02.12.1987
Efri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

141. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég fagna mjög góðum undirtektum allra þeirra þm. sem hér hafa talað og ekki síst hæstv. menntmrh. Ég er sammála honum um nauðsyn heildarendurskoðunar í þessum málefnum og vissi reyndar ekki að þessi nefnd væri að störfum en rakst á þetta ákvæði af tilviljun í lögunum. Það kom mér mjög á óvart og ég rakst á það af tilviljun þegar ég var að kynna mér lögin af öðru tilefni.

Í raun, þegar við sömdum frv. til flutnings, veltum við því fyrir okkur hvort við ættum að setja áframhaldandi sólarlagsákvæði eða ekki. En eftir því sem við hugsuðum málið meir fannst okkur að það yrði aldrei réttlætanlegt að sýna börnum myndir af þessu tagi, ekki eftir eitt ár, ekki eftir tvö ár, aldrei. Þetta fannst okkur þrátt fyrir viðleitni til að forðast óeðlilega ritskoðun. Þess vegna vil ég lesa skilgreininguna á ofbeldiskvikmyndum sem er í þessum lögum, en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ofbeldiskvikmynd merkir í lögum þessum kvikmynd þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar á mönnum og dýrum eða hrottalegar drápsaðferðir. Bannið tekur ekki til kvikmynda þar sem sýning ofbeldis telst eiga rétt á sér vegna upplýsingagildis kvikmyndarinnar eða listræns gildis hennar. Ekki tekur bann heldur til kvikmynda sem hlotið hafa viðurkenningu skoðunarmanna, sbr. VI. kafla laga nr. 53/1966.“ Hér er því um alveg sérstakan flokk kvikmynda eða myndefnis að ræða. Ég sé ekki að það geti nokkurn tíma verið réttlætanlegt að sýna slíkt efni fyrir börn og í raun ekki fyrir neinn.

Ef niðurstöður endurskoðunar eru í vændum skiptir kannski ekki meginmáli þó að sólarlagsákvæði verði bætt við. Ef hún hins vegar dregst eitthvað á langinn gætum við aftur lent í klípu ef við munum ekki eftir því að lögin falla úr gildi í árslok 1988. Þetta má að sjálfsögðu ræða frekar í nefndinni. Ég set mig ekkert ákaft á móti því, en ég get samt ekki séð réttlætingu þess að slíkar myndir eigi nokkurn tíma erindi eins og þær eru skilgreindar í lögunum.

Ég ítreka aftur þau orð mín að ég fagna þessum góðu undirtektum og vona að þetta mál nái fram að ganga.