19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Hálfdan Guðjónsson:

Eg vil leyfa mér, að víkja nokkrum orðum að breyt.till. nefnd. við 13. gr. B. VII, þess efnis, að þar aftan við bætist nýr liður, fjárveiting til kaupstaðarvegar í Hvammstanga. Þessarar breyt.till. er getið nokkuð lauslega í nefndarálitinu og háttv. frams.m. fór þar fljótt yfir sögu. En þótt háttv. fjárlagan. hafi verið ljós nauðsyn þessarar fjárveitingar, er hún stakk upp á henni, þá kann að vera, að sumum háttv. þm., sem ókunnugir eru, þætti vandfýsni, að leita þessarar fjárveitingar. En það er langt frá því, að svo sé; þótt svo standi í breyt.till., að hér sé um kaupstaðarveg að ræða, þá er þetta alls enginn vegur; þetta er vegleysa, sem liggur yfir óræktarmóa og hálffúin mýrarsund á milli. Þess vegna verður alt af að færa slóðirnar, þegar grasrótin fer að stígast sundur, og þó er það all-títt, að baggahestar festast í einhverju feninu og velta af sér böggum. Þetta veldur auk þess skaðsamlegu jarðraski á mörgum jörðum á Múlabæjunum, svo nefndum. Hefir því oft verið amast við þessari umferð. En að fara aðra leið er krókur svo mikill, að ferðamenn kjósa þó þann kost heldur, að klifra hærra og hærra upp í Múlann til þess að varast, að gera skemmileg jarðspjöll. — Er þetta mjög tilfinnanlegt, því að síðan verzlun komst á Hvammstanga, — þar varð fyrst löggiltur verzlunarstaður 1895, — hafa þangað dregist nálega öll verzlunarviðskifti úr Vestur- Húnavatnssýslu, því að höfnin er hin álitlegasta, sem völ er á í Húnavatnssýslu, þeirra hafna, sem allvel er í sveit komið. Þar hefir verið slátrunarhús fyrir sýsluna og kaupfélagsverzlun er rekin þar. Auk þess er þar læknissetur. Hér er áreiðanlega um framtíðarkauptún að ræða. Er því auðsætt, hversu miklar og tíðar ferðir hljóta að verða þangað. Því þótti bráðnauðsynlegt, að gera eitthvað fyrir þessa leið. Verkfróður maður var fenginn til að athuga leiðina og gera kostnaðar-áætlanir. — Áætlun hans var sú, að vegur þessi kostaði 10,000 kr. Héraðinu var ókleyft, að vinna slíkt verk styrklaust af almannafé. Eigi var þess heldur að vænta, að sýslufé fengist svo nægja mætti, því að fyrst og fremst gengur helmingur sýsluvegafjárins til þjóðvegaviðgerðar innan sýslu. Auk þess þurfti í mörg horn að líta önnur með það fé. Þess vegna hefir verið leitað til þingsins, sem eðlilegt er; eg veit ekki, hví þeirri beiðni var hafnað á síðustu þingum; en um það skal eg ekki fást. Það er til einskis. Hinu fagna eg, að nú virðist, sem þm. sé full-ljóst, að hér er um engan hégóma að ræða, heldur nauðsynjamál, sem vænta má, að nú verði hrundið í vænlegt horf, þó að seinna sé en eðlilegt var.

Það hefir oft verið bent á það hér á þinginu, að þegar beiðni kæmi frá einhverju héraði, þá væri það bezta sönnunin fyrir því, að hún væri nauðsynleg og málið áhugamál héraðsbúa, ef þeir vildu taka þátt í kostnaðinum en ekki demba honum eingöngu á landssjóðinn. Þetta er dagsanna. Önnur betri rök verða trauðla færð. Þessi rök vantar ekki fyrir þessari vegagerð. Ófyrirsynju mundi héraðið ekki leggja á sig 5000 kr. útgjöld. Það er allmikill munur að mæta slíkum fjárbeiðnum eða hinum, sem ekki kosta héruðin nema orðin ein — en landssjóðinn alla peningana. Eg þykist svo ekki þurfa að færa fleiri eða frekari rök fyrir fjárveitingu þessari.

Eg vona að deildinni sé það ljóst að það er mesta nauðsynjamál fyrir héraðið, sem svo oft hefir orðið útundan, er um fjárveitingar hefir verið að ræða, t. d. hefir Húnavatnssýsla og hennar hafnir orðið hart úti með strandferðirnar.