20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Þorkelsson:

Kenslumál okkar hygg eg að hafi lengi verið og séu reyndar enn nokkuð í molum. Þau eru öll í einangri, og lítið yfirlit yfir þau. Vér eigum skóla í öllum áttum, auðvitað suma hverja góða og gagnlega, en eg held, að þeir mætti vera færri.

Það hefir verið barizt fyrir því með hnúum og hnefum að koma sem flestum skólum til kaupstaðanna, sem eg tel óholt, svo sem kennaraskólanum o. fl.

Allir vita hvernig farið hefir verið með mentaskólann, sem lengi var sómi þessa lands, eins konar Mímisbrunnur allrar mentunar landsins, öldum saman. Ungum manni, sem eg þó engan veginn ætla að lasta, var falið það vandaverk, að útbúa nýja reglugerð fyrir skólann, sem var ærið verk handa nefnd af beztu og færustu mönnum landsins, og síðan hefir hann mist sinn forna veg og sóma og er orðinn nokkurskonar barnaskóli.

Við, sem vorum þar fyrir 30 árum, skoðuðum skólann sem heimili okkar, þó að við ættum vandamenn í bænum og athvarf hjá þeim. Skólinn var eigi að síður heimilið, meðan þar voru heimavistir, og piltarnir sváfu í gamla »Langa loftinu«. Við það undu þeir vel hag sínum. Menn skoða jafnan heimili sitt, þar sem bælið er. En seinast á öldinni sem leið, voru heimavistir afnumdar, þær voru þá álitnar hættulegar sökum berklaveiki o. fl., en þó hafa menn nú engu síður dáið af þeim sjúkdómi. Áður var því þannig háttað, að þeir dóu, sem deyja áttu og gátu ekki lifað, en nú má svo að orði kveða, að hverju afstyrminu sé klakið upp.

Kvennaskólinn hér í bænum er, eins og menn vita, stofnaður um 1870 af ýmsum góðum mönnum og meðal annars af þeim gömlu og virðulegu Melsteðshjónum, og hefir jafnan verið mjög nytsöm stofnun í alla staði. Nú vill hann verða heimavistarskóli, en til þess vantar hann fé og föng.

Og nú hafa góðir menn og konur gengist fyrir að byggja nýtt og veglegt skólahús úr steini, sem er þeim til hinnar mestu sæmdar. Sú háðung ætti líka að leggjast niður hið allra fyrsta, að opinberar byggingar væru bygðar úr öðru en steini, og nú ríður »privat«skóli hér á vaðið.

Eg get hugsað mér, og það mun öllum skiljast, að það skiftir nokkru fyrir óskemdar sveitastúlkur, að hafa heimavist í slíkum skóla, að hafa gott heimili hér að hverfa að í stað þess að kúlda sér niður hér og hvar í bænum á meira og minna misjöfnum stöðum, eins og hingað til hefir átt sér stað.

Stjórnin hefir nú lagt það til að skóla þessum verði veittar 7000 3000 kr. og virðist það í alla staði sanngjarnt. En fjárlaganefndinni hefir þóknast að færa styrk þennan niður.

Eg skil ekki hvernig jafnmikill kvennavinur og háttv. 2. þgm. Húnv. (B. S.), sem er einn í fjárlaganefndinni og varð manna fyrstur til að tjá kvennfólkinu fylgi sitt hér á þingmálafundi, leggur sig í það og ljær sig til þess, að fylgja fjárlaganefndinni í þessu.

Það hefir verið sagt, að ekki ætti frekar að hlynna að þessum skóla, en kvennaskólanum á Blönduósi. Ekki finst mér það svo sjálfsagt. Allar þjóðir telja skyldu sína að auka veg höfuðstaða sinna, enda finst mér ekki mjög ólíklegt, að bærinn kynni að vilja leggja eitthvað dálítið af mörkum við skólann á móti fjárframlagi úr landssjóði. Eg lít svo á, að till. stjórnarinnar í þessu máli séu sanngjarnar og réttar, en röksemdir fjárlaganefndarinnar gripnar úr lausu lofti.

Eg get ekki verið samþykkur háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.), að verulega brýna nauðsyn beri til þess, að breyta um nafn á umsjónarmanni fræðslumálanna og kalla hann »ráðunaut«, og ekki hefi eg heyrt nein nýtileg rök fyrir því, að skrifstofufé þess manns þurfi endilega að falla niður.

Við Flensborgarskólanum ætli ekki að hreyfa. Hann er stofnaður af rausn og góðleik einstaks manns, og það væri ekki til uppörfunar til slíkra gjafa og rausnarsemi, ef landið ætti nú að sleppa hendinni af slíkum skóla.

Svo hefi eg leyft mér að koma fram með eina smábreytingartillögu á þingskjali 250 um lítilfjörlegan styrk til Sigurðar bóksala Erlendssonar. Hann er nú orðinn roskinn maður, er hin mesta ráðvendnismanneskja, og hefir slitið sér út á því að ferðast víða um land á vetrum með bækur. (Þingmenn: Það er gamalt fyrirkomulag). Eg skal játa það, að þetta er gamalt fyrirkomulag, en eg get þess um leið, að það hafa ekki verið neinar óhræsis bækur, er hann hefir haft á boðstólum, ekki neitt líkt »rómönum« þeim, sem landið hefir verið fylt með um hríð, heldur hafa það verið Íslendingasögur, hjartnæmt guðsorð, riddarasögur og rímur og aðrar ágætisbækur.

Þá er nú 15. gr. Þar sé eg, að fjárlaganefndin hefir fært niður styrk þann, sem landsbókasafninu er ætlaður til bókakaupa, úr 6000 kr. niður í 5000. Eg veit ekki til þess, að fjárlaganefndin hafi haft nokkra ástæðu til þessa, og eg verð að álíta, að hún muni ekki geta vitað það betur en bókavörður, stjórn safnsins, sem og landsstjórn, hvers safnið þarf með til bókakaupa. Það lítur helzt út fyrir að fara eigi að skamta það, sem þarf til safna landsins og safnhússins, því að fjárlaganefndin ætlar líka að fara að fræða mig um það, hvers landskjalasafnið þurfi með, en henni hefir ekki tekist að sannfæra mig enn þá. Eg gaf stjórninni skýrslu um þetta efni, og tók þar til það minsta, sem eg áleit að safnið gæti komist af með, og stjórnin féllst á tillögur mínar. En nú sé eg, að fjárlaganefndin þykist vita þetta betur en bæði eg og landsstjórnin. Þá hefir fjárlaganefndin heldur ekki getað sannfært mig um það, að 600 kr. sé nægilegt til umsjónar forngripasafnsins. Eg hefi stungið upp á 1000 kr. sem því minsta, sem hægt væri að komast af með, og skal eg enn fremur benda á það, að safn þetta hefir ekki nú eins mikinn styrk eins og á meðan það var í landsbankanum, því þá hafði það 2000 kr. húsaleigustyrk. Nú hefir safnið óhaganlegt húsnæði og er þar ekki hægt að gæta safnsins nema með aukaumsjón. Og þótt þessar 1000 kr. væru veittar, þá græddi þó landsjóður 1000 kr. við breytinguna. Enn er farið fram á það, að lækka þóknun til fornmenjavarðar, til fornmenjarannsókna og skrásetningar úr 1000 kr. niður í 500 kr. Eg ímynda mér að fjárlaganefndin hafi ekki gert sér ljóst, að það er lögskipað að fornmenjavörður skal ferðast um landið til þess að safna og skrásetja fornmenjar. Hér er mikið verk fyrir höndum að leita uppi og rannsaka dysjar og hauga og hlynna að því, sem þess væri vert af slíku tagi, og að auki gæti verið fullkomin ástæða til þess að grafa í kirkjugarða og taka ljósmyndir af ýmsu. En það er að því leyti sama, hvort fjárlaganefndin veitir fé til þessa eða ekki, að þetta er lögskipað starf, og stjórnin er því skyldug, jafnvel af fé til óvissra útgjalda, að greiða þann kostnað, sem þetta hefir í för með sér, svo undan þessu gjaldi verður ekki komist, því að verkið getur ekki hjá liðið.

Þá er stungið upp á því, að færa styrkinn til magister Sigfúsar Blöndal niður í 300 kr. í stað 600. Eg vil þó mælast til þess, að þingmenn flýti sér ekki að greiða atkvæði með því, því að mér er persónulega kunnugt um, að styrkur þessi er nauðsynlegur til þess að verkinu geti orðið haldið hæfilega áfram.

Við 12. lið á atkvæðaskránni (í 15.gr.) er það minn athugi, að nógu fljótt sé að því undið, að fara að lækka styrk Jóns ritstjóra Ólafssonar niður í 700 kr. meðan ekki er reynsla komin fyrir því, hvers með þarf, enda ekkert í hættu að veita þennan styrk, því að í frumvarpi stjórnarinnar er það orðað svo, að að eins skuli borga fyrir það, sem handrit er til fyrir. Og engan heyri eg draga í efa, að höfundurinn sé vel til verks þessa fær.

Þá hefi eg farið fram á, að styrkurinn til Sögufélagsins verði aukinn um 200 kr., úr 600 kr. upp í 800 kr. Á aðalfundi félagsins, er haldinn var nú fyrir nokkrum dögum, var það almenn ósk, ef kleyft væri, að fá meiri styrk handa félaginu, einkum til þess að geta gefið örara út Biskupasögur Jóns próf. Halldórssonar í Hítardal, en verið hefir hægt hingað til. Sem mönnum er kunnugt, eru sögur þessar eitt af allra merkilegustu sagnaritum frá síðari öldum, og stórfróðleg og skemtileg bók.

Þá er 51. liður á atkvæðaskránni um styrk til herra Einars Páls Jónssonar til þess að fara utan og fullkomna sig í tónlist. Eg er maður lítt söngvinn og á því bágt með að byggja á eigin skoðun þetta mál, en treysti meðmælum þeim, sem þessi maður hefir frá organleikara við dómkirkjuna, hr. Brynjólfi Þorlákssyni. Eg heyri sagt og ímynda mér, að herra Einar Páll hafi bæði nægar náttúrugáfur og þekkingu til þess að styrkur þessi geti komið honum að notum.

Þá er liður 55, þgskj. 281, þar er eg riðinn við breytingartillögu, eða eiginlega breyt.till. við breyt.till., um námsstyrk til Jóns Ísleifssonar, 600 kr. fyrra árið, er fer því fram, að þessi styrkur yrði hækkaður upp í 1200 kr. fyrra árið. Hefi eg raunar heyrt það haft styrk þessum til foráttu, að efnaðir menn standi að þessum manni á margar hendur. En hvernig sem því kann að vera varið, þá mun þessum manni þó þykja sér haldkvæmast að spila sem mest á eigin spýtur, og treysta meir á sjálfan sig en auðuga frændur. Eg þekki að sönnu manninn lítið nema af góðri afspurn, en hér eru menn, sem þekkja hann, og munu þeir láta til sín heyra. Eg vonast til, að þingið sjái sér fært að veita honum þennan styrk, enda sé eg enga ástæðu til þess að neita honum um hann. Nám hans getur síðar orðið þessu landi til góðra nytsemda.