02.12.1987
Efri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

141. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyt. á lögum nr. 33 frá 1983, um bann við ofbeldiskvikmyndum. Meðflm. minn er Danfríður Skarphéðinsdóttir, þingkona Kvennalistans. Ég fer fram á það að hæstv. menntmrh. verði sóttur á þennan fund. Hann bað sérstaklega um það að fá að vera viðstaddur og ég geri því hlé á máli mínu þangað til hann kemur. (Forseti: Það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að ná í hann og hann kemur innan tíðar. ) Ég vil þá mæla fyrir þessu frv. áfram.

1. gr. frv. hljóðar svo: „Úr 6. gr. laganna falli brott orðin „og gilda til ársloka 1987“.“

Og 2. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Þetta frv. er flutt til þess að lög um bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 33 23. mars 1983, falli ekki úr gildi við árslok 1987. Þau tímatakmörk eða „sólarlagsákvæði“ sem sett voru í lögin komu til vegna brtt. sem fram komu við umræður um málið hér á þinginu. Forsendur tillögunnar voru þær að varasamt gæti verið að beita ritskoðun eða bönnum í menningarmálum. Slíkt gæti haft alvarleg áhrif á listsköpun. Einnig var bent á það að hin nýja myndbandabylting, sem einmitt var tilefni til flutnings frv., byði upp á sérstakar aðstæður sem kynnu að breytast þegar meira jafnvægi kæmist á. Flm. brtt. féllust þó á það að full ástæða væri til þess að samþykkja slík lög, en rétt væri að endurskoða þau að nokkrum árum liðnum. Mig langar að vitna lítillega til umræðunnar sem átti sér stað um þetta frv. á þinginu 1983, með leyfi forseta, þegar þáverandi menntmrh., Ingvar Gíslason, mælti í 2. umr. fyrir málinu. Hann sagði:

„Ég vil taka það fram, eins og ég gerði þegar ég flutti framsöguræðu fyrir þessu máli, að vissulega er hér um mjög alvarlegt mál að ræða, þegar til þess ráðs er gripið að hvetja til ákveðins banns á slíkum kvikmyndum, vegna þess að það er nokkurn veginn sannað mál að þessar kvikmyndir, sem hér er um að ræða, hafa mjög ill uppeldisleg áhrif á börn og jafnvel eldra fólk sem þær sér. Ég held því að það sé mikil nauðsyn að grípa inn í þetta.

Hitt vil ég reyndar taka fram, að það er mjög alvarlegt í sjálfu sér að þurfa að grípa til slíkrar ritskoðunar, ef svo má til orða taka. Vissulega er þetta „sensúr“, eins og það heitir á útlendum málum, en eigi að síður kann það stundum að vera eðlilegt að beita slíkri hörku í lagaframkvæmd. En ég vil taka það fram að með þetta vald verður vissulega að fara með mikilli gát, og það má alls ekki líta svo á, að hér sé verið að fara út í að ritskoða kvikmyndir af engu tilefni. Ég vil að það komi mjög skýrt fram, enda veit ég að hv. menntmn. er mér sammála um það. Ég hef lagt á það mikla áherslu að hér hlýtur að vera um undantekningaratriði að ræða, en eigi að síður hef ég fallist á þau rök sem fram hafa komið í ítarlegum viðræðum margra áhugaaðila og uppalenda hér í landinu þar sem ég hef verið viðstaddur, að það sé nauðsynlegt að grípa til kvikmyndaskoðunar með þessum hætti.“

Brtt. kom fyrst og fremst frá Vilmundi heitnum Gylfasyni og ég vil vitna í orð hans vegna þess að þetta eru sannarlega athugasemdir og mótbárur í málinu sem eiga rétt á sér, en þegar um undantekningaratriði er að ræða þá getur verið að það þurfi að líta fram hjá þeim, en ég vil gjarnan að þessi sjónarmið komi fram. En Vilmundur sagði í sínu máli, með leyfi forseta:

„Ég vildi aðeins að þau sjónarmið kæmu fram við þessa umr. að ég er einn af þeim sem er og vil vera og tel að við eigum að vera ákaflega feimin í öllum slíkum lagasetningum, þar sem verið er að leggja til boð og bönn. Ég undirstrika þó að mér er fullkunnugt um að hér er átt við mjög sérstakt vandamál, þ.e. að vegna algerra tækninýjunga í því sem kallað hefur verið vídeó hefur komið inn í landið eftirlitslaust og hafa verið sýndar börnum og unglingum kvikmyndir af því tagi að vitaskuld mundu ekki teljast boðlegar undir nokkrum kringumstæðum í tengslum við neitt það sem siðmenning getur kallast. Vegna þessara sérstöku aðstæðna og vegna þess að tæknibylting hefur farið fram má út af fyrir sig leiða að því gild rök, eins og bæði hv. frsm. og hæstv. menntmrh. hafa raunar gert, að hér sé um tímabundna nauðsyn að ræða.

