15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Það er vitaskuld ekki að ófyrirsynju að efnt sé til umræðna utan dagskrár í hv. sameinuðu Alþingi þar sem nýlega framlagt frv. til fjárlaga 1988 hlýtur beint og óbeint að snerta hug manna og raunar alla þjóðmálaumræðu, enda birtist þar efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar og verður að auki meginviðfangsefni þingsins næstu vikur og mánuði.

Að minni hyggju er þetta frv. annálsvert og því vert allrar athygli fyrir margra hluta sakir. Hér er í fyrsta sinn verið að leggja grunn að fjárlögum ríkisins eftir að staðgreiðsla beinna skatta til ríkis og sveitarfélaga hefur verið lögleidd. Sú staðreynd ein hefði átt að nægja til þess að menn hefðu vandað þetta verk svo sem frekast er kostur og gætt þess sérstaklega að hvergi væri flausturslega að staðið, hvað þá að uppprentun hefði nánast orðið daglegt brauð eins og hér virðist því miður hafa orðið raunin. Það einkenni þessa frv. að ná jöfnuði á A-hluta ríkissjóðs, sem mjög er af gumað í fjölmiðlum, tel ég að hefði átt að vera meginregla og ekki síst í góðæri eins og við óneitanlega höfum búið við að undanförnu. Vitaskuld verður slíku sjálfsögðu markmiði ekki náð nema með aukningu tekna ellegar niðurskurði gjalda nema hvort tveggja sé. Annars skildist manni nú á ríkjandi öflum fyrri hluta þessa árs að allt væri hér á réttri leið þannig að harkan á haustdögum skýtur því óneitanlega skökku við — eða var þar kannski ekki allt af heilindum mælt?

Jú, verkefnið er ljóst. En það sem að minni hyggju er gagnrýni vert og það stórlega er hvert er seilst í skattlagningu og niðurskurði. Það er gagnrýni vert að henda verkefnum í sveitarfélög án alls eðlilegs undirbúnings. Sú er ætlunin með stóra, viðamikla málaflokka og verkefni sem vitaskuld eru í miðjum klíðum hjá sveitarfélögum og ríki og eins misjafnlega á vegi stödd og sveitarfélögin eru mörg og margvísleg að stærð og aðstöðu allri. Ég nefni þar t.d., eins og hér hefur margoft komið fram í umræðum í dag, dagvistarstofnanir allar, félagsheimili, íþróttamannvirki, tónlistarskóla, byggðasöfn, vatnsveitur. Ég þarf ekki að taka fram, sem öllum þingheimi er vitaskuld kunnugt, að það er eitt af megineinkennum og sérkennum þessa þjóðfélags hve sveitarfélögin íslensku eru einmitt mörg og misjöfn að stærð og þar með þrótti til að takast á við verkefni sín. Þess vegna er ótækt með öllu að standa þannig að verki, sem hér er gert, að þveita inn í fjárlagafrv. og síðan fjárlög, sem gilda auðvitað aðeins eitt ár, mjög viðamiklum og viðkvæmum viðfangsefnum án þess nauðsynlega undirbúnings, án þeirrar kynningar og án þess samráðs sem auðvitað hefði átt að vera alger forsenda breytinga af þessu tagi. Í öllum þessum málaflokkum er um að ræða óuppgerðar sakir ríkisins við sveitarfélögin sem ekki verður með neinu móti séð af þessu frv. hvernig að skuli farið. Og þess vegna er ekki að furða þó að margan gruni að þá sé ætlunin að sá sterki láti þann veika aflsmunar kenna. Við sjáum hvað setur, en vissulega vekur þetta atriði tortryggni.

En það sem mér finnst verst við þetta frv. og þær skattalagabreytingar sem mér virðast í burðarlið er að engin tilraun er gerð til að ná meiri jöfnuði í skattlagningu en verið hefur og minnka möguleikana á landlægu undanskoti. Stórhækkaðar skattaálögur eru ýmist staðreynd eða á næsta leiti og það er einmitt aðferðin til þeirrar skattheimtu sem er ógeðfelldust, fæðuskattar og fleira í þeim dúr sem leggjast þyngst á þá sem síst skyldi. Öllum er þó ljóst að óbeinu skattarnir skipta langmestu máli í tekjuöflun ríkisins, en jafnframt að eftirlit með innheimtu þeirra er býsna brotakennt. Þess vegna gegnir sérstakri furðu að ekki skuli valin sú leið skattheimtu og nánast ekkert rædd, ekki hið minnsta, sem örugglega skilar miklu betri árangri, miklu einfaldari í allri framkvæmd og er þar með réttlátara skattform. Þar á ég við söluskatt á fyrsta stig, söluskatt í tolli. Mín meginniðurstaða er því, sú sem ég hlýt að harma, að það eru tveir aðilar öðrum fremur í þessu landi sem bera hér skarðan hlut frá borði, launþegar, og þá einkum þeir sem hafa miðlungstekjur eða í lægri kanti, og landsbyggðin.

Fulltrúar launþega og landsbyggðar á hinu háa Alþingi eiga því samleið hér á næstu vikum og væntanlega mánuðum að færa margt í betra horf en nú stefnir. Ég kvíði því í sjálfu sér í engu. Til þess erum við nógu mörg og til þess erum við nógu sterk. Auðvitað er fjöldi mála sem heitt brennur á landsbyggðarfólki þó að vega- og önnur samgöngumál beri þar hæst. Þau eru vitaskuld mörg. En trúa mín er sú að nú verði tekist á þannig að víða muni í hrikta. Það hefur bryddað á því hér í dag. Það hefur komið víða fram báðum megin borðs. En hvorum megin borðs sem menn hafa skipast, í lið stjórnar ellegar stjórnarandstöðu, þá er það mest um vert að þau fjárlög sem hér verða væntanlega samþykkt á þessu haustþingi auki ekki enn á byggðaröskunina heldur öfugt. Mætti gæfa Alþingis verða sú að þau leggi frekar grunn að hagstæðari byggðaþróun en verið hefur um langt skeið. Það er þjóðarnauðsyn. En til þess að svo verði þarf sannarlega breytta stefnu og að henni vil ég vinna.