19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Þorleifur Jónsson:

Eg hefi, sem fleiri góðir menn, brtill. við 13. gr. fjárlaganna, og eg er hræddur um að sumir hafi rekið upp stór augu, er þeir sáu, að Skaftfellingurinn fór fram á 10000 og 5000 kr. fjárveiting úr landssjóði, því háttv. þm. eru svo óvanir að heyra fjárbeiðnir úr þeirri átt, í svona stórum stíl.

Eg vil geta þess, að það er full þörf þessa fjár, og að krafan er réttmæt. En eg get búist við að sumum af hinum háttv. deildarm. sé málið ókunnugt, þar sem útlit er fyrir að hinni háttv. fjárlaganefnd hafi sést yfir erindi það, er eg sendi henni um þetta mál, eða hefir álitið að það væri út í bláinn, því ekki sést að hún hafi sint því að neinu.

Háttv. þgm. álíta ef til vill, að hér sé um hreppaveg eða eitthvað því um líkt að ræða, sem fáir hefðu gagn af eða þyrftu að nota. En þessu er ekki þannig varið. Þetta er lögákveðinn þjóðvegur og þennan vegarkafla á að gera akfæran, og því til sönnunar skal eg geta þess, að þegar verkfræðingur landsins í tillögum sínum til stjórnarinnar 1907 ákvað hvaða þjóðvegi eigi að gera akfæra, telur hann einmitt veginn frá Hólum að Bjarnanesi. Hann getur þess í þessum tillögum sínum, að frá Höfn í Hornafirði að Hólum liggi sýsluvegur, sem sé akfær og þess vegna sé rétt að þjóðvegurinn, sem tekur þar við og liggur inn eftir Nesjasveit, sé einnig gerður akfær, og getur þess jafnframt, að þá þurfi nauðsynlega að brúa Laxá.

Eg vona því, að háttv. deild sjái, að hér er um nauðsynjamál að ræða. Hér er verið að biðja um fé til vegar, sem ekki er hreppavegur eða sýsluvegur, heldur fjölfarinn þjóðvegur, er liggur eftir endilangri sýslunni, og það því fremur sem sýslan hefir lagt akfæran vegarkafla frá kauptúninu í Hornafirði upp á þjóðveginn, og lagt til þess um 5000 kr. Þessi þjóðvegarkafli, sem hér er um að ræða er áframhald af veginum frá kauptúninu, vestur sýsluna, og verkfræðingurinn hefir lagt til, að sá kafli sé gerður akfær, eins og eg gat um hér að framan.

Háttv. þingd. mun nú spyrja, hvort þörf sé á þessum vegi strax. Eg skal þá svara því með því að geta þess, að nú er byrjað á veginum; seinasta alþing veitti 4000 kr. til vegarins. Peningar þessir komu að vísu ekki allir til skila til vegagerðarinnar, vegna þess að strandferðabáturinn, sem flutti verkfæri og fólk til vegagerðarinnar, fór í það skifti, eins og oft endranær, fram hjá Hornafirði, og varð því að skipa öllu í land á Djúpavogi, og eyddist því töluvart af fénu í flutninginn. Vegurinn komst þó í sumar að Laxá, og var lagður að hinu fyrirhugaða brúarstæði á Laxá, og þar sem hann endar, tekur við árgljúfur, svo hann kemur að litlum eða engum notum, eins og nú standa sakir.

Það er eftir umtali við verkfræðinginn, að eg hefi stungið upp á þessari upphæð til brúarinnar, 10000 kr., og er þá gert ráð fyrir, að hún sé bygð úr járni. Eg verð því að halda mér við þessa upphæð og vona fastlega, að deildin líti á málið með fullri sanngirni, því eins og eg gat um áðan, kemur vegurinn að sama sem engum notum, ef brúin fæst ekki, og það fé, sem þegar hefir verið kostað til hans, liggur alveg arðlaust.

Eg hef einnig farið fram á, að veittar séu 5000 kr. til þess að halda veginum áfram og vonast eg fastlega eftir, að háttv. deild vilji ekki skifta fé til vegagerðar þessarar niður á mörg fjárhagstímabil, meðfram að af því leiðir æfinlega óhjákvæmilegur aukakostnaður, við flutning á fólki og verkfærum, en veita það nú í eitt skifti fyrir öll, og það því fremur, þegar þess er gætt, að þar sem þjóðvegurinn liggur nú, og á að liggja, er enginn vegur, heldur fúamýrar og troðningar, og sumstaðar liggur hann um tún og engjar á þessu svæði, og er þar víða illfært yfirferðar í rigningatíð.

Áður var þetta öðruvísi, þá lá vegurinn utar, eftir bökkum Hornafjarðarfljóta og yfir Skógey. En nú hafa Fljótin breyzt svo á síðari árum, að þau eru oftast ófær á þeim vöðum, og því varð að leggja þjóðveginn inn alla Nesjasveit, inn til Hoffells, og þar yfir vöð á Fljótunum, sem oftast eru fær.

Eg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en bið háttv. þingdeild að athuga þær ástæður, sem liggja til þessa máls. Eg hefi heldur ekki margar fjárbeiðnir handa þessum héruðum og fáar komið á undanfarandi árum, enda lítið fé veitt til þessa landshluta, og það má líka á það líta, að vér höfum að mestu leyti farið á mis við strandferðirnar, og því meiri ástæða til þess að veita dálítið fé til samgöngubóta á landi.