19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Pétur Jónsson:

Það vill svo til, að eg þarf ekki að amstrast með fjárbeiðnir eða breyt.till., sem snerta mitt kjördæmi nú við meðferð fjárlaganna. Eg stend því upp einungis til þess, að gera nokkurskonar yfirlit yfir einn þátt fjárlaganna, sem nú er einmitt til umræðu, og það eru vegirnir. Það er ekki af því, að eg ætli að hafa á móti framsögum., heldur af því, að mér fanst hann taka nokkuð laust á breyt.till. þeim, er komið hafa. Þegar maður er nú búinn að tína saman þenna urmul af breyt.till., sem komið hafa fram við fjárlagafrumv., þá er vert að athuga, og glöggva sig vel á, hvert þessar till. stefna, hverja afleiðingu stefna þeirra hefir og hversu till. þær er vegina snerta, sameinast við vegaplan það, sem lagt er með vegalögunum, og af verkfræðingi landsins. Þá fyrst getum vér greitt atkv. með fullri skynsemd; í stuttu máli: greitt atkvæði rétt.

Nú er það segin saga, að ekki verður alt gert í senn, og verður þá að ganga svo á röðina, að einlægt sé það tekið fyrst, sem mestu varðar í hlutfalli við kostnað. Þótt jafnvel mikið fé væri fyrir hendi, þarf ætíð að gæta hófs og sparnaðar, spara á þennan hátt, því ef planið riðlast miðar skjótt til ógengdar. Og þegar ætíð er fjárskortur annarsvegar, eins og hér, þá kemur ógengdin undir eins í bága við nytsamari fyrirtækin.

Það virðist nú liggja beint við, að landssjóður láti sitja í fyrirrúmi alla þá vegi, sem eru hans handbendi samkvæmt vegalögunum, eða landssjóðsvegina, en það eru flutningabrautir, þjóðvegir og fjallvegir, og sinni lítið eða ekkert öðrum vegum, fyr en þessir vegir eru komir í sæmilegt lag. Vegagerðum á landssjóðsvegum vil eg nú skifta í tvo aðalflokka: fyrst og fremst brýr yfir brútækar ár og aðrar miklar torfærur, sem teppa ferðir, og þar næst vegagerðir þær á landssjóðsvegum, sem að öðru leyti gera leiðir greiðfærari og flutninga léttari. Að þessum vegagerðum öllum þarf að vinna af allmiklu kappi til þess að ná í land með þær í nálægri framtíð. Eg er nú þeirrar skoðunar, að það sé torfærurnar á hinum fjölfarnari landssjóðsvegum, sem eigi að setja efst á blað, og það megi eigi dragast langan tíma, að þær sé allar gerðar greiðfærar.

Þessi niðurskipun veganna, sem eg hefi nú bent til og er í samræmi við vegalögin og vegaplan verkfræðingsins, verður að setja takmörk hinu margvíslega aðkalli, sem kemur í ljós í fyrirliggjandi breyt.till. Hinn háttv. framsögum. (B. J.) var að minnast á sparnað, en mér þótti hann eigi taka nógu fast á móti br.till. þeim, sem sprengja þessi takmörk, eða grafa undan stýflunni, sem varna á því, að öllu miði til ógengdar.

Þá skal eg nú víkja að breyt.till. sjálfum og áhrifum þeirra á fjárhaginn. Tek eg saman við í þetta yfirlit þær breyt.till., sem gerðar voru við fjáraukalagafrumv. fyrir yfirst. ár og náðu samþykki deildarinnar. Hækkanir á vegafénu eftir breyt.till. eru af hálfu fjárlaganefndar c. 48,500 kr. og einstakra þingmanna c. 58,850 — eða alls: 107,350 kr. Af þessu er til landssjóðsvega um 71 þús. kr., en hitt — rúm 36 þús. kr. — til sýslu og sveitavega. Til sýsluvega er einnig í stjórnarfrv. um 8 þús. kr. Af tillögum fjárlaganefndar er 37,500 kr. með samráði við verkfræðing landsins. Þar af 6,500 kr, til brúargerðar, og bind eg mitt atkvæði mest við tillögur hans. Þar á móti mun ekkert af tillögum einstakra þingmanna vera að hans ráði eða eftir hans plani.

