20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Sigurðsson:

Viðvíkjandi styrkveitingu til skáldanna skal eg taka það fram, að eg álít að Guðm. Magnússon eigi styrk skilið, ef á annað borð er um það að ræða, að veita nokkru skáldi styrk. En því minnist eg á þetta, að eg veit ekki hverjar undirtektir styrkurinn til Guðm. Magnússonar fær. — Þá hefir komið fram till. um það, að nema burtu styrkinn til Hvítárbakkaskólans. Skóli þessi er stofnaður af einstökum manni, sem hefir lagt í hann alla sína vinnu og fé. Eg verð því að vera með því að það verði veitt fé til hans, einkum þar sem eg álít, að skóli þessi sé engu síður til uppbyggingar fyrir landið en margir aðrir skólar, sem styrktir eru. Einnig hefur skóli þessi notið styrks undanfarin ár, og í trausti til þess að hann mundi fá hann framvegis, hefir skólastjórinn lagt út í að kaupa jarðnæði og að byggja skólahús. Það er því að mínu áliti mjög misráðið að svifta skólann styrk, einmitt þegar hann er kominn í fast horf, og væri ekki til annars en að eyðileggja manninn. Vonast eg til að hin háttvirta deild skoði vel huga sinn, áður en hún felst á þá tillögu, að neita skóla þessum um styrk, því hún er svo ósanngjörn, sem frekast má verða.