02.12.1987
Efri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

141. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Valgerður Sverrisdóttir:

Herra forseti. Ég vildi aðeins með örfáum orðum taka undir með hv. flm. Ég sé enga ástæðu til þess að ofbeldiskvikmyndum verði hleypt inn í þetta land núna um áramótin. Hafi verið þörf fyrir þetta ákvæði í lögunum árið 1983 álít ég að það muni vera nauðsyn nú.

Ég býst við að það geti verið rétt að frá listfræðilegu sjónarmiði geti þetta bann verið til trafala, en hitt skiptir okkur meira máli að vernda börnin og unglingana gegn skaðvænlegum áhrifum sem grófar ofbeldiskvikmyndir geta haft í för með sér.

Hitt er svo ekki síður áhyggjuefni, hversu slælega virðist hafa tekist til um eftirlit með myndbandaleigunum eins og kemur fram í grg. Þar virðast vera fáanlegir myndatitlar sem hafa verið úrskurðaðir óhæfir af Kvikmyndaeftirlitinu og auk þess þúsundir titla sem fluttir hafa verið inn ólöglega og hafa því aldrei farið fyrir dóm Kvikmyndaeftirlitsins.

Herra forseti. Ég vildi bara að það kæmi fram að ég er innilega sammála hv. flm. að þetta ákvæði í lögunum verði að gilda áfram eftir áramótin og ég lýsi ánægju með undirtektir hæstv. menntmrh. hvað þetta snertir.