24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Ráðherrann (H. H.):

Háttv. framsm. (Sk. Th.) bar þá ástæðu fram fyrir því, að fjárlaganefndin leggur til, að fella burt fjárveitingu til húsabygginga fyrir bændaskólana, að fé væri ekki fyrir hendi. Það get eg ekki fallist á, þvert á móti. Með frv. því um tollhækkun, sem þegar hefir náð samþykki þingsins, er fylt það skarð, sem þessar fjárveitingar gera í landssjóðinn, og þótt meira væri. Eg hef og áður leitt rök að því, að tekjuafgangur hlýtur að verða við árslokin 1909. Eg hygg því enga ástæðu til að efast um það, að nægilegt fé verði fyrir hendi til þessara nauðsynja. Hinn háttv. framsm. játaði, að það væri skylda landsins að hlynna að skólunum, — enda er það víst, að fyrirmælum bændaskólalaganna getur ekki orðið fullnægt, nema þessar byggingar verði gerðar. Úr því að svo er, get eg ekki skilið, að ástæða sé til þess að fresta þessu; þó að jafnvel þyrfti að taka lán til þessa, teldi eg það fullkomlega réttmætt. Eg vil því sterklega mælast til þess, að brt. nefndarinnar um þetta verði feldar, einkum að því er kemur til Hvanneyrarskólans; eg er ekki svo kunnugur skólanum á Hólum, að eg geti um hann talað eftir eigin sjón. Eg hef að eins komið þar í svip. En á Hvanneyri hefi eg kynt mér húsakynnin í sumar og sannfærðist um, að hin brýnasta þörf er á nýju skólahúsi þar, ef lögunum á að verða fullnægt.

Viðvíkjandi tillögum fjárlaganefndarinnar um að hækka styrk til búnaðarfélaga, vil eg vekja athygli á því, að stjórnin hefir lagt til að færa þann styrk niður lítið eitt, beint eftir ósk fjárlaganefndarinnar á síðasta þingi. Flestöll búnaðarfélög landsins standa nú í sambandi við búnaðarfélag Íslands, og hin ýmsu búnaðarsambönd fjórðunganna, og njóta styrks þaðan. Með þetta fyrir augum aðallega var hækkaður styrkur til búnaðarfélags Íslands á þinginu 1907. Þessu horfir því í raun og veru svo við, að styrkurinn til búnaðarfélaganna hefir hækkað, og er því engin ástæða til þess, að hækka hann enn meira nú.

Þá hefir háttv. fjárlaganefnd lagt til að fella niður þóknun til forstöðumannsvið gróðrarstöðvarnar við Rauðavatn og á Þingvöllum Þetta er alveg sama sem að láta þessar stöðvar falla í órækt. Yfirmanni skógræktarinnar er ókleift að sinna þessu starfi. Hann er hér ekki að staðaldri, heldur ferðast hann um landið á sumrum. En þessar stöðvar þurfa daglegt eftirlit og þar sem annars vegar er um svo litla fjárupphæð að ræða, en hins vegar um það, að missa af jafnæfðum og duglegum manni, og nú hefir eftirlit með þessum stöðvum, vonast eg eftir, að háttv. þingd. láti fjárveitinguna haldast, því það er enginn sparnaður, að láta það eyðileggjast, sem þegar er búið að gera til framkvæmda.

Það er ekki rétt hjá háttv. 1. þgm. Rangv. (E. P.), að stjórnin hafi lagt til að færa styrkinn til smjörbúanna niður um 2000 kr. á ári. Stjórnin hefir lagt til að styrkurinn verði 14000 kr. fyrra árið en 12000 kr. síðara árið, það er því 2000 kr. lækkun bæði árin til samans, og er það beint í samræmi við ráðstöfun síðasta þings. Lækkun styrksins nemur þá frá árslokum 1907 til ársloka 1911 4000 kr. alls, eða 1000 kr. á ári.

Misráðið held eg sé að lækka styrk til verzlunarskólans, svo lengi sem iðnskólinn hefir 5000 kr. Hér er um að ræða stofnun, sem getið hefir sér traust og álit manna um alt land og vinnur mjög mikið gagn. Auk þess er það hin eina stofnun þess kyns hér á landi og því ekki hægt að leita til annara stofnana í þeirri grein.

