19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Eggert Pálsson:

Það virðist vera að bera í bakkafullan lækinn, að fara að minnast á Rangárbrúna enn. Það hefir verið mikið talað um þetta mál, sem ekki er heldur undravert, svo mikilsvert sem það er, að minsta kosti fyrir oss Rangæinga. Gangur málsins er sá, að á þinginu 1905 var það fullkomlega látið í ljósi af þingsins hálfu, að Rangá mundi verða hin fyrsta af ánum, er brúuð yrði, og meira að segja á þinginu 1907 lýstu fjárlaganefndir beggja deilda í einu hljóði því ljóst og skilmerkilega yfir, að á þessu þingi skyldi verða lagt fram fé í þessu augnamiði. Að meiri hluti þessa þings meti nú ekki að neinu skoðanir og yfirlýstan vilja fyrri þinga, er næsta ótrúlegt. Því var kastað fram áðan, að því er virðist með allmiklum rökum, að þetta væri gert að flokksmáli, hvort brúin fengist nú eða ekki. Þetta fullyrði eg ekki að sé rétt, eg veit meira að segja að einn úr hinum háttv. meiri hluta greiddi atkv. með brúnni í nefndinni, að hún væri tekin upp í fjárlögin, og annar greiddi atkv. með henni í aukafjárlögunum nú fyrir skemstu. — En á hina hliðina mun þó vera allmikil ástæða til að óttast úrslit þessa máls, því þá er það var samþ. í fjárlaganefnd með meiri hluta að taka brúna þessa í fjárlögin, hótaði helzti maður flokksins mér því, að þetta skyldi verða að flokksmáli, og flogið hefir það fyrir, að svo hafi verið gert í morgun. En eg vona þó, að hinir heiðruðu þingmenn láti ekki leiða sig eins og skynlaus dýr í bandi, þó að einn einasti maður leggi áherzlu á að koma brúnni fyrir kattarnef í pólitísku ofsóknarskyni, því það verður ekki öðru vísi á þetta litið en hefnd fyrir pólitíska afstöðu kjósenda í Rangárvallasýslu, ef brúin verður nú feld. En að beita flokksfylgi í slíkum málum, getur ef til vill orðið tvíeggjað sverð. Sakir standa að vísu nú þannig, að Rangæingar hafa þm., sem tilheyra minni hluta. Þetta getur snúist við, máske fyr en varir, og minni hlutinn, sem nú er, orðið að meiri hluta, svo að þeir geti orðið þess megnugir að láta til sín taka í einhverjum áhugamálum. háttv. þingm., svo að þeim kynni þá að þykja ekki svo sérlega gott að þm. Rangv. ættu sér einhvers í að hefna. Meira að segja, margir þm. í meiri hlutanum hafa nú án efa ýms áhugamál, sem ekki allur meiri hlutinn hefir skipast um, og verða þess vegna í þeim að njóta minni hlutans, ef þau eiga að ná framgangi. Vona eg því, að mörgum sem í flokknum eru, þyki ísjárvert og ósanngjarnt, að láta þetta brúarmál falla niður. Eg vona fastlega, að þeir gæti allrar sanngirni og minnist þess, sem þeim í byrjun þessa þings var svo kröptulega lagt á hjarta: »að gæta þess, að ljósið sem í þeim er, verði ekki að myrkri«. Það er engum vafa undirorpið, að nauðsyn mikil er á þessari brú. Vatnsfallið er stórt, og fjöldi manna þarf yfir það að fara. Eg skyldi fúslega kannast við, að þetta væri »luxus«, að heimta þessa brú, ef bændur gætu á annan hátt haft notandi samgöngur til vöruflutninga, en því er ekki að heilsa. Undir góðum kringumstæðum geta bændur undir Eyjafjöllum og í Landeyjum fengið ofurlítið frá Vestmanneyjum, en þeir sem í Fljótshlíð, Hvolhreppi og á Rangárvöllum búa, verða að flytja alla sína vöruflutninga yfir Rangá, svo að orð mótstöðumanna brúarinnar eru blekking ein, ætluð þeim, sem ekkert til þekkja.

Eins og eg þegar hefi tekið fram, treysti eg fyllilega, að hinir háttv. þm. láti ekki leiða sig afvega að gera þetta að flokksmáli, en tíminn mun leiða í ljós, hvort sú von rætist eða ekki. En eg tek það aftur fram, að eigi þetta að vera hegning á Rangæinga, þá er samt ekki víst, að það muni breyta skoðun þeirra. Meira að segja, undanfarin reynsla bendir áreiðanlega fremur í þá átt, að þeir muni ekki láta kúgast.