Af tillögunum yfir höfuð eru 38 þús. kr. til brúagerða, þar af 23½ þús. á landssjóðsvegum, en 14½ á sýsluvegi í Norður-Þingeyjarsýslu, en í þeirri sýslu er enginn landssjóðsvegur. Að öðru jöfnu er eg nú miklu hneigðari til að vera með brúnum, því eins og eg áður benti á, ætti ekki að líða öllu meira en 10 ár, þangað til brútækar ár á landssjóðsvegum væru nærfelt allar brúaðar. Mönnum er vafalaust ókunnugt um, hve mikið er hér um að ræða. Eftir skýrslu, sem eg hefi í höndunum eru á landssjóðsvegum um 150 ár brútækar; þar af eru 45 þegar brúaðar, og það hinar stærstu einkanlega. Hér má því eigi slá slöku við. Af þessum ástæðum er eg mjög hlyntur Rangárbrúnni.

Þá vil eg minnast á nokkrar einstakar tillögur. Fjárlaganefndin hefir að miklu leyti haldið fast við tillögur verkfræðingsins. Þó hefir hún stungið upp á hækkun á þjóðvegafénu um 5000 kr. f. á. vegna vörðuhleðslu á Þorskafjarðarheiði og aðgerðar á Geysisveginum frá Þingvöllum ca. 3000 kr. þar, hvorugt að ráði verkfræðings. Eg sé ekki að brýn nauðsyn eða réttlæti mæli með þessari aðgerð á Geysisveginum. Árið 1907 var Árnessýsla svo heppin, að fá til aðgerða á vegum þar og vegagerð upp undir 30 þús. kr. umfram það, sem á fjárlögunum var veitt, bara vegna konungskomunnar; þar af um 10 þús. til brúa. Þetta var nauðsynlegt fyrir konungsmóttökuna og heppilegt, að héraðið gat notið góðs af þeim mikla móttökukostnaði að þessu leyti og fleiru. En þá er líka minni ástæða til, að bæta nú enn við þetta.

Þm. Dalam, (B. J.) er með till. um 6000 kr. til þjóðvega í sínu kjördæmi og 2000 kr. til vegar, sem ekki er landssjóðsvegur. Þessi upphæð til þjóðvega í Dalasýslu virðist nokkuð út í bláinn, ekki svo há að ráðist verði í verulega vegalagning með henni, en óþarflega há til viðhalds og smáaðgerða á þjóðvegum þar, enda ekki að ráði verkfræðings, sem eg hefi talað við um þetta nýlega. Það er líka á fjárlagafrv. sérstök veiting til smærri aðgerða og viðhalds á þjóðvegum. Hin upphæðin 2000 kr., sem á að vera til Laxárdalsheiðar kemur ekki landssjóði við.

Þá er þm. G.-K. (B. Kr.) með 10 þús. kr. fjárveiting til akbrautar úr Kópavogi upp á þjóðveginn hjá Elliðaánum. Eg skil ekki í, að þetta eigi að sitja fyrir landssjóðsvegum, sem enn eru ógerðir, en bíða ár frá ári. Svo gekk landssjóður í vatnið á því að styrkja til helminga sýsluveginn suður með sjónum, eða Stapaveginn, því nú er komið í ljós, að sýslubúar hafa þar reist sér hurðarás um öxl og treystast ekki til helmingskostnaðar við þann veg, eins og sést á br.till. frá sama þm. um að færa framlag sýslubúa til þess vegar niður í ¼ kostnaðar. Það væri því lítið vit í að fleygja í viðbót stærri upphæð í vegi sama héraðs, sem þar á ofan hefir mestar samgöngur sínar og allan þungaflutning sjóleiðis.

