30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

153. mál, lagning vegar með suðurströnd Reykjanesskaga

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Góðar samgöngur eru forsenda byggðar og nýrrar byggðaþróunar. Stundum er sagt að vegir séu æðakerfi þjóðarlíkamans. Þeir ráða þrótti og framgangi héraðanna. Séu vegirnir lélegir fækkar ferðum um héruðin, ekki síst eftir að fólk hefur vanist hinum fullkomnu vegum. Sú ástæða er ein oft næg til þess að fólk yfirgefur jafnvel gjöfular byggðir eins og dæmin sanna.

Sú hugmynd sem hér er kynnt og farið fram á að Alþingi feli samgrh. að gera kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um veg með suðurströnd Reykjanesskaga milli Þorlákshafnar og Grindavíkur er mikilvæg framtíðarinnar vegna. Ég er sannfærður um að af mörgum ástæðum er hér hreyft mikilvægu máli sem ekki einungis er til að þjóna ferðalöngun fólks heldur yrði í eðli sínu vegur sem vegna legu sinnar og samtengingar mikilla útgerðarstaða yrði hagkvæmur sé horft til framtíðar, eins og fram kom í máli hv. 1. flm. og hv. 1. þm. Reykn.

Með tilkomu Ölfusárbrúar við Óseyrarnes kemst í framkvæmd margvísleg samvinna á svokölluðu árborgarsvæði á öllum sviðum. Það má ætla, verði vel að verki staðið heima fyrir, að þetta svæði verði mikið hagsældarsvæði og muni verða í stakk búið til að takast á við ný verkefni og margvísleg og muni veita höfuðborgarsvæðinu verulega samkeppni um mannafla og atvinnufyrirtæki á næstu árum og áratugum sem yrði byggðaþróun í landinu til heilla.

Því er þetta nefnt að þegar er ákveðin þróun hafin, eins og hér hefur komið fram, þar sem er stofnun fiskmarkaðar á Suðurlandi sem mun tengjast í nánu samstarfi við fiskmarkað Suðurnesja. Enn fremur má hugsa sér að þessi vegagerð mundi skapa það að menn nýti hafnirnar í enn ríkari mæli með hagkvæmni í huga, Suðurnesjabátar landi í Þorlákshöfn og öfugt og aflanum verði ekið á milli staða. Eins og fram kemur í tillögunni mundi þessi vegur stytta leið á milli Suðurlandsundirlendis og Suðurnesja um 30–50 km sem er mikil vegalengd.

Enn fremur gæti aukið samstarf Sunnlendinga og Reyknesinga fætt af sér margt fleira sem yrði byggðaþróun í landinu til farsældar. Má þar t.d. nefna ef þessi byggðarlög sameinuðust um t.d. inn- og útflutningshöfn. Hér hefur komið fram í umræðunni að þeir eiga sameiginlegra hagsmuna að gæfa í grein sem mun hafa mikil efnahagsleg áhrif, vonandi til heilla á Íslandi. Þar á ég við fiskeldið.

Staðhættir með Reykjanesskaganum til Þorlákshafnar eru þannig að vegur meðfram ströndinni yrði tiltölulega ódýr. Vegarstæðið er gott og undirbygging yrði ódýr. Ég álít að ef og þegar í þessa framkvæmd verður ráðist eigi vegurinn að liggja sunnan Selvogsheiðar með sjónum til Þorlákshafnar. Selvogsheiðin er snjóþung og í rauninni eini staðurinn á þessari leið sem er það, en fyrir sunnan heiðina og fyrir neðan er snjólétt eins og annars staðar þarna um slóðir. Enn fremur mundi vegur sunnan heiðarinnar stytta leið úr Selvogi til Þorlákshafnar um helming, yrði aðeins 13–14 km, en mun nú vera um 30 km. Það er brýnt þar sem brátt mun Selvogshreppur tilheyra Ölfushreppi. Athyglisvert er að brátt er Selvogurinn í auðn verði ekkert aðhafst, en í gegnum aldirnar var Selvogurinn byggðarlag þar sem menn komust bærilega af og byggðin var bæði þétt og fjölmenn. Það má ætla að enn væri gróska og uppgangur í Selvogi ef byggðin væri í góðu vegasambandi austur og vestur.

Vegur meðfram Reykjanesi er enn fremur líklegur til að þjóna miklum tilgangi í ferðamálum Íslendinga, ekki síst í sambandi við Keflavíkurflugvöll. Vegurinn yrði láglendisvegur, mun hættuminni hvað hálku og ófærð varðar en Reykjanesbrautin svo ég tali nú ekki um Hellisheiði og Þrengslaveg. Því er spáð að fjöldi erlendra ferðamanna til Íslands muni fjórfaldast á næstu 15 árum, verði um 400 þús., og í vaxandi mæli koma jafnar á öllum árstíðum, ekki síst ef við förum að vekja athygli á hinni raunverulegu náttúru landsins og þeim sérstöku aðstæðum sem hér eru til útivistar, ekki síst að stunda útiveru í stórbrotinni náttúru hálendisins, í skíðaferðum, vélsleðaferðum, fjalla- og jöklaferðum á þeim tíma árs þegar náttúra landsins þolir best slík ferðalög.

Því má ætla að þessi vegur muni þjóna vel og gera kleift að erlendir ferðamenn komist eftir auðum og öruggum vegi beina leið þangað sem ferðinni er heitið. Hvers vegna eiga allir ferðamenn sem til landsins koma endilega að byrja ferð sína með því að fara til höfuðborgarinnar þegar fyrst og fremst er kannski ætlunin að fara til staða á Suðurlandi sem landið er þekktast af, þar á ég við Gullfoss og Geysi og Vestmannaeyjar og fleiri staði?

Eins og fram kemur í grg. mundi þessi vegur draga úr umferð um Reykjanesbraut og einnig úr umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu sem nú er full þörf á. Sunnlendingar sem fara til útlanda mundu fara þessa leið suður með sjó og talsvert stór hópur erlendra ferðamanna færi beinustu leið á áfangastaðina í upphafi ferðar sinnar, eins og ég hef þegar getið.

Ég tel að reyndar þurfi Íslendingar að íhuga með hvaða hætti þeir ætla að mæta þeirri gífurlegu fjölgun ferðamanna sem spáð er og hér hefur verið nefnd. Þar verður að gera áætlanir um fleira en hótel. Vegir og samgöngur vega þar þungt.

Ég ítreka að sú vegagerð sem hér eru gerð áform um er af mörgum ástæðum bæði mikilvæg og ekki síður hagkvæm. Þar eru í mínum huga hin félagslegu atriði sem vega þyngst, aukið samstarf þéttbýlisstaðanna á Suðurlandi og á Reykjanesi sem þegar reyndar á sér stað og er áformað um. Hagnaðurinn yrði fólginn í sparnaði í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu, gæti jafnvel sparað það að leggja annan veg meðfram Reykjanesbrautinni eins og oft er nefnt, og mundi jafnvel skapa aukin ferðalög útlendinga til landsins, ekki síst stuttar ferðir þar sem flugfélög og ferðaskrifstofur byðu upp á ferðir beina leið að svæðunum sem best hafa selt landið og gert það að ferðamannalandi.

Því bið ég þm. að skoða þessa þáltill. með þessi og mörg önnur atriði fyrir augum og átta sig á þeirri hagkvæmni sem í þáltill. er fólgin ef í vegagerð verður ráðist.