50 km.

Sé horft til þeirrar miklu umferðar sem er á milli þessara landsvæða er vart sjáanlegt annað en að vegur sem mundi stytta þessa leið svo mikið væri hagkvæmur. Það skal þó tekið fram að erfitt er að reikna nákvæmlega út þessar vegalengdir, en við lauslega athugun sem gerð hefur verið er talið að stytta megi leiðina um allt að 10 km eða niður fyrir 60 km með breytingu á vegarstæði frá því sem nú er og fælist m.a. í því að gatnamót á Þrengslavegi yrðu nær Þorlákshöfn ámóta við þann veg sem liggur nú að Ölfusárbrú. Það þarf þó að meta hvort æskilegt sé út frá náttúruverndarsjónarmiðum og öðrum þáttum sem upp kunna að koma.

Þá má það koma fram í þessari umræðu að raddir hafa verið innan Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um möguleika á gerð þessa vegar, svo og lagningu vegar af Grindavíkurvegi við Svartsengi til Njarðvíkur. Slíkur vegur mundi stytta leiðina milli Grindavíkur og Keflavíkursvæðisins og vera liður í að þétta byggð og auka samvinnu milli þéttbýlisstaðanna á Suðurnesjum. Sömuleiðis er mikið rætt um lagfæringu á vegi frá Grindavík að sjóefnavinnslunni á Reykjanesi. Þar hafa verið gerðar miklar vegabætur á hluta leiðarinnar og má segja að vanti aðeins herslumuninn á að ljúka þar greiðfærum vegi milli þessara staða og þar með alla leiðina frá Grindavík að Höfnum. Þótt þáltill. fjalli ekki um þessa leið er sjálfsagt að minna á hana í þessari umræðu.

Víst er að greiðfær vegur af Suðurlandsvegi við Hveragerði til Suðurnesja með suðurströnd Reykjanesskaga yrði mikið notaður af þeim sem erindi eiga milli þessara byggðarlaga. Hann yrði styttri, fljótfarnari og jafnvel greiðfærari á vetrum en leiðin yfir Hellisheiði og um Reykjavík til Suðurnesja þar sem hann lægi með sjó fram og ekki eins hátt og vegurinn yfir Hellisheiði.

Suðurlandsvegur um Kamba er aðalsamgönguæð Suðurlands og mikils hluta Austurlands til Reykjavíkur. Um þennan veg fara nú um 3000 farartæki á dag að jafnaði. Þá verða þeir sem aka milli þessara landshluta Suðurnesja að aka í gegnum höfuðborgarsvæðið og Reykjanesbraut eða Keflavíkurveg eins og hann er jafnan nefndur. Það er í reynd eina samgönguæðin til og frá Suðurnesjum og daglega fara um hann um 4000 bílar. Með gerð vegar um suðurströnd Reykjanesskaga væri því dregið úr þeirri miklu umferð sem nú liggur um Reykjanesbraut og þegar er orðin mun meiri en brautin getur þjónað með öruggu móti svo sem dæmi sanna. Með þessari vegarlagningu væri því gengið skref til móts við réttmætar kröfur landsmanna um aukið öryggi á þessari leið. Einnig mundi vegurinn draga úr umferðarþunga á Reykjavíkursvæðinu sem ekki er vanþörf á.

En fleiri rök má nefna. Aðalflugvöllur landsins er á Suðurnesjum og um hann fer allt áætlunarflug til og frá landinu. Fjöldi fólks af Suður- og Austurlandi á leið til og frá Suðurnesjum af þeim ástæðum án þess að eiga nokkurt annað erindi til Reykjavíkursvæðisins. Sömuleiðis fer allur út- og innflutningur varnings með flugvélum fram um Keflavíkurflugvöll. Með styttri leið milli þéttbýlisstaðanna á Suðurlandi og flugvallarins opnuðust nýir möguleikar til slíkra hluta. Þá er nú þegar hafin samvinna milli Þorlákshafnar, Eyrarbakka, Stokkseyrar og Selfoss við fiskmarkað Suðurnesja. Fullvíst er að sú samvinna mun verða öflugri og fjölbreyttari ef gert verður auðveldara að flytja fisk landleiðis milli þessara byggðarlaga en nú er. Allir sjá að leið sem er um 30 km styttri en sú sem nú er farin mundi greiða fyrir slíkri samvinnu.

Einn er sá þáttur sem ekki má vanmeta, en það er að með þessum vegi opnast ný leið fyrir ferðamenn og þá aðra sem kjósa að aka um og skoða landið. Enginn vafi er á að margir erlendir ferðamenn mundu vilja hefja ferðir sínar í hópferðum, bílaleigubílum eða á annan máta á vit Gullfoss og Geysis og annarra staða frá Keflavíkurflugvelli eða hótelum á því svæði. Fyrir slíka er leið með suðurströnd Reykjanesskaga ekki síður áhugaverður kostur en að aka Reykjanesbraut. Má í því sambandi m.a. minna á Krísuvíkursvæðið sem er athyglisvert til skoðunar. Fyrir þá sem standa stutt við og ekki hafa möguleika á langri ferð um landið er kynnisferð umhverfis Reykjanesskagann álitlegur kostur sem margir mundu án efa nýta sér ef unnið væri að.

Þá má til viðbótar nefna allan þann fjölda fólks á höfuðborgarsvæðinu og í næstu byggðum sem á fríhelgum og í annan tíma kýs að aka um og virða fyrir sér landið. Suðurströnd Reykjanesskaga er fjölbreytileg í náttúrulegu tilliti sem vissulega má vekja meiri athygli á en nú er gert. Það hlýtur að vera eitt af markmiðum okkar allra að sem flestir þekki landið og njóti þess.

Enn má nefna að ýmsir telja næsta fullvíst að eftir að Krísuvíkurheimilið verður tekið til notkunar fyrir vímuefnasjúklinga muni þurfa að endurbæta að verulegu leyti þann veg sem þangað liggur nú. Með gerð þess vegar sem hér hefur verið rætt um tengdist Krísuvík góðum vegi. Sömuleiðis tengdi þetta byggðina í Selvogi betur helstu umferðaræðum.

Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi míns máls er það ekki spurning í mínum huga hvort þessi vegur verður lagður heldur miklu fremur hvenær. Við þekkjum öll hve miklar breytingar hafa orðið á samgöngum hér á landi síðustu árin. Þar hefur ekki einasta ráðið aukið bundið slitlag á vegi heldur einnig uppbygging nýrra vega og leiða sem illfærar voru. Áhrif þessa hafa orðið margþætt, en fullyrða má að við það hafi skapast nýir möguleikar fyrir samvinnu sveitarfélaga og fyrirtækja sem áður voru óhugsandi.

Markmiðið með lagningu vegar með suðurströnd Reykjanesskaga er einmitt hvað helst það að greiða fyrir samskiptum þeirra staða sem við það nálgast og opna með því nýja möguleika fyrir íbúa þeirra til að treysta sinn hag. Það eru því mörg og sterk rök sem liggja til grundvallar því að hagkvæmt sé og eðlilegt að lagður verði greiðfær vegur milli Grindavíkurvegar og Þrengslavegar eins og hér hefur verið vikið að. Svo unnt sé fyrir Alþingi að taka ákvörðun um lagningu hans þurfa að liggja fyrir kostnaðar- og framkvæmdaáætlanir og því er lagt til að samgrh. láti gera þær og leggja niðurstöðurnar fyrir Alþingi á hausti komanda.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. atvmn.