30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

153. mál, lagning vegar með suðurströnd Reykjanesskaga

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég tel að í þessari þáltill. felist hið ágætasta mál og vil ekki láta undir höfuð leggjast að láta í ljós ánægju mína með að það skuli vera flutt á Alþingi. Ég er sannfærður um að vegargerð á þeim slóðum sem gert er ráð fyrir samkvæmt till. mundi vera til mikilla hagsbóta bæði fyrir Suðurland og Reykjanes. Það þarf ekki að hugsa til eldgoss eða ferðamannastraums einu sinni í því sambandi, atvinnulega séð mundi þetta skipta miklu máli. Samgöngulega séð fyrir byggðirnar og til að tengja þær saman er þetta áreiðanlega mikilvægt verk.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um málið, en ég tel að hér sé hreyft hinu ágætasta máli og að það sé sjálfsagt að taka þetta inn sem einn af þeim valkostum sem við þurfum að hyggja að í sambandi við samgöngumál á suðvesturhorni landsins á komandi árum.