En engu að síður, vegna þess og til undirstrikunar því hvað þessar brautir geta verið hættulegar, og þegar menn eru að setja lög af þessu tagi hafa þeir í huga tilteknar kvikmyndir, margar reyndar, sem eru víst svo andstyggilegar að orð fá vart lýst, mega menn aldrei gleyma að lagasetning af þessu tagi felur í sér hættur.“

Síðan heldur hann áfram: „En ég viðurkenni þó um leið þetta frv. Þar er verið að taka á tilteknum vanda. Menn hafa tiltekið efni í huga þegar lögin eru sett. Hvergi skal úr því dregið að það er beinlínis viðurstyggilegt, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Mundi ég þó telja æskilegt að vandlega væri athuguð milli 2. og 3. umr. þessa máls, ef um það næðist samkomulag, hvað hér er verið að fjalla um hættulegt prinsipp, þó að það vefjist ekki fyrir nokkrum manni að hin tímabundna nauðsyn er til staðar hvort ekki sé skynsamlegt einmitt í málum af þessu tagi að um leið og lögin eru sett sé í þeim ákvæði um að þau vari t.d. til fimm ára, að lögin falli úr gildi að fjórum eða fimm árum liðnum og hv. Alþingi þurfi þá að endurnýja lögin ef ástæða þykir til.“

Mig langar enn að vitna í fylgiskjal sem fylgdi með frv. þegar það var lagt fram. Það er ályktun norrænna kvikmyndaeftirlitsmanna um ofbeldis- og fíkniefnamyndir, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi ályktun var samin og samþykkt af fulltrúum kvikmyndaeftirlitsstofnana Norðurlanda og lögð fyrir alþjóðlega ráðstefnu kvikmyndaeftirlitsmanna í London 22.–26. mars 1982. Í fyrsta skipti í sögunni hittast kvikmyndaeftirlitsmenn 28 þjóðlanda og fjögurra kanadískra fylkja til ráðstefnu í London í boði breska kvikmyndaeftirlitsins. Meðal hinna fjölmörgu efna sem við höfum rætt olli eftirfarandi okkur sérstökum áhyggjum. Vaxandi ofbeldi í heiminum gerir okkur órótt og einnig hversu fjölmiðlar fjalla um það á ágengan hátt og í smáatriðum. Þetta gildir bæði um raunverulegt ofbeldi í stríði, hryðjuverk og glæpi og ofbeldi sem sýnt er í afþreyingarskyni í kvikmyndum, á myndböndum og í sjónvarpi.

Þótt það sé fyrst og fremst afþreyingarofbeldi sem kvikmyndaeftirlitsmönnum er ætlað að fylgjast með viljum við ekki loka augum fyrir því að tengsl geti verið milli þessara tveggja sviða ofbeldis. Við teljum að við stöðuga fóðrun á afþreyingu af ofangreindu tagi geti almenningur sljóvgast svo gagnvart ofbeldi í ýmsum myndum að neikvæð viðbrögð hafi veikst þegar staðið er frammi fyrir ofbeldi hins raunverulega lífs. Þessi vandi er sérstaklega alvarlegur þegar um er að ræða börn og ungmenni á því aldursskeiði sem þau eru viðkvæmust fyrir utanaðkomandi áhrifum.

Annað atriði sem veldur fulltrúunum áhyggjum er vaxandi fjöldi kvikmynda þar sem fíkniefnanotkun er sýnd. Nýr þáttur þeirrar þróunar birtist í fjölda mynda þar sem notkun þessara efna er sýnd undir spaugilegum kringumstæðum en í venjulegu og viðurkenndu umhverfi. Hvort sem um er að ræða ofbeldi eða fíkniefnanotkun, þá höfum við mestar efasemdir um atriði sem gætu haft þau áhrif að hvetja til eftirlíkingar og mætti taka sem fordæmi til eftirbreytni. Og enn skal ítrekað að hér höfum við fyrst og fremst ungmenni í huga.

Þar til fyrir skömmu hafa hörðu fíkniefnin sem svo eru stundum nefnd valdið mönnum mestum áhyggjum, en nú eru kannabisefni í miðju umræðunnar um skaðleg áhrif fíkniefna.

