20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Sigurður Sigurðsson:

Það eru að eins örfá atriði, sem eg vildi minnast lítið eitt á.

Að því er snertir styrkinn til Ísólfs Pálssonar, þá hefir háttv. 1. þgm. G-K. (B. Kr.) gert rækilega grein fyrir þeirri breyt.till. okkar, sem um það ræðir. Eg skal þó að eins geta þess, að maður þessi er milli þrítugs og fertugs, fátækur barnamaður, sem er sívinnandi og sístarfandi. Í tómstundum sínum hefir hann lagt stund á tónlist og búið til mörg hugðnæm lög, sem mörgum eru kunn. Annars er hann mesti hugvitsmaður, en hefir ekki getað þroskað gáfur sínar sem skyldi og væri því heppilegt, að hann væri styrktur til að auka sína teknisku þekkingu. Vona eg að af því geti leitt margt gott og gagnlegt fyrir landið.

Þá vil eg snúa mér að kvennaskólunum og skólamálinu yfir höfuð. Það má reyndar kanske segja um mig, eins og háttv. 1. þgm. Rvík, (J. Þ.) hefir að slagorði: »Þið hafið ekkert vit á þessu máli«, en eg vil eins og fleiri góðir menn láta uppi mína skoðun á því máli. Um styrkinn til kvennaskólanna er eg alveg sammála fjárlaganefndinni. Eg lít svo á, að kvennaskólinn hér í Reykjavík sé að mestu leyti fyrir Reykjavíkurbæ, en ekki skóli fyrir húsmæðraefni uppi í sveit. Í sambandi við þetta vil eg geta þess, að mér finst varhugavert að draga alla skóla til kaupstaðanna, og að því er snertir skólamentunina, og þá einkum kvennaskólamentunina hér í Reykjavík, þá hefi eg ekki trú á að hún sé happasæl eða notadrjúg fyrir stúlkur, sem eiga að ala aldur sinn upp í sveit.

Eg skal nú gjöra nánari grein fyrir, hvers vegna eg er á móti því, að skólar, og þá einkum alþýðuskólar séu í kaupstað. Er þess þá fyrst að geta, að skólalífið í kaupstöðum venur nemendurna á glaum og gjálífi en hugurinn dregst frá vinnu og alvöru lífsins. Fyrir mér er það aðalatriðið í þessu máli, að skólar í kaupstöðum innræta nemendunum hugsunarhátt og venur þá við lífsskilyrði, sem er svo gagnólík þeim, sem þeir seinna þurfa við að búa. Nemendur úr sveit, sem ganga á skóla hér í Reykjavík, umgangast hér fólk, sem er vel klætt, og þeir venjast betri húsakynnum en þeir hafa áður átt við að búa eða geta síðar veitt sér. Þeir sjá og heyra fyrir sér dans og sjónleiki og taka þátt í skemtunum þeim og glaðværð, sem kaupstaðurinn hefir að bjóða, en sem þeir heima í sveitum ekki eiga kost á að njóta. Þetta venur þá á að gera háar kröfur til lífsins, að því er snertir þægindi og munað, miklu hærri kröfur en þeir síðar hafa ef til vill ráð á að fullnægja. Kaupstaðarlífið hefir þannig truflandi áhrif á hugsunarhátt unglinganna, og spillir honum. Þegar svo þetta unga fólk kemur upp í sveitina leiðist því sveitalífið og langar aftur í kaupstaðaglauminn. Það verður óánægt yfir kjörum sínum, sem ekki fullnægja kröfum þeirra, og afleiðingin verður sú, að það flytur til kaupstaðanna og sezt þar að.

Það er mín föst sannfæring, að alþýðuskólar og skólar fyrir húsmæðraefni í sveit eigi ekki að vera í kaupstað, heldur á hentugum stað upp í sveit.

Eg get ekki stilt mig um í þessu sambandi að minnast á ummæli eins merks Íslendings Þorvalds Thoroddsens prófessors, þar sem hann í æfisögu Péturs biskups Péturssonar er að tala um Bessastaðaskóla og hve hraustir og nýtir drengir hafi þaðan komið. Hann segir á þessa leið: »Aldrei hefir á jafnstuttum tíma jafnfrítt úrvalalið ungra manna komið frá nokkrum skóla á Íslandi, eins og frá Bessastaðaskóla á árunum 1820—1840. Orsökin til þessa blóma getur ekki eingöngu hafa verið sú, að á því tímabili hafi fleiri gáfaðir og þrekmiklir menn fæðst og þroskast, heldur hitt, að góðir hæfileikar hafa fundið hentugan jarðveg. Bessastaðaskóli hefir á þeim tímum haft mikil og góð áhrif á lærisveinana, enda ber öllum saman um, að skólalífið hafi þá fyrir tilstilli samvaldra ágætiskennara verið staðbetra til menningar og þroskunar en síðar varð. Það var ekki fjöldi kenslugreina, sem þessu olli. Þær voru fáar og fátæklega frambornar, heldur var það eftirdæmi góðra manna og samvera við þá, sem mestu réði. Kennararnir nutu sín, af því þeir voru samhentir og af því skólinn var í sveit og enginn bæjarglaumur glapti fyrir«.

Þegar skólinn er í sveit er samlíf milli kennara og lærisveina miklu betra og alúðlegra. Í kaupstaðaskólanum koma kennararnir að eins snöggvast í skólann, hlíða yfir leksíuna og fara svo að því búnu strax í burtu. Í skólum í sveit er þessu háttað á annan veg. Þar umgangast kennarar og nemendur hvorir aðra eins og væru þeir heimilismenn. Þetta hefir góð áhrif á nemendurna, og skólaveran verður þeim gagnleg og ánægjuleg. Af þessum ástæðum, sem þegar eru greindar, vil eg ekki stuðla til að kvennaskólinn í Reykjavík verði landsskóli.