Öðru máli nokkuð er að gegna um till. frá sama þm. um brúargerð á Bleikdalsá, sem er á þjóðvegi. Þó er engin sönnun fyrir, að ýmsar aðrar brúagerðir á þjóðvegi eigi ekki einmitt að ganga á undan þessari. Þegar reglubundar skipaferðir komust á til Borgarness — komust á árið um kring — var litið svo á, að þjóðvegurinn upp í Borgarfjörð yrði mjög þýðingarlítill, þar sem ekki einusinni pósturinn færi hann. Það væri því eigi rétt, að kosta miklu til þess vegar, nema upp í Mosfellssveitina, til þess hún fengi akfæran veg til Reykjavíkur.

Þá er þm. Austur-Skaftfellinga (Þ. J.) með till. um 15,000 kr. til vega og brúar. Um það er örðugt að dæma sökum ókunnugleika, og þess konar fjárveitingar ættu að vera teknar á stjórnarfrumv. eða að ráði verkfræðings. Af því þetta er á þjóðvegi er eg hneigður til að vera með brúnni, samkv. því sem eg hefi áður látið í ljósi um brýr.

Ennfremur er þm. N.-Þing. (B. Sv.) með till. um 14,500 kr. til 2 brúa í Þistilfirði. Eg á bágt með að vera á móti þessu, því fáir eru vinir hins snauða. Hérað þetta hefir engan þjóðveg, og fær lítið úr landssjóði. Og aðalpóstvegurinn um þetta hérað á svo skylt við þjóðvegina, að engu verulegu munar á honum og sumum þeirra, nema nafninu.

Tillaga 1. þm. G.-K. (B. Kr.) um, að færa framlag héraðsbúa til Stapavegarins niður í ? eða jafnvel ¼ kostnaðar, kom mér óvart. Því var á sínum tíma lofað, að aldrei skyldi til þess koma, að landssjóður legði til þess vegar meira en helming, og var nóg í ráðist samt, að láta slíkt framlag sitja fyrir öðrum, er nær stóðu.

Eg ætla þá lauslega að minnast á br.t.till. þm. Dal. (B. J.) og tveggja annara þingmanna viðvíkjandi tillagi héraða til símalagningar. Þm. Dal. hélt fram að hið eina réttláta væri það, að landið legði alla síma á sinn kostnað eingöngu. Eg veit ekki, hvort hann á þar við alla síma, bæði þá sem komnir eru og aðra, sem koma munu í framtíðinni. Ef sú er meiningin, þá er hætt við að kröfurnar verði bráðlátar og gangi langt. Eg segi fyrir mig: Eg vil þá strax fá síma heim til mín. Og það er líklegt, að heimtufrekjan gangi svo langt, að hver einasti maður krefjist síma heim á sinn bæ, jafnvel á beitarhúsin og í selið.

Það er nú líklega öllum ljóst, hvað sem réttlætinu og skyldu landssjóðs líður í þessum efnum, að ekki verða allar símalínur lagðar í einu, enda eigi jöfn þörf á þeim. Sum héruð og sveitir verða þar að ganga á undan öðrum. En þá er líka sanngjarnt, að þau héruðin, sem fyrst fá að njóta gagnsins af símunum, borgi eitthvað sérstaklega fyrir það, svo héruðin sem bíða, eða fara á mis við gagnið, hafi eigi hvorttveggja: biðina og kostnaðinn að fullu að sínum hluta.

Það er sjálfsagt, að leggja fyrst símann, þar sem þörfin er mest. En það er vandi um það að dæma, ef allir geta heimtað út í bláinn. Tillög héraðanna eru þar á móti sönnunin fyrir þörf og verðleikum, og héruðin og sveitarfélögin mundu fara sér hægra í að heimta fé til símalagningar, ef þau ættu sjálf að leggja svo og svo mikið til fyrirtækisins.