02.12.1987
Neðri deild: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

110. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er búið að fresta þessu svo oft að ég var eiginlega búin að gleyma því að ég átti að taka til máls. En ég stend hér til að taka undir þessa tillögu. Mér finnst þetta þarft mál og gott og hefði mátt koma fram fyrir löngu. Það er mála sannast að í allri þeirri umræðu sem hefur orðið um jafnrétti og kjaramál á síðustu árum hefur hlutur húsmóðurinnar mjög verið borinn fyrir borð, hefur mér fundist. Mér finnst að það sé of ríkjandi sjónarmið að meta ekki heimavinnu til vinnuframlags. Þetta hefur komið glöggt í ljós t.d. við gerð kjarasamninga.

Eftir að ég kom aftur eftir langt hlé í verkalýðshreyfinguna og leiddi fyrst kjarasamninga 1976 hef ég oft rekist á þetta. Árið 1976 voru konur að streyma út á vinnumarkaðinn og höfðu reyndar gert það nokkur ár þar á undan. Þær gátu byrjað á mörgum stofnunum og vinnustöðum í vinnu sem var mjög hliðstæð þeirri vinnu sem þær höfðu unnið á heimilunum og gátu þá byrjað sem algerir byrjendur. Þær voru jafnvel nokkur ár að vinna sig upp í full laun. Í þessum kjarasamningum fengum við viðurkennda húsmóðurreynslu sem eins árs starfsaldur. Það voru kannski konur sem fengu þessi réttindi sem voru búnar að vera húsmæður í áratugi. Samt olli miklu fjaðrafoki þetta eina ár. Árið 1979 komum við þessu upp í fjögur ár. Ég fullyrði að við hefðum ekki komið svo mörgum árum fram nema af því að við áttum í raun og veru góðan stuðningsmann hinum megin við borðið, en það var þáv. vinnumálastjóri Reykjavíkurborgar, Magnús Óskarsson. En þetta samkomulagsatriði á milli Sóknar og atvinnurekenda olli allt að því taugaáfalli á sumum launaskrifstofum. Svo afleitt var það.

Mér finnst nú ekki að þetta hafi verið mikið mál eða gert launaútreikninga mjög erfiða, enda held ég að það hafi ekki verið það sem raunverulega var að. Það var hitt, að hér var verið að fara inn á hættulega braut. Það er verið að meta vinnu sem hingað til hafði verið svo lítils metin. Það var hættan.

Sem betur fer hefur þetta þokast nokkuð áfram á seinni árum þannig að í síðustu kjarasamningum mun vinna á heimilum hafa verið metin til sex ára a.m.k. og kannski meira í þeim samningum sem síðast hafa verið gerðir.

Ég er alveg viss um að það verður andstaða gegn þessu frv. hjá sveitarstjórnarmönnum og reyndar ríkinu líka, en ég held að við munum ná merkum áfanga í réttindamálum kvenna ef frv. verður samþykkt vegna þess að þá verður rutt úr vegi þeirri hindrun sem felst í því hugarfari að hugsa sem svo: Þessi kona er heima. Hún gerir ekkert. Hún er bara húsmóðir.

Þegar ég lít til baka yfir mína ævi finnst mér að ég hafi ekki sofnað þreyttari í annan tíma en þegar ég var bara húsmóðir og sveitakona og mér finnst meira en mál til komið að fara að meta þetta.

Hvað snertir lífeyrissjóðsfrv. er ekki full samstaða um það enn þá þó vonandi takist að koma því á réttari grundvöll. Endurskoðun á lögum um almannatryggingar veit ég ekki hve lengi hefur staðið yfir. Síðast var verið að segja mér í morgun að þau hefðu átt að vera í endurskoðun síðasta kjörtímabil og það hefði aldrei verið haldinn fundur í þeirri endurskoðunarnefnd. Þetta kunna að vera einhverjar ýkjur, en þessi lög hafa afskaplega lengi verið í endurskoðun og ég held að við bíðum ekki eftir því.

Ég þakka flm. frv. og lýsi aftur yfir að ég styð það eindregið.