02.12.1987
Efri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

141. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Álfheiður Ingadóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa eindregnum stuðningi við þetta frv. sem er til umræðu og ánægju með afstöðu hæstv. menntmrh. til þess.

Ég á ekki von á að það muni sæta minnstu gagnrýni að þessu sinni þó að gildistími þessara laga verði framlengdur áfram því að, eins og einn ræðumaður sagði hér áðan, það hljóta allir að sjá að það er fyllilega ástæðulaust einmitt núna að fara um áramótin næstu að hleypa ofbeldiskvikmyndum óhindrað inn í landið.

Hér er ekki um ritskoðun að ræða, að mínu viti, og ég tel að hugtakið ritskoðun eigi ekkert skylt við það sem um er að ræða sem er bann við ofbeldiskvikmyndum í því skyni að vernda börn og ungmenni gegn skaðlegum áhrifum og ótta sem ofbeldiskvikmyndir vissulega hafa í för með sér. Ritskoðun hvað kvikmyndir varðar er ekki bann af þessu tagi. Ritskoðun kvikmynda er fólgin í því þegar teknir eru heilir eða hálfir kaflar úr kvikmyndum og þær klipptar niður og þar með eyðilagðar sem listaverk og sem sjálfstæð heild. Þetta á því ekkert skylt hvað við annað og ég tel ekki að þarna togist á sjónarmið um ritskoðun annars vegar og tjáningarfrelsi hins vegar á einn eða annan máta.

Það er, að mínu viti, mjög nauðsynlegt að hamla gegn þeim áhrifum sem ofbeldiskvikmyndir hafa vegna þess að ofbeldiskvikmyndir leiða af sér ekki bara ótta, eins og ég sagði áðan, heldur einnig ofbeldi hvers kyns. Og það er hægt að gera það með tvennum hætti. Það er hægt að gera það með lagasetningu, eins og hér um ræðir, en það er líka hægt að gera það með því til að mynda að sýna í sjónvarpi og víðar kvikmyndir um afleiðingar ofbeldis og um það hvaða áhrif ofbeldi hefur, til að mynda á börn. Ég er sannfærð um að það er til mjög mikið magn af slíkum kvikmyndum sem ættu fullt erindi til íslenskra sjónvarpsáhorfenda, sérstaklega foreldra og fullorðinna sem kannski gera sér ekki, sökum mikillar vinnu eins og hér var nefnt áðan, grein fyrir því hvað börnin eru að horfa á og hvaða áhrif það kann að hafa á þau.

Ég vil ítreka stuðning minn við frv.