Um einstakar breyt.till. þarf eg ekki langt að tala. Eg mun greiða atkv. með fjárveitingu til Ólafs Jónssonar til þess að læra að gera myndamót og styrkveitingu handa manni til þess að læra að grafa námubrunna og fara með jarðbora. Sömuleiðis er eg samþykkur fjárveitingu til ábúandans á Tvískerjum. Mér duldist það ekki í sumar, er eg kom þar, að nauðsynlegt er vegna vegfarenda, að býli þetta haldist við; þeir mundu verða illa staddir, ef býli þetta væri ekki til. — Þess vegna mun eg greiða atkv. með hærri upphæðinni. Enn fremur er eg samþykkur lítilsháttar styrkhækkun, sem farið hefir verið fram á handa frú Torfhildi Holm og Ragnhildi Björnsdóttur og þarf ekki að rökstyðja það, framar en þegar hefir gert verið.

Þá kem eg að þeirri till. fjárlaganefndar, að felt sé burt úr 19.gr. það, að ? sekta fyrir ólöglegar fiskiveiðar séu greiddar ríkissjóði Dana. Í þessu sambandi skal eg minna á það, að þetta ákvæði var sett inn eftir áskorun frá fjárlaganefnd fólksþingsins danska og samþykt á alþingi 1905, ekki sem borgun fyrir strandgæzluna, því að það er skylda Dana, heldur fyrir það, að gæzluskipið dregur brotlega botnvörpunga fyrir dómara, oft langar leiðir, og kemur því þannig til leiðar, að sektum verður beitt og upptækum afla og veiðarfærum komið í verð. En það er íslenzkt sérmál, beinlínis íslenzkt löggæzlustarf. Alþingi 1905 leit því svo á, að það gæti ekki synjað þessari kröfu fólksþingsins danska; þingið var þá of stolt til að beiðast ölmusu, er endurgjalds var krafist.

Það gleður mig, að háttv. framsm. hefir réttilega skilið það, að til þess var ætlast í sambandslaganefndinni, ef samningar tækjust, að Danir nytu veiðiréttarins í landhelgi gegn því að annast eftirlit með landhelginni. Mér þótti því vænna um að heyra þessa viðurkenning af hans munni, sem þetta atriði hefir einmitt oftsinnis verið misskilið í blöðum andstæðinga frumv. Sambandslaganefndinni hefir þrásinnis verið borið það á brýn, að hún vildi afsala Íslandi landhelgina. En það er þvert á móti, hún hefir einmitt slegið því föstu, að landhelgissvæðið við Ísland sé eign Íslands, og því að eins getur Ísland veitt með samningum afnotarétt af landhelginni, sem borgun fyrir ákveðið starf, sem landið ella þyrfti að kosta miklu fé til. Raunar er ekki hægt að skírskota í sambandslagafrumv., því það er ekki enn orðið í að lögum, því miður. En eg vona, að í háttv. þingd. athugi þetta atriði meðal annara gæða, sem af því frumv. leiða.

Háttv. 1. þm. Rangv. (E. P.) fer í fram á 12000 kr. lán til þess að koma upp embættisbústað handa sýslumanninum í Rangárvallasýslu. Þetta lán finst mér sjálfsagt að veita. Það hefir alt af verið talið sjálfsagt, að stjórnin mætti veita slík lán, jafnvel án heimildar þingsins. Það var fyrst á þingi 1905, að reikningslaganefndin kom fram með þá till., að eftirleiðis yrði embættismönnum ekki veitt slík lán án samþ. þingsins. Eg minnist þess, að eg tók það fram þá, að ómögulegt væri að skuldbinda stjórnina í þessu efni; það stendur oft svo á, að henni verður að vera heimilt að hlaupa undir bagga í samskonar tilfellum. Eg legg því fastlega með þessari lánveitingu og álít lán nauðsynleg í samskonar tilfellum, því að það er skylda þingsins að veita þau til þess að embættum sé gegnt á viðunandi hátt.