19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Sigurður Gunnarsson:

Það er líklega ekki gustuk að lengja mjög umræður, og mun eg því vera stuttorður.

Í frumv. stjórnarinnar er ætlast til, að sími sé lagður frá Borðeyri til Búðardals og þaðan til Stykkishólms. Eg er þakklátur stjórninni fyrir þessa tillögu. Á þessu svæði eru fjölmennar sveitir og nauðsyn símanna því mikil, ekki sízt þar sem mikill hluti landsins er nú kominn í símasamband.

Háttv. framsm. tók vel í það mál, að tillag héraðanna til símanna félli burtu, og mun það hafa nálega náð samþykki í fjárlaganefndinni. Í þessa átt fer líka br.till. okkar þm. Dal. (B. J.).

Háttv. framsm. tók till. okkar vel, eins og háttv. þingdm. munu muna, og færði fyrir henni góð rök. Hér er um víðlend héruð að ræða, Breiðafjörð og sveitirnar sunnan Snæfellsnessfjallgarðs. Á þessu svæði munu vera um 7000 manns. Þar eru kauptún og fiskiver einhver hin beztu á landinu, t. d. Hjallasandur. Í svipinn er ekki gert ráð fyrir, að síminn nái lengra en til Stykkishólms, en það er góð byrjun.

Svo að eg snúi aftur að breyt.till. um að nema burt tillagið frá héruðunum, þá held eg, að menn hljóti að kannast við, að sú tillaga er sanngjörn. Eg sé ekki betur en að viðkomandi sýslufélagi, í þessu tilfelli Snæfellsnessýslu, sé ofvaxið að greiða tillag úr sýslusjóði til símans, einkum þegar þess er gætt, að líkur eru til að sýslan verði að leggja hið ítrasta á sig til símans til Ólafsvíkur, enda má eg fullyrða að sýslan muni verða fús til þess, ef landssjóður kostar símann frá Búðardal til Stykkishólms eða Borgarnesi til Stykkishólms. Eg skal í sambandi við þetta skírskota til till. um síma milli Skagafjarðar og Siglufjarðar. Landssjóður hefir kostað síma gegnum Skagafjarðarsýslu, en héraðsbúar bjóðast til að taka þátt í þessum fyrirhugaða síma. Þetta tel eg eðlilegt og sjálfsagt, að Snæfellsnessýsla muni ganga að sömu kjörum til framhalds Stykkishólmssímanum, t. d. að kosta hann að allmiklu leyti frá Hjarðarfelli út í Ólafsvík.

Eg skal ekki fara um þetta fleiri orðum að sinni, því að háttv. framsm. og þm. Dalam. (B. J.) hafa báðir fyrir þessu talað.

Hitt er annað mál, sem fjárlagan. hefir lagt til, að síminn sé lagður frá Borgarnesi til Stykkishólms. Sjálfur er eg þeirrar skoðunar, að það sé heppilegra, og meiri hluti héraðsbúa vestra mun áreiðanlega á því máli, en símastjórinn taldi fullkomnara sambandið milli Borðeyrar, Búðardals og Stykkishólms, því að á Borðeyri sé miðstöð. En þetta mun hin háttv. nefnd og hv. þingd. leggja á sína vog og mun þá verða tækifæri til að ræða það nánara.