02.12.1987
Efri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

137. mál, launaskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Að því er varðar þær áhyggjur manna að mjór sé mikils vísir og að áform séu uppi um að hækka launaskattinn vil ég aðeins segja þetta: Í starfsáætluninni var gert ráð fyrir því að taka upp samræmdan launaskatt sem yrði fremur lágur, sem hefði hins vegar falið í sér að lækka launaskatt einmitt í verslun og þjónustu sem fyrirferðarmest er hér á suðvesturhorni landsins. Það þótti ekki fært við ríkjandi skilyrði, þenslu á þessu svæði. Þess vegna var ákveðið að taka þetta í áföngum. Áformin voru um launaskatt 1–11/2% fyrir atvinnulífið í landinu í heild án mismununar. Þetta er skýringin að það skref var ekki stigið að sinni. Áform um hækkun eru hins vegar ekki.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara hér í almennan eldhúsdag að þessu sinni um þjóðarsátt, um gengisstefnu eða fiskveiðistefnu. Til þess munu gefast næg tækifæri á næstunni. Til mín var beint tveimur spurningum. Annars vegar um það hvaða álögur væru lagðar á fiskirækt og fiskeldi. Því miður hef ég þær tölur ekki handbærar og verð því að láta mér nægja að lofa því að svara þeirri spurningu eftir einhverja skoðun. En hitt er rétt að komi fram að þær launafjárhæðir sem hér hefur verið miðað við eru miðað við árið 1988, endurskoðaða áætlun frá 25. nóv., 11 milljarðar að því er varðar fiskveiðar og 9 milljarðar að því er varðar fiskvinnslu. En 1% skattur af þessum fjárhæðum næmi þá í heild 110 millj. að því er varðar fiskveiðar og 90 millj. að því er varðar fiskvinnslu. Nánari tölur hef ég ekki um það, en lofa hv. fyrirspyrjanda að kanna það sérstaklega og koma þeim upplýsingum á framfæri.

Í annan stað var spurt hvenær væri að vænta annarra þeirra frumvarpa er varða tekjuhlið fjárlagafrv. og boðuð hafa verið. Þegar hafa verið lögð fram nokkur þeirra, þ.e. frv. til laga um staðgreiðslu og frv. til laga um breyt. á lögum um tekju- og eignarskatt sem við getum sagt að sé það frv. sem markar skattbyrðina í hinum nýja staðgreidda tekjuskatti og verður væntanlega lagt fram á hinu háa Alþingi í dag. Frv. um launaskatt er hér fram lagt. Frumvörp um endurskoðun tollskrár hafa lengi verið til umfjöllunar í ríkisstjórn og eftir bestu vitneskju er þess vænst að sjálft frv. um tollskrána verði fullbúið nk. mánudag. Þetta er eins og hv. þm. er kunnugt frá fyrri tíð viðamikið verk og mun vera einhvers staðar á bilinu 350–400 blaðsíður. Á grundvelli þess verða síðan lögð fram tvö önnur frumvörp sem bæði eru í umfjöllun ríkisstjórnar, þar af annað í umfjöllun þingflokka stjórnarflokkanna, þ.e. um vörugjald og samræmdan söluskatt. Ég þori ekki að fullyrða á hvaða degi almanaksins þessi frumvörp verða afgreidd endanlega af stjórnarflokkunum í heild til framlagningar á Alþingi, en vænti þess að það verði einhvern hinna næstu daga.

Önnur frumvörp sem einnig eru tilbúin og hafa verið lögð fram til kynningar í ríkisstjórn og hjá stjórnarflokkum eru frv. til laga um breytingu á svokölluðum húsnæðissparnaðarreikningum, frv. til laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, frv. til laga um sérstakt gjald af verktökum ásamt með tveimur öðrum frumvörpum, þar á meðal eitt sem reyndar hefur þegar verið lagt fram hér og varðar Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef að gefa á þessu stigi máls um það hvar þessi frumvörp eru stödd.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þessi frv. eru síðbúin og hefði gjarnan kosið að þau hefðu verið lögð fram fyrr. Á hitt er að líta að það er ekki lítið verk að endurskoða löggjöf sem varðar kannski 70–80% af tekjuöflun ríkisins á tiltölulega skömmum tíma, á sama tíma og um er að ræða mesta álagstíma í fjmrn. við undirbúning fjárlagafrv. og lánsfjárlaga. Þegar því er síðan við að bæta, þrátt fyrir allt tal um Parkinson í ríkisrekstri, að þeir starfsmenn sem að þessu hafa unnið á undanförnum vikum, reyndar dag og nótt og allar helgar, eru ekki nema 4–5 talsins.