19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Kristjánsson:

Eg hef gerst flutningsmaður að breyt.till. á þgskj. 265. Eins og kunnugt er, þá hefir á síðustu fjárlög og stjórnarfrv. slæðst inn nýr liður um skrifstofufé handa verkfræðing landsins, sbr. 13. gr. B. I. 3. lið í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar. Hér er verið að fara fram á, að störf sem hvíla á stjórnarráðinu séu færð út í bæ. Það er auðvitað sjálfsögð krafa, að stjórnarráðið sé skipað svo mörgum mönnum, að það geti leyst af hendi þau störf, er fyrir liggja, en að koma upp smá ráðaneytisskrifstofum út um bæinn, álít eg óheppilegt fyrirkomulag. Eg verð því að greiða atkvæði móti þessum lið, ekki af því, að eg geti ekki vel unt manninum þessarar upphæðar, heldur af því, að stefna þessi í sjálfu sér er svo athugaverð, að hún getur leitt út í það óendanlega.

Fjárlaganefndin hefir lagt til, að 13. gr. B. í, 2. lið. falli burtu, en hefir gleymt þessum tölulið. Við það sparast 800 kr. á ári, sem verja má til annars þarfara.

Við 13. gr. B. III., hef eg lagt til, að komi nýr liður aftan við 5. lið um brúargerð á Bleikdalsá, 3900 kr. síðara árið. Bleikdalsá rennur úr djúpum fjalladal, Bleikdal, og er reyndar á sumrum lítil, en vex mjög á vetrum, svo að hún stundum er með öllu ófær og tálmar ferðum og samgöngum. Eg skal viðurkenna, að hún er ekki verri en margar aðrar ár, sem óbrúaðar eru, en hún er í bygð, á fjölförnum þjóðvegi og mikil almanna þörf, að brúuð verði. Fyrir mörgum árum var verkfræðingur fenginn til að gera áætlun yfir kostnaðinn og taldist honum til, að járnbrú yfir ána mundi kosta 3900 kr.

Eg vona, að háttv. þingdm. sjái sér fært, að mæla með og samþykkja þessa fjárveiting, sem er til svo stórra samgöngubóta fyrir héraðið.

Við 13. gr. D. II. leyfi eg mér líka, að koma með breyt.till. um símalagning frá Keflavík að Kotvogi og Reykjanesi. Það er engum efa bundið, að sá sími er afar-nauðsynlegur og yrði til stórmikils gagns og hagsmuna. Eg skal að eins meðal svo margs nefna hve heppilegt það væri, að geta símað suður eða til varðskipsins, þegar botnvörpungar væru í landhelgi. Þá næðist margur þeirra, sem nú sleppur. Kostnaður við símann að Kotvogi er áætlaður 5400 kr., og þaðan að Reykjanesi 6600 kr.

Eg vona, að þingið láti þá fjárupphæð ekki sér í augum vaxa, þegar litið er til þess gagns, sem menn koma til að hafa af þeirri álmu.

Þá vil eg leyfa mér að fara nokkrum orðum um þá tillögu mína, að lagður sé vegur úr Selós og suður að Kópavogi. Þessi leið hefir verið mæld af verkfræðing landsins og hefir hann mælt með því. Það styttir mjög leið fyrir mönnum að austan, sem vilja fara niður í Hafnarfjörð. Þeir hafa þurft til þessa, að koma alla leið niður til Reykjavíkur og svo til Hafnarfjarðar, Sama er að segja um þá, sem fara suður með sjó.

Þetta er nýtt mál og á því að öllum líkindum örðugt uppdráttar, en eg geri mér þó beztu vonir um það.

Þá er Keflavíkurvegurinn. Í upphafi var svo ætlast til að Kjósar- og Gullbringusýsla legði til þessa vegar hálft á móti landssjóði. Áður var þetta eitt sýslufélag, en nú hefir Hafnarfjörður gengið undan og Kjósarsýsla skilið fjárhag sinn frá Gullbringusýslu, sem nú er eftir ein um að kosta helming þessa vegar. Nú hefir 2800 kr. verið lagðar fram frá sýslunni og sé eg ekki að hún sé fær um nú eftir skiptinguna að leggja meira fram en ¼ til vara ? af því fé, sem gengur til þess sem eftir er að fullgera af vegi þessum, og það vil eg leggja til að þingið samþykki.