19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Einar Jónsson:

Það er um Rangárbrúna, sem eg vildi segja fáein orð.

Eg hef heyrt að einstöku menn í meirihl., hafi reynt til að gera málið að flokksmáli, en eg álít að það sé bæði órétt og óheppilegt. Eg vonast eftir að margir háttv. þm. meiri hl. séu svo heiðarlegir að þeir virði meira það, sem er satt og rétt, en stífni og löngun einstakra manna til að straffa þá, sem eru á móti þeim.

Það hljóta allir sanngjarnir menn að sjá, að það er ekki rétt að Rangárbrúin sitji lengur á hakanum, og að láta aðrar minni brýr ganga á undan. Nú eru þó komnar fram beiðnir um nýjar smábrýr, sem samtals kosta ? af því, sem ætlað er að Rangárbrúin kosti, eða nál. 30 þús. kr.

Það lítur svo út sem minni hlutinn eigi að fara þess á mis, sem þó hefur verið ákveðið á undanfarandi þingum, að það eigi að eyðileggja ýms mál eingöngu vegna þess, að þau eru flutt af þm. minni hl., og í því sambandi vil eg benda á, að á þinginu 1905 var ákveðið að byggja skyldi brýr yfir þessar ár: Fnjóská, Rangá og Héraðsvötn, og Rangárbrúin átti að ganga fyrir, en enn þá er óvissa um það, hvort hún fæst.

Eg vil minnast á þá stóru ósanngirni og ósvífni, sem sögð var hér í deildinni í gær, að brúin yrði til gamans en minna til gagns, því Rangá væri tært bergvatn með sléttum botni. Eg verð að álíta að ummæli þessi stafi meira af ókunnugleik en öðru verra, því þótt það sé rétt, að Rangá sé tært bergvatn í þurkum og góðu veðri, þá hefur botninn aldrei verið góður eða sléttur, heldur með steinum og klöppum, sem hestarnir eiga erfitt með að klöngrast yfir og festa sig oft í milli, og síðan héraðsbúar fóru að nota hesta og vagna, þá er áin óhemju þröskuldur, sem sífellt tefur og hindrar ferðir manna, og þótt yfir verði komist, þá verður að pína hestana og vörurnar skemmast meira og minna. Því var slegið fram, að ekki væri annað en að selflytja, en það er líka venjan. Það getur enginn farið með vagna yfir ána nema að selflytja sig, því ómögulegt er að komast yfir með fullþung æki í einni ferð. Það verður að leysa vörurnar og taka mikið af þeim úr vagninum, og þarf þá stundum að kasta þeim niður í blautan sandinn, og má geta nærri, hvernig þær fara á því í rigningu og vondu veðri.

Eg sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Áin er sá þröskuldur, sem ómögulegt er að komast yfir með óskemdar vörur og hesta. Það þekkja þeir bezt, sem margsinnis hafa reynt það og strítt við sjálfir. Brýr þær, sem nú standa á fjárlögunum, eru að sjálfsögðu nauðsynlegar, og eg vil ekki mæla á móti þeim, en eg get ekki samþykkt að þær séu gerðar á kostnað Rangárbrúarinnar, og þótt hún kosti meira en hinar brýrnar, þá sýnir það að eins, að áin er stórá, og þarf ekki síður að brúa hana fyrir það.

Hvað sem háttv. þm. gera við brúna, þá óska eg eftir að hún verði þó undir öllum kringumstæðum sett á fjárlögin síðara árið, sem er þó það versta, næst bezt að hún standi á þeim fyrra árið og bezt að hún komist á þessa árs fjáraukalög. Eg vonast eftir að menn fylgi svo því, sem þeir álíta satt og rétt í málinu, en láti ekki flokks-ofríki ráða sér.