Úr því eg mintist á skóla yfirleitt skal eg fara örfáum orðum um Flensborgarskólann. Það hefir verið sagt að það væri óviðkunnanlegt að hafa þar gagnfræðisskóla undir handarjaðrinum á gagnfræðisdeild hins almenna mentaskóla hér í Reykjavík. En skólinn hér í Reykjavík, hinn svo nefndi almenni mentaskóli er ekki annað og hefir aldrei verið annað en embættismannaskóli. Ef Flensborgarskólinn legðist niður yrði Suðurland svift þeim eina gagnfræðaskóla, sem það hefir haft og hefir nú.

Eg geri ekki ráð fyrir, að hinn almenni mentaskóli taki stakkaskiftum fyrst um sinn, og verði aðlaðandi fyrir sveitapilta, heldur að hann haldi áfram að vera aristokratiskur embættismannaskóli.

Þá kemur skrifstofufé kenslumálastjórans, sem áætlað er á fjárlagafrv. Það hefir verið mikið um það rætt. Eg vil benda á, að það er einkennilegt, þegar stofnaðar eru nýjar stöður með góðum launum, og svo kemur viðkomandi litlu síðar og þykist þurfa skrifstofufé. Mér virðist sjálfsagt, að sá aukakostnaður, er leiðir af bréfaviðskiftum hans og frímerkjanotkun takist af skrifstofufé því, sem stjórnarráðinu er ætlað. Þegar beðið er um skrifstofufé, dettur mér í hug tveir embættisflokkar manna, hreppstjórar og oddvitar. Þeir hafa oft miklar skriftir og talsverðan aukakostnað. Verða þeir oft að sitja í köldum húsum og skrifa skýrslur sinar og fá lítið fyrir, en vanþökk ef skýrslurnar eru ekki í lagi. Þessir menn hafa lítið sem ekkert skrifstofufé, en enginn talar um að þeir þurfi þess og þó er ávalt verið að auka við störf þeirra og skyldur. En þessir menn hér í Reykjavík heimta alt með sjálfskyldu. Þetta er mín skoðun og eg get ekki leynt henni.

Þá ætla eg að minnast á ræðu háttv. þm. Dal. (B. J.). Hann talaði eins og skáld og mentavinur, og áleit að auka ætti fjárframlög til skóla, listamanna og skálda, en eg vil segja, að ofmikið má að öllu gera. Hinn virðulegi þm., sem stendur augliti til auglitis við mig, sagði að varið væri tvöfalt svo miklu til samgöngumála, sem til mentamála. Þetta er að vísu rétt, en á hitt vil eg benda, að til skóla, skálda og listamanna er áætlað ½ miljón kr. en til verklegra fyrirtækja tæplega eins mikið. Eg verð nú að segja það, að skólum, skáldum og listamönnum sé gert hátt undir höfði við að verja jafn miklu til þeirra og til atvinnufyrirtækja. Það er ekki nema rétt og sjálfsagt, að styrkja þessa menn, eftir því sem efni og ástæður leyfa; en vér höfum ekki ráð á, að verja miklu fé til þess. Eg er ekki að amast við skáldunum og listamönnunum, en eg fullyrði, að það eru ekki þessir menn, er byggja landið eða auka framleiðslu þess. Eg er því ekki samdóma þm. Dal. (B. J.) um það, að skáldin og listamennirnir »séu landsins mestu höfðingjar«. Það er langt frá því að svo sé. Og embættismenn landsins eru það ekki heldur, hvorki ráðherra, biskup, dómarar eða aðrir embættismenn (Bjarni Jónsson: En þá ráðunautar?) Nei, það eru bændurnir okkar og sjómennirnir, framleiðendur þessa lands. Það eru þeir, sem bera byrðarnar og leggja oft lífið í sölurnar við að framleiða auðæfin úr skauti náttúrunnar. Þegar því er að ræða um framfarir þjóðarinnar þá eru þær að þakka bændunum og sjómönnunum. Þetta vildi eg sagt hafa að skáldum og listamönnum ólöstuðum.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) vill láta leggja niður Hvítárbakkaskólann. Þetta er góður skóli, og um kennarann er það að segja, að það sem þekking hans nær, þá er hann góður kennari. Það sem vakir fyrir þessum þm., er sennilega að fá þennan skóla fluttan í einhvern kaupstaðinn. Það furðar mig mjög, að sami þm. skuli vilja láta fella styrkinn til síra Valdimar Briems. Það stafar ef til vill af mismunandi trúarskoðunum; en það finst mér eiga ekki að koma hér fram. Síra Valdimar er eitthvert hið bezta sálmaskáld hér á landi og þó víðar sé leitað. Það er því engin sanngirni í því að fella niður styrkinn til hans samtímis sem verið er að hækka styrkinn til ýmsra annara skálda. Það er eins og þm. vilji með þessu gera þeim trúarskoðunum, sem hann er andvígur lægra undir höfði en öðrum. Mér virðist, að yfir höfuð eigi að gera öllum trúarskoðunum jafnt til, þegar ræða er um skáldalaun eða styrk til skáldanna.

Annars mun eg greiða atkvæði á móti öllum þeim till., sem fara fram á hækkun á styrk til skálda og listamanna.