19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Skúli Thoroddsen:

Það er vegna brúarinnar á Ytri-Rangá, að eg stend upp. Eins og flestum mun kunnugt, þá er óeining um staðinn, hvort heldur að hún eigi að vera á Ægissíðuhöfða eða Ægissíðufossi. Sé hún bygð á Ægissíðuhöfða, eins og háttv. þingm. sýslunnar fara fram á, þá er það 7000 kr. kostnaðarauki fyrir landssjóðinn, að ótöldum vegarspotta, sem þá þyrfti að leggja, og eg get ekki séð, að landssjóðurinn eigi að vinna það fyrir 10— 12 mín. reið, að kasta út 7000 kr.

Eg vakti máls á því í fjárlaganefndinni, þar sem 1. þm. Rangv. (E. P.) á sæti, hvort hann vildi aðhyllast þann miðlunarveg, að sýslan legði fram 5000 kr. og brúin yrði bygð á Ægissíðuhöfða, svo sýslunni gæfist kostur á, að skera úr því, með þessu fjárframlagi, hvort hún vildi fá brú þarna, en við það var ekki nærri komandi, að háttv. þm. vildi sinna þessari miðlunartilraun, sem þó hefði máske orðið til þess, að málið hefði gengið fram. Þetta virðist mér sýna það, að þörfin sé ekki svo brýn, sem háttv. þm. segja hana.

Eg hefi heyrt það sagt um háttv. þm. Rangv., að þeir hafi notað þetta brúarmál í kosningarbaráttunni í sumar, á þann hátt, að skrökva því upp á pólitískan andstæðing sinn, að hann vildi hafa brúna á neðri staðnum Ægissíðufossi. Þetta er svo ljótt athæfi, svo svívirðilegur kosningarrógur, að ekki er von, að gott leiði af því. — Mig furðar á því, að hvorugur þm. skuli hafa svarað þessum áburði, sem komið hefir fram í háttv. þingdeild í dag.

Eg get ómögulega litið svo á, að síðasta alþing gæfi nokkurt loforð um brúna, því það er sannarlega ekkert loforð, þótt þáverandi háttv. frams.m. fjárlaganefndarinnar hafi varpað einhverju fram í þá átt, og getur alls ekki verið bindandi fyrir þetta þing; ef svo ætti að vera, þá hefði það þurft að koma fram, sem þingsályktun frá seinasta alþingi.

Hvað þau ummæli snertir, sem hv. 1. þm. Rangv. (E. P.) kom með í ræðu sinni í dag, og sem gáfu það í skyn, að þeir sem mæltu gegn málinu gerðu sig að skynlausum skepnum, þá hefði hann átt að spara sér þau. Slík ummæli af hans hálfu eru ósæmileg og óhyggileg, því engar líkur eru til, að hann fái málið fram með illyrðum, og úr því þingm. ekki vill standa við tilboð kjósenda sinna, þá lít eg svo á, að réttast væri að fresta brúnni að þessu sinni.