20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Ráðherrann (H. H.). Nefndin vill færa styrk til aukakenslu í lagaskólanum úr 1800 kr. niður í 800; en með slíkri upphæð er ekki hægt að bæta úr þörfinni. Það er gersamlega ómögulegt að komast af með tvo kennara við skólann, þar sem aðsóknin hefir orðið svo miklu meiri, en við var búist. Sé það alvara þingsins að halda skólanum, verður að leggja fram til hans svo mikið fé, að viðunanleg kennsla geti farið fram. Viðvíkjandi niðurfærslunni á styrknum til kvennaskólans í Reykjavík skal eg að eins benda á, að stjórn kvennaskólans hefir þegar í fullu trausti til samninga þingsins gert ráðstafanir, sem gera það að verkum, að skólinn getur ekki komist af með minni styrk heldur en stjórnarfrumv. fer fram á.

Misráðið finst mér og, að minka styrkinn til barnaskólanna í kaupstöðunum. En þann styrk vill nefndin færa úr 6000 kr. niður í 5000 kr. Það er augljóst, að kostnaðurinn við skólahaldið eykst ár frá ári eftir því sem meiri kröfur eru gerðar, og þá getur það ekki verið rétt að minka að sama skapi tillögin.

Eg skildi ekki fullkomlega hvað h. 1. þm. G.-K. (B. K.) var að fara, þegar hann var að tala um að breyta nafni umsjónarmanns fræðslumálanna í 14. gr. B. VIII. b. 5. a. En fjárlagafrumv. fer þar beint eftir gildandi lögum. Hann er nefndur þannig í 33. gr. laga um fræðslu barna frá 22. nóv. 1907, og það er ekki til neitt annað löglegt heiti á þeim starfsmanni.

Umsjónarmaður hefir ekki á hendi yfirstjórn fræðslumálanna. Hana hefir stjórnarráðið auðvitað. En það hefir umsjónarmanninn sér til aðstoðar í því, og hann hefir mjög mikið og mikilsvert verk að vinna. Hann á eftir lögunum aðallega að gegna umsjónarstarfi með allri alþýðufræðslu landsins fyrir stjórnarráðsins hönd og undirbúa ráðstafanir allar og reglugerðir, sem stjórnarráðið setur um fræðslumál. Eg tel það þvert ofan í lögin, ef þessi breyt.till. verður samþ. Fjárlaganefndin hefir viljað fella burtu þær 600 kr., er hann á að hafa til skrifstofukostnaðar, en það er enginn sparnaður. Sé umsjónarmaður sviftur þessu fé, þá verða skrifstofuútgjöld stjórnarinnar að eins þeim mun meiri. Umsjónarmaðurinn verður að hafa samkvæmt stöðu sinni svo miklar bréfaskriftir, að það er ómögulegt, að hann komist yfir að hreinskrifa það alt einsamall, og auk þess hefir hann mjög mikið starf við að búa til skólastatistik fyrir landið, verk, sem hann verður að hafa aðstoð við.

Viðvíkjandi Flensborgarskólanum vil eg taka það fram, að því fer fjarri að hann sé landsskóli. Honum er stjórnað af sérstakri nefnd manna, sem sýslunefndin í Gullbringu- og Kjósarsýslu velur, og landstjórnin hefir í rauninni ekkert annað með hann að sýsla en það að borga honum út þann styrk sem þingið veitir. Hann á eftir reglugerð sinni jafnframt að vera barnaskóli fyrir einn einstakan hrepp, Garðahrepp. Þó að skólinn sjálfsagt ; geri talsvert gagn, þá þótti stjórninni samt ekki fært að kasta öllum kostnaðinum af skóla þessum á landssjóðinn, eins og hann væri eiginlegur landsskóli, þar sem landið kostar gagnfræðakennslu bæði hér í Reykjavík og á Akureyri, auk bændaskólanna, sem gefa svipaða fræðslu. Það er heldur ekki rétt, að styrkurinn til Flensborgarskólans hafi verið lækkaður í stj.frumv., að eins var kipt í burtu því fé, er veitt var til kennarafræðslunnar þar, því að það fé á að sjálfsögðu nú að ganga til hins nýja kennaraskóla.

Þá eru ýmsar breyt.till. við 15. gr., sem mér þykja nokkuð einkennilega skrítnar, svo sem það, að fella burt styrk til hr. Boga Melsted, einmitt nú er hann þarfnast hans mest, þar sem hann nú er í óðaönn að skrifa Íslands sögu, eftir að hafa varið mörgum árum til undirbúnings með styrk af almannafé. Það kalla eg undarlega meðferð á landsins fé, að veita ár eftir ár fé til undirbúnings fyrirtækis, en gera svo ómögulegt að framkvæma fyrirtækið, þegar til kemur, enda tjáir ekki að dyljast þess, að hér er að eins að ræða um hegning á hr. Boga Melsted fyrir það, að hann er ekki meirihlutamaður í stjórnmálum.

Þá er það ekki síður einkennilegt að nefndin vill lækka orðabókarstyrkinn til Jóns Ólafssonar. Þar er almennt viðurkent, að hin mesta þörf sé á verki eins og því, sem hér er um að ræða, og merkir vísindamenn hafa lokið miklu lofsorði á sýnishorn þau af verkinu, sem höfundurinn hefir látið sjást. Nú á að klípa svo af styrknum til þessa verks, að hann verði ekki að neinu liði, og skil eg ekki hvaða hæverska það er hjá meiri hlutanum, að drepa styrkinn ekki heldur alveg.

Stjórnin lagði til, að Guðm. Magnússyni skáld væri veittar 600 kr. hvort árið, og við það hefir nefndin að vísu ekki gert neinar athugasemdir. En hún hefir lagt til að veittur væri miklu hærri styrkur til ýmsra annara skálda, og þá finst mér sanngjarnt að styrkur Guðmundar Magnússonar sé líka hækkaður.