20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Sigurður Sigurðsson:

Eg skal ekki verða margorður, þótt eg hafi sætt nokkrum andmælum og árásum úr ýmsum áttum. Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sagðist ekkert hafa skilið í ræðu minni. En þó varði hann löngum tíma, til að tala um hana, og svara henni. Það eru hrein og bein ósannindi hjá þessum þingmanni, að eg hafi nokkurn tíma sagt, að skáldin væri lítilsvirði fyrir þjóðina. Eg sagði, að við ættum einmitt að virða og meta okkar góðu skáld. En eg held því fram, að við höfum sýnt þessum mönnum þann sóma, sem efni okkar og ástæður frekast leyfa, og að ekki sé ástæða til, að fara þar lengra, en gert hefir verið.

Ekki skal eg fara að svara öllum háðsyrðum þm. Dal. (B. J.). Hann hrakti ekki mínar röksemdir á neinn hátt. Hann kvaðst ekki vilja ráðast á mína tröllatrú né veika garða. En eg á bágt með að skilja við hvað hann á með þessu, því veikir garðar og tröllatrú eiga ekkert skylt saman. — Mín »tröllatrú« gerir garðinn sterkan en ekki veikan.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) og þm. Dal. (B. J,) eru að mörgu leyti ólíkir til orðs og æðis; en þeir eiga sammerkt í því, að báðir hafa þeir stjórnlaust sjálfsálit, sem kemur vanalega fram í takmarkalausu sjálfshóli og hroka.