24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Sigfússon:

Ástæðan til þess að eg segi hér fáein orð er sú, að eg gat ekki verið samdóma fjárlaganefnd um einn lið í 16. gr., nefnilega um byggingu bændaskólahúsanna. Eg held það sé hvorki búmannlegt né forsvaranlegt að slá þessum byggingum á frest að öllu leyti. Hæstv. ráðh. hefir tekið það fram, að hvorugur skólanna gætu náð að fullu tilgangi sínum á meðan húsnæðið er eins ófullkomið og það er. Auðvitað var það ekkert annað en það, að fjárlaganefndin sá að nauðsynlegt var að spara, sem varð þessum fresti valdandi, en alls ekki það, að nokkrum nefndarmanni dytti í hug að óþarft væri að byggja skólahúsin.

Með bændaskólalögunum frá 10. nóv. 1905 voru bændaskólarnir skyldaðir til að taka á móti vissum fjölda nemenda, ekki færri en 40. Reynslan hefir sýnt það, að á hverju ári verður að vísa fjölda umsækjanda frá vegna rúmleysis, svo það er ómögulegt að fullnægja þessu ákvæði laganna, á meðan svo standa sakir. Auk þess er það ýmislegt annað í reglugerð skólanna, sem verður að brjóta, svo lengi sem ekki er aukið við húsin. Í 10. gr. reglugerðar frá 6. ág. 1908 stendur það, að verklegar æfingar í efnafræði, grasafræði o. fl. skuli fara fram og að sérstök lestrarstofa sé á skólunum og í 11. gr. sömu reglugerðar er skipað fyrir um, að kend verði dráttlist, leikfimi o. fl. Alt þetta er ómögulegt að framkvæma vegna þrengsla, eins og nú stendur. Hér er um það að ræða, að ef ekkert er gert til þess að auka húsrúm skólanna, þá segir þingið blátt áfram, að hér eigi að brjóta lögin og reglugerðina. Eg hygg þetta sé með öllu ósæmilegt.

Eg er hvorugum skólanum vel kunnugur, sízt á Hvanneyri, en eg veit þó af frásögn áreiðanlegra manna, sem til þekkja, að engir vegir eru til þess að kenslan geti farið fram í lagi. Á báðum skólunum verður að þjappa nemendunum saman eins og síld í tunnu, herbergin eru svo þröng og af þessu hlýtur að leiða mikla óhollustu. Eg vil að eins leyfa mér að benda á tilfelli, sem eg álít að geti verið hættulegt fyrir líf og heilsu manna. Ef sóttnæmur sjúkdómur kemur upp, og einhver veikist á skólanum, þá er ómögulegt að einangra hann og getur hann svo sýkt alla. Þetta er alveg óforsvaranlegt. Það er ekki langt síðan að slíkt kom fyrir á Hólaskóla. Þar veiktust þá margir piltar, auðvitað meðfram vegna þess að ekki var hægt að einangra.

Eg ætla að leyfa mér að gera hér ofurlítinn útúrdúr. Í kvennaskólanum á Blönduósi er til gott og hentugt sjúkraherbergi í skólanum. Eg hefi ástæðu til þess að geta um þetta hér, vegna þess að einn af háttv. þm., sem hefði þó átt að vera búinn að kynna sér það, fór að fræða mig um það í gær, að ekki væri hægt að einangra í skólanum. Í fyrra veiktist þar ein stúlka af taugaveiki, hún var einangruð og engin sýktist. Þetta dæmi sýnir svo ljóslega, hvaða þýðingu það hefir í skólum, sem hafa heimavistir að tök séu á að einangra sjúklinga. Það er því með öllu óforsvaranlegt ástand, eins og það er nú á bændaskólunum.

Eg get ekki séð, að fært sé eða rétt að fresta byggingunni, en mér hefir dottið í hug, að það mætti skifta kostnaðinum niður á 2 ár þannig, að fyrra árið væri bygt á Hólum og síðara árið á Hvanneyri eