19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Ólafur Briem:

Hér liggur fyrir hv. þingd. till. þess efnis, að landssjóður veiti nokkurt fé til símalagningar frá aðallínunni í Skagafirði til Siglufjarðar. Eins og nú standa sakir, þá liggur síminn yfir þvera sýsluna, og að eins 2 stöðvar í sýslunni, svo það er erfitt fyrir allan þorra sýslubúa að nota hann.

Það liggur í augum uppi, að úr því kostað hefir verið stórfé til aðallínunnar, þá þarf hún að verða að sem fylstum notum, en það getur hún að eins orðið með því að leggja aukalínur, ekki síst þær sem kosta tiltölulega lítið fé.

Að hverfa frá þeirri stefnu að leggja aukalínur er naumast rétt frá hvaða hlið, sem það er skoðað — hvortheldur frá sjónarmiði landsmanna eða landssjóðs.

Á þeim stöðvum, þar sem aukalínan til Siglufjarðar á að liggja, hagar svo til, að aðalatvinnuvegurinn er sjávarútvegur, og á seinustu árum hefir verið komið þar upp töluvert af vélabátum. Það er einkum nauðsynlegt fyrir þann útveg, að geta fylgst með og vita hvernig tilhagar á öðrum stöðum með fisk og síld. Þetta hefir svo stóra þýðingu, að naumast mun hægt að meta það til peninga.

Á símaleiðinni eru 4 kauptún: Kolkuós, Grafarós, Hofsós og Haganesvík auk Siglufjarðar, sem er endastöðin.

Á Siglufirði er stórkostleg síldarveiði, sem Norðmenn o. fl. reka á sumrum. Landsjóður hefir miklar tekjur af þessari veiði, einkanlega útflutningsgjald og skipagjöld og hefir það numið á seinni árum nokkuð á annað hundrað þús. kr. — Einmitt af því það er svo mannmargt á Siglufirði, þá er nauðsynlegt að hann komist í símasamband, enda mundu símatekjur þaðan verða miklar.

Eg skal geta þess, að stungið hefir verið upp á annari leið nefnilega frá Ólafsfirði til Siglufjarðar. Máli þessu var hreift í hreppunum og á sýslufundi Skagfirðinga og fyrirspurn gerð til sýslunefndar Eyjafjarðarsýslu, um það, hvort henni væri áhugamál að síminn væri lagður þessa leið. Oddviti sýslunefndarinnar svaraði þessum fyrirspurnum á þann veg, að sýslan mundi ekki fús til að leggja fé til þessarar aukalínu, enda kæmi síminn miklu færri mönnum að notum, ef þessi leið væri valin, og mjög erfitt og kostnaðarsamt að leggja hann þá leið. Enn fremur var gerð fyrirspurn til Siglfirðinga um það, hverja leiðina þeir kysu heldur, og kváðust þeir helst vilja standa í sambandi við Skagfirðinga, eins og fundargerð, sem liggur frammi á lestrarsalnum sýnir. Það er því áhugamál beggja aðila að þessi leið sé valin.

Skagfirðingar og Siglfirðingar hafa lofað 10000 kr. framlagi á móts við 25000 kr. úr landssjóði, og eg hygg að þetta tillag sé meira, en ætlast er til úr öðrum héruðum.

Mál þetta er því nægilega undirbúið að öllu leyti. Í því sambandi vil eg taka það fram, að áður hefir verið veitt fé til síma úr landssjóði, þótt engin vissa hafi verið fyrir tillagi úr héruðunum, nægir að benda á að þingið 1907 veitti fé til símalagningar austur í Árnes- og Rangárvalla-sýslur, og gerði sér von um till. frá þeim héruðum, sem brást með öllu, svo að símalagningin fórst fyrir. Um neitt slíkt getur ekki verið að ræða hér.

Eg vona því, að þótt fjárþurðar kenni í landsjóðnum um þetta leyti, að þá verði þó ekki eingöngu litið á málið frá þeirri hlið, heldur jafnframt athugað, að málið er gagnlegt og mikið nauðsynjamál fyrir héruðin, sem í hlut eiga, og að það getur orðið arðvænlegt fyrir landsjóðinn og þá, sem kost eiga á að nota símann.

Þótt fjárlaganefnd hafi ekki beinlínis samþykt þessa fjárveiting, þá hefir hún ekki lagt á mót henni, og vonast eg því eftir, að háttv. deildarmenn styðji málið með atkvæði sínu.