Dæmi eru um það að aðhaldssemi í kvikmyndaeftirliti hafi leitt til þess að ekki hafi þótt svara kostnaði að flytja inn kvikmyndir með grófu ofbeldisefni. Ef fleiri lönd bætast í hóp þeirra sem nú þegar beita takmörkunum gagnvart efni af þessu tagi mun það leiða til þess að fjárhagslegur ávinningur af framleiðslu slíkra kvikmynda minnki. Fulltrúarnir eru sammála um að beita sér fyrir því eftir því sem starfssvið þeirra framast leyfir að hamla gegn vaxandi ofbeldi og fíkniefnamisnotkun í heiminum.“

Þegar þetta stjfrv. lá fyrir þinginu var einnig á sama þingi flutt frv. til laga um breyt. á lögum nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna. Það frv. fluttu hv. þm. Eiður Guðnason og Kjartan Jóhannsson. Fjallaði það um breytingar sem gera átti á þeim lögum og þá sérstaklega hvað varðaði sýningu kvikmynda. Þar voru hugmyndir sem voru að mörgu leyti frábrugðnar þeim sem komu fram í stjfrv. en í umfjöllun í nefnd var tekið tillit til þeirra hugmynda að einhverju leyti og þær reyndar settar inn í þau lög sem síðar voru samþykkt og vildi ég geta þess í máli mínu.

Þær forsendur sem lágu til grundvallar þegar lögin voru samþykkt og bæði þessi frv. voru flutt eru í raun enn þá í fullu gildi. Það er jafnrík ástæða nú eins og þá til þess að vernda börn og ungmenni gegn skaðvænlegum áhrifum grófs ofbeldis. Það er reynsla og álit margra að framboð á slíku efni sé reyndar síst minna nú en þegar lögin nr. 33 frá 1983 voru sett. Þegar þessi lög voru sett voru jafnframt lagðar auknar skyldur á herðar Kvikmyndaeftirlitsins en ég hef grun um það að fjárhagur og aðstaða Kvikmyndaeftirlitsins hafi ekki að sama skapi verið bætt. Reyndar hef ég af þeim ástæðum borið fram fyrirspurnir um málefni þess, en grunur minn er sá að það hafi ekki reynst í stakk búið til að sinna þessum auknu verkefnum sem því voru falin og því hafi aukist ólöglegur innflutningur ýmissa myndbanda sem Kvikmyndaeftirlitið mundi ekki hafa samþykkt.

Þann 18. febr. 1985 gerði lögreglan könnun hjá myndbandaleigum á höfuðborgarsvæðinu með hliðsjón af myndbandalista frá Kvikmyndaeftirlitinu. Á honum voru um 70 titlar mynda sem Kvikmyndaeftirlitið hafði úrskurðað óhæfar til sýningar vegna ofbeldis eða kláms. Í þessari könnun fundust hundruð bannaðra myndbanda að sögn lögreglunnar.

Þann 22. des. 1986 var síðan aftur gerð leit í myndbandaleigum og þá á suðvesturhorni landsins af lögreglu og dómsmrn. Voru þá gerð upptæk meira en 10 þúsund myndbönd sem voru ólöglega innflutt og brutu í bága við lög um höfundarrétt, hegningarlög eða voru á bannlista Kvikmyndaeftirlitsins vegna ofbeldis eða kláms.

Ég held að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um þau skaðvænlegu áhrif sem ofbeldi er talið hafa á viðkvæman barnshuga sem er í mótun. Ég held ég þurfi heldur ekki að orðlengja eða ítreka það hversu íslensk börn eru oft afskipt vegna mikillar vinnu foreldra, hversu mikið þau þurfa að hafa ofan af fyrir sér sjálf og hversu oft þau sitja ein fyrir framan myndbandstæki án þess að nokkur sé með þeim til þess að skýra út fyrir þeim, hvað þá að banna eða þá til þess að ræða við þau á eftir um það sem þau sjá. Og skynjun og skilningur ungra barna er allt annar en fullorðinna. Ég held að ég þurfi ekki að orðlengja eða ítreka frekar hversu óheillavænleg þessi áhrif eru á börnin okkar.

Að lokum vil ég nefna að í ljósi þess sem ég hef þegar sagt þykir okkur flm. rétt að þessi lög haldi enn gildi sínu. En vitanlega þarf að fara fram frekari athugun á því hvert það ofbeldi er sem börnum er boðið upp á í hinum ýmsu ljósvakamiðlum.

Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til hv. menntmn. Ed. og 2. umr.