20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Einar Jónsson:

Þegar eg bað um orðið, hafði eg ekki búist við svo löngum umræðum, sem raun er á orðin, og að ekki væri nema annarhvor þingm. eftir hér í deildinni; það þýðir því ekki mikið að tala, enda skal eg vera stuttorður.

Eg get búist við, að mörgum þm. þyki undarlegt, hvernig eg greiði atkv. um 14. og 15. gr. fjárlaganna, en eg hef nú þegar ákveðið það og býst ekki við, að það breytist.

Hvað atkvæði mitt snertir um bókmentir og skáldskap, þá verð eg að gera greinarmun á því, hvaða bækur það eru, sem út eru gefnar. Kenslubækur álít eg nauðsynlegastar, og þær gefur enginn út af eigin hvötum, því oft og einatt borgar það sig ekki, en er þó nauðsynlegt að gera það og þess vegna álít eg rétt, að veita styrk til útgáfu þeirra. Hið sama má segja um orðabækur, að enginn semur þær af eigin hvötum, en þær eru þó nauðsynlegar fyrir skóla og almenning, og verður því hið sama sagt um þær, að þeir eigi skilið að fá styrk, sem semji þær. — Með skáldsögur og kvæði er nokkuð öðru máli að gegna; slíkar bækur eru gefnar út af eigin hvötum og enginn knúður til þess, og æði oft vill það bregðast, að þær bækur séu góðar eða þarfar; hitt er víst algengara, að þær séu lélegar og til lítils sóma eða uppbyggingar bókmentum vorum, þó vil eg auðvitað játa það og viðurkenna fúslega, að stundum eru bækur þessar mjög góðar og þýðingarmiklar og verk það, sem höf. þeirra vinna harla þarft. Eg fyrir mitt leyti sé ekki, að við höfum efni á að styrkja marga slíka höfunda, og mun eg því greiða atkvæði gegn þeim styrkveitingum.

Það verður ekki alt styrkt, og þá hygg eg það standi nær okkur, að styrkja ýmisleg verkleg fyrirtæki, sem þjóðin þarfnast svo mjög. Eg skal viðurkenna, að það er góðra gjalda vert, að styrkja unga og efnilega menn til náms, og það er sjálfsagt, að landssjóður geri það, þegar svo stendur á og þess er þörf.

Það er mitt álit, að þegar búið er að styrkja menn til náms, að þá eigi að bíða við og sjá hvernig mennirnir reynast, áður en farið er að veita þeim áframhaldsstyrk.

Eg get ekki betur séð, en það sé undarlegt, að þurfa að styrkja menn til að skrifa skáldsögur og kvæði, því sé það gott, þá ætti það að seljast og höf. að geta lifað á því, en ef þessi verk þeirra seljast ekki, get eg ekki séð, að það séu meðmæli og því mun eg greiða atkvæði gegn slíkum styrkveitingum.

Mér þykir það undarlegt, sem sumir þm. segja, að 8—12 hundruð króna styrkur sé lítilsvirði, og að hann eigi ekki að vera lægri en 1500 kr. eigi hann að koma að notum. 1200 kr. eru þó æfinlega góð hjálp, og í þeim tilfellum, sem hér liggja fyrir, sannarlega fremur of hátt en of lágt. Mér virðist flest þetta skáldsagnarugl, sem sent er út um landið á síðustu tímum miklu ónauðsynlegra en brýr og vegir, skólar og ótal margt annað, sem hér er á dagskrá, og eigi því að fara sem hægast í því, að auka skáldalaun, miklu fremur að taka þau burtu með öllu.

Eg þykist nú búinn að gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli og býst ekki við að eg breyti skoðun. Að eins vildi eg leyfa mér að bæta því við, að mér fyndist betur viðeigandi að háttv. þm. Dal. (B. J.) væri þingmaður Reykjavíkur, en ekki sveita-þingmaður, því þær skoðanir, sem hann lætur í ljós, og tillögur hans í fjármálunum, virðast mér vera í litlu samræmi við það, sem á sér stað í sveitunum. Hann hefir svo auðsjáanlega Reykjavíkurbæ eingöngu fyrir augum, en ekkert annað.