02.12.1987
Efri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

137. mál, launaskattur

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Í sambandi við það frv. til laga sem hér hefur verið lagt fram þykir mér rétt að taka fram eftirfarandi:

Kvennalistinn hefur alla tíð litið svo á að jafna skuli aðstöðu hinna ýmsu atvinnugreina, að jafna skuli þau skilyrði sem þær búa við. Sú skattlagning sem hér er lögð til, þ.e. launaskattur á allar atvinnugreinar nema landbúnað, er hins vegar vafasöm mjög á þessari stundu. Ég fagna hins vegar þeirri ákvörðun sem fram kemur í frv. um að ekki skuli skattleggja landbúnaðinn vegna þess að sú úlfakreppa sem hann er kominn í er auðvitað fyrst og fremst stjórnvöldum og handahófskenndum aðgerðum þeirra og niðurskurði að kenna á liðnum árum.

Meginástæður þess að við kvennalistakonur getum ekki stutt álagningu launaskatts á sjávarútveginn núna eru einkum tvær: Í fyrsta lagi er hér nánast um hreinan dreifbýlisskatt að ræða og mér er spurn: Heldur fólk að dreifbýlið þoli enn eitt áfallið ofan á það aðgerðarleysi eða öllu heldur þá aðför sem stjórnvöld ætla sér að gera enn einu sinni að íbúum landsbyggðarinnar? Allir sem til þekkja vita að víða úti á landsbyggðinni er almenn og sjálfsögð þjónusta, menntun, menning, húsnæðis- og atvinnumál í molum, svo að eitthvað sé nefnt, eftir sinnuleysi og aðgerðarleysi stjórnvalda í málefnum landsbyggðarinnar á undanförnum árum.

Í því fjárlagafrv. sem nú hefur verið lagt fram er ekkert sem bendir til að ríkisstjórnin ætli að ráða bót á þessu, en það er nú reyndar ótrúlegt hve minni manna nær skammt eftir allt landsbyggðartalið fyrir kosningar sl. vor.

Í öðru lagi ber að hafa í huga að enn er ekkert um það vitað hvernig fiskveiðistefna næstu ára verður. Öllum ber saman um að draga verði úr veiðum en sá samdráttur mun auðvitað fyrst og fremst koma niður á þeim stöðum og því fólki sem nú er verið að leggja auknar byrðar á án þess að neitt komi á móti.

Herra forseti. Það er ekki hægt að fjármagna sóun og stöðugan halla á ríkissjóði undanfarin ár með skattlagningu sem þessari. Við kvennalistakonur erum, eins og ég gat um áðan, hlynntar því að allar atvinnugreinar búi við sem jöfnust skilyrði, að einni sé ekki hyglað umfram aðra, en þetta er ekki rétti tíminn til þess að gera þá breytingu sem hér er lögð til.