20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Þorkelsson:

Eg hafði í gær tekið flest fram af því sem nauðsynlegt var og aðalatriði málsins snertir. En eg ætla mér að svara lítið eitt mótbárum þeim, sem hafa komið fram, sérstaklega í kvennaskólamálinu. Það er þá einkum spekingurinn frá Árnessýslu, sem eg þyrfti við að tala. Hann var að bregða mér um það, að eg léti það ávalt klingja, að aðrir hefðu ekki vit á því og því. Eg þori auðvitað ekki að sverja fyrir það, að eg kunni einhverntíma að hafa sagt eitthvað á þá leið við þennan þingmann, þegar mest hefir vaðið á honum, en hér í deildinni minnist eg ekki að hafa látið þau orð falla; að minsta kosti hefi eg aldrei sett það á prent. En eg veit ekki betur en að nafn háttv. 2. þgm. Árn. (S. S.) standi undir nefndaráliti fjárlaganefndarinnar og það er hún og hv. 2. þgm. Árn. (S. S.) sem segir að ekki væri »vit« í að ætla minna en 1400 kr. til dyravarðar við þjóðbókasafnið. Það er því ekki eg, heldur háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) sem hefir haft slík ummæli. Hins vegar skal eg ekki draga úr því, að þingmenn, — bæði eg og aðrir — hafi misjafnt vit á málum, og það hefir háttv. 2. þgm. Árn. (S. S.) oft fyllilega sjálfur sýnt, því að hann er óragur að tala um alla skapaða hluti. Eitt fyrir sig er það, sem nú er næst, að hann hefir ætlað að kenna mér og stjórninni — því að hún hefir fallist á till. mínar — að hann sjálfur og fjárlaganefndin hafi betur vit á hvers landsskjalasafnið þarfnast heldur en eg. Sömu menn ætla líka að kenna fornmenjasafnsverðinum, hvers það safn þurfi með. En 2. þgm. Árn. (S.S.) hefir ætlað sér enn hærri dul, því að hann vill kenna stjórn kvennaskólans í Reykjavík hvers sá skóli þurfi við. Þessi herra hefir álitið að það væri meira »vit« í því, sem hann segir einn heldur en allir þeir til samans, sem eru í stjórn þess skóla og situr þó í henni mannval mikið bæði karla og kvenna. Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) sagði enn, að sjálfsagt væri að bærinn legði eitthvað af mörkum til kvennaskólans hér. Það mætti auðvitað fara fram á þetta við bæjarstjórnina, en eg hefi enga ástæðu til að telja það víst, þó að það sé engan veginn fjarstæðasta firran, sem hinn virðulegi þingmaður hefir sagt. En samþingismaður minn, sem sæti á í stjórn bæjarins, getur kanske skýrt það nánar, þegar hann talar í annað sinn.

Ræða háttv. 2. þgm. Árn. (S. S.) var að öðru leyti mjög svo á víð og dreif og líkari kosningaræðu austur á Húsatóftum eða Selfossi, heldur en ræðu fyrir deildinni hér. Hann lagði áherzlu á, að kvennaskólinn eigi að vera í sveit. Eg fyrir mitt leyti er ekki neitt á móti því, en hvernig ætlar hann að koma honum þangað? Sami virðuglegi þgm. áleit að skóla þessum ætti ekki að veita fé úr landssjóði, af því, að hann væri fyrir Reykjavíkurbæ, en ekki er það sannara en margt annað, sem þgm. hefir sagt, því að þessi skóli hefir langalengi, þvert á móti, verið meginkvennaskóli alls landsins. Hitt greinir okkur ekki á um, að nauðsynlegt sé að hafa heimavist og húsmæðrakenslu í skólanum, og það lítur út fyrir að þgm. hafi skilið það, að það sé nauðsynlegt, að húsmæður þessa lands séu sem fullkomnastar og bezt á sig komnar að öllu.

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) talaði líka mikið um hverjir væru mestir höfðingjar þessa lands, og um það hafa ýmsir aðrir þgm. deilt við hann. Til þeirra mála skal eg ekki leggjamikið. En Hallgrímur Pétursson kvað svo:

Að lesa og skrifa list er góð,

læri það sem flestir,

þeir eru haldnir heims hjá þjóð

höfðingjarnir mestir.

Svona hugsun kemur og fram í einu gömlu og góðu kvæði, Hávamálum, þar kveður svo að orði:

Byrði betri

berrat maður brautu at

en sé mannvit mikit,

auði betra

þykkir þat í ókunnum stað

o. s. frv. Það munu því vera þeir mennirnir, sem mesta og bezta hafa menninguna og mannvitið, sem lang-æfastir verða í landinu og vinna fólkinu mest gagn.

Þingmaðurinn gleymdi líka að telja verkamenn þessa bæjar með höfðingjunum, en nú skal eg þá bæta þeim við í höfðingjatöluna fyrir hann.

Um kvennaskólann vil eg ekki þrátta meira við þennan mann, sem telur alt eftir, ef aðrir fara fram á fé til nauðsynlegra hluta. Sjálfur hefir hann þó nú komið með breyt.till. um að auka gjöld landssjóðs, um leið og hann var að útmála hve dýrt það væri að launa skáld og listamenn, og kvað þá vera meiri sanngirni í að launa hreppstjóra og oddvita. Er það meining þgm. að landssjóður eigi að fara að launa oddvita fyrir sveitarstjórnarstörf?

Þgm. Dal. (B. J.) kvað hafa sagt, að eg hafi ekki verið að öllu leyti sjálfum mér samkvæmur, á einhvern hátt. Eg skal ekki bera það af mér að svo geti hafa viljað til, þó eg finni það nú ekki í svipinn. En geta vil eg þess, að mér fanst háttv. þgm. ekki vera fyllilega samkvæmur sjálfum sér, þar sem hann vill fella niður styrkinn til Jóns Ólafssonar af þeirri ástæðu að það væri ofmikið starf fyrir einn mann, en vill láta Jón Ófeigsson fá 1000 kr. til að semja þýzka orðabók, sem að engu er minna örðugt og viðfangsmikið starf. Hér álít eg, að standi líkt á. Ef það er kleyft fyrir Jón Ófeigsson að gefa út þýzka orðabók með 1000 kr. styrk, þá mun Jón Ólafsson fá miklu til leiðar komið með 1500 kr. styrk.

Þá skal eg snúa máli mínu að br.till. þm. Dal. (B. J.), viðvíkjandi styrk til Helga Jónssonar grasafræðings. Maður þessi varð hart úti á síðasta þingi. Hann hafði fengið vonir um að verða umsjónarmaður við skóggræðslu hér á landi, en í stað þess fékk hann að eins lítinn styrk. Maðurinn er mér kunnur sem einstakur reglu- og dugnaðarmaður.

Eg veit að eg er að tala mig dauðan og niður í gröfina, og skal því ekki fara með þetta mál lengur.