19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Stefán Stefánsson:

Tillaga sú, á þgskj. 252, sem eg hefi leyft mér að bera fram fyrir hina háttv. deildarmenn, fer fram á að landsjóður veiti 2000 kr. til akbrautar í Svarfaðardal, móti því að sveitarmenn leggi fram 4000 kr. til brautarinnar. Þetta framlag sveitarfélagsins sýnir það ótvírætt, hve þörfin er brýn, því eins og högum almennings er nú háttað yfirleitt, þá verður ekki öðruvísi á það litið, en að svona mikil fjárútlát sé allþung byrði fyrir eitt sveitarfélag.

Það var fyrst nú fyrir nokkrum dögum síðan, að eg fékk í hendur ítarlegt erindi um þetta frá Svarfdælum, og afhenti það þá þegar fjárlaganefndinni, ásamt nokkrum línum, er eg skrifaði nefndinni, málinu til enn frekari skýringar og meðmæla, en nú hefir nefndinni þóknast að líta öðrum augum á þetta mál, en eg hafði búist við, þar sem hún hefir ekki tekið upp neina fjárveitingu til akvegarins. En út af þeim orðum, sem. féllu hjá háttv. framsögumanni nefndarinnar viðvíkjandi undirbúningi málsins, þá hefi eg þó fulla ástæðu til að álíta, að háttv. fjárlaganefndarmenn beri hlýjan hug til þessa fyrirtækis.

Þetta mál hefir verið rætt og undirbúið heima í héraði, og samþykt þar á fjölmennum fundum, að byrja nú strax á næsta sumri á framkvæmd verksins, að svo miklu leyti sem vinnukraftur sveitarmanna til hrykki, og fé væri fyrir hendi.

Þessi akvegarleið er hvorki á þjóðvegi eða sýsluvegi, og getur þess vegna ekki átt nokkra beina kröfu til styrks af hálfu hins opinbera, en þrátt fyrir það, er hér um svo afarmikinn kostnað að ræða, að það er ofvaxið sveitarfélaginu að fá verkið svo fljótt unnið, sem nauðsyn er á, og þess vegna er þetta mál hér flutt, í þeirri von, að þingið vilji líta á allar þær ástæður, er fyrir liggja, í trausti til þess, að það þá álíti fyrirtækið stuðningsvert.

Þessi ósk byggist aðallega á því tvennu, að eins og nú er, þá er tíðfarnasti og aðal-flutningavegur Svarfdæla, illfarandi vegar-troðningar um tún og engjar, til stórbaga fyrir ábúendur og mikillar hindrunar fyrir ferðir manna og aðdrætti, en á hina hliðina sveitin mjög mannmörg og þéttbýl, svo ferðir og flutningar innsveitis eru afar miklar.

Auk þessa vil eg taka það fram, að Svarfdælir stunda allmikið fiskiveiðar frá Dalvík og aðdrættir þaðan þess vegna eru meiri og samgöngur tíðari, sérstaklega vor og haust, meðan vertíðir standa yfir, þegar hvað mest nauðsyn er á að vegir séu góðir og greiðfærir, ef ekki á að valda því meiri og tilfinnanlegri skemdum.

Allur undirbúningur þessa máls frá hendi sveitarfélagsins er, að því er mér virðist, svo góður, sem frekast er við að búast, á svo skömmum tíma, sem að málinu hefir verið unnið, því nú þegar hafa allflestir verkfærir karlmenn af fúsum vilja skuldbundið sig til, hver einstakur án alls endurgjalds í að leggja fram 6 dagsverk á þessu yfirstandandi og næstkomandi ári. Með þessu framlagi og þeim peningum, er sveitin hefir síðustu ár sparað af hreppsvegafé, ásamt væntanlegum hreppsvegagjöldum næstu 2 ár, þá er áætlað, að fengin sé nokkurn veginn full vissa fyrir 3000 kr. til fyrirtækisins, en þeir líta svo á að ef alþingi vildi veita 2000 kr., þá sé með því fengin svo mikil uppörfun fyrir sveitina, að enginn minsti vafi sé á því, að hún bæti við fjórða þúsundinu, og þar af leiðandi er styrkbeiðnin miðuð við þá upphæð, eða með öðrum orðum: að landssjóður styrki fyrirtækið að þriðjungi.

Þegar eg svo ber saman staðhætti í þeim héruðum, er eg bezt þekki til, þar sem akvegir eru lagðir, að öllu leyti af landsfé, og er þegar með lögum ákveðið að leggja, þá fæ eg eigi betur séð, en að hér hagi öldungis eins til, bæði fólksfjöldi og þéttbýli langt fram yfir það, er alment á sér stað í sveitum, og staðurinn svo sjálfsagður, þar sem alt er flutt að og frá; hið eina sem hér skilur á og ávantar er lagaskyldan, en það eitt út af fyrir sig, vona eg að háttv. þingd.m. láti ekki ráða atkvæði sínu, hafi mér hins vegar tekist, að gera það nokkurn veginn ljóst, hvað hér er um verulegt nauðsynjafyrirtæki að ræða.

Að svo komnu ætla eg þó ekki að fara fleiri orðum um málið, en treysti svo á sanngirni deildarinnar, að hún ekki eyðileggi eða stórspilli svo lofsverðu fyrirtæki, og sem að mínu áliti er hrein fyrirmynd.

Þá vil eg með fá fáum orðum minnast á síma-álmuna til Siglufjarðar. Það er fyllilega mín skoðun, að það sé hreint og beint tap fyrir landssjóð, hvert ár sem það dregst, að sími sé lagður þangað. Þessi skoðun mín byggist á þeirri reynslu, sem fengin er á símalínunni, sem lögð var til Hjalteyrar fyrir 2 árum, sú lína — séu tekin til greina andvirði fyrir öll símskeyti og samtöl, er hún flutti — borgaði nálega á fyrsta ári allan kostnað við lagningu álmunnar, sem var 14— 1500 kr. Þessi gífurlega miklu not símans stöfuðu að miklu leyti frá að eins þremur útlendum síldveiðifélögum, er héldu til á Hjalteyri rúman tveggja mánaða tíma, en á Siglufirði hafa bækistöðu sína langtum fleiri útlend síldveiðifélög og er því sennilegt, að búast við því, að sá væntanlegi Siglufjarðarsími verði enn meir notaður og gefi því landssjóði mjög verulegar tekjur. Þegar svo litið er til þess, að héraðsbúar bjóða fram 10,000 kr. til fyrirtækisins, sem eins og þegar hefir tekið fram, er fyrirsjáanlegt gróðafyrirtæki fyrir landssjóð, þá virðist mér alt mæla með því, að símalínan sé bygð, sem allra fyrst. Annars mætti taka fleira fram þessu máli til skýringar, en eg ætla þó ekki að lengja umræðurnar frekar að sinni.