19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Bjarni Jónsson:

Eg hefi hér ýmislegar uppástungur og fjárbeiðnir, sem hljóta að auka útgjöldin dálítið, en eg hefi þó reynt að takmarka það eftir föngum, og slept mörgu, sem eg hefði fundið ástæðu til að fara fram á, vegna erfiðs fjárhags, en sparnaðartill. frá mér eru þó hreinasta neyðarúrræði, og einkum fólgnar í því að færa á milli liðanna og draga úr þar sem hægt var. Mér er því ekkert kappsmál með þessar niðurfærslur, en verð að leggja áherzlu á að þær fjárbeiðnir séu samþyktar, sem eg fer fram á, þegar eg hefi leitast við að hliðra svo mikið til.

Eg sting upp á því að aðstoðarmaður landsverkfræðingsins fái 2000 í stað 2700 kr. Eg trúi því ekki, að ekki sé hægt að fá mann í stöðuna fyrir það fé, og þingið hefir ekki hingað til borið svo fé á menn, sem í landsins þjónustu eru, að 2000 kr. megi ekki nægja handa aðstoðarmanni.

Þá hefi eg farið fram á að lækka skrifstofufé landsverkfræðingsins úr 800 ofan í 500 kr. Eg hygg að sá liður sé óþarfur.

Eftir ósk og áskorun Dalamanna, hefi eg stungið upp á að fá fé til nokkurra vega í Dalasýslu, og þeim er mikið kappsmál að fá þetta fé, því að vegirnir eru vondir. Eg hefi því farið fram á að fá 5000 kr. til vegar frá Dalsmynni yfir Bröttubrekku að Þórólfsstöðum, 1000 kr. til vegar frá Ljárskógum til Svínadals og 2000 kr. til vegar frá Höskuldsstöðum til miðrar Laxárdalsheiðar, og að vegur þessi verði svo gerður að þjóðvegi.

Ef þingið ætlar að byrja á braut frá Norðurá til Arngerðareyrar og eigi það að gerast bráðlega, vonast eg eftir að héraðsmenn fáist til að bíða, því eg vil ekki fara með neina skreytni um vegi þessa, að eftir því sem eg bezt veit eru engar drepandi hættur eða torfærur á leiðinni. Upphæðir þær, sem eg nefni til veganna eru ekki eftir áætlun verkfræðings, en eg mun leita álits þeirra um málið og koma þá fram með breyt.till. við 3. umr. ef þörf gerist, — 2 fyrstu vegirnir, sem eg nefndi geta komið undir brautina frá Norðurá að Arngerðareyri, en það er ómögulegt með veginn frá Höskuldsstöðum yfir á miðja Laxárdalsheiði.

Það er spá manna þar vestra, og mun það rétt vera, að vaxa muni mjög mikið umferð um þennan veg — frá Höskuldsstöðum yfir Laxárdalsheiði — einkum ef hann væri gerður akfær. Það væri þá hægt að flytja menn frá Hvammsfirði til Borðeyrar á hestum og vögnum, og þeir yrðu víst margir, sem tæku heldur þann kostinn heldur en að flækjast í kringum alla Vestfirði með skipi. Eg vil því fastlega mæla með fé til þessa vegar, og benda á, að það sé um leið haft fyrir augum, að haga svo vegargerðinni, að vegurinn sé akfær.

Eg hefi borið fram breyt.till. við 13. gr. D. II. 1, 2, 3, þess efnis, að símatillögin frá héruðunum falli niður. Eg heyrði að háttv. framsm. fjárlaganefndarinnar tók vel í þetta mál, og vonast eg því eftir, að það fái byr í háttv. deild, svo að héruðin sleppi við þetta rangláta gjald, og allar sveitir fái símann með sömu kjörum og þær sveitir, sem aðallínurnar liggja eftir. Það er augljóst, að öll héruð ættu að vera jöfn í þessu efni, en ekki eins og nú er að hvert fái happ, sem hlýtur.

Eg vil ekki orðlengja meira um þetta mál að sinni, eg fæ máske tækifæri til að hverfa til þess aftur við umræðurnar um 14. og 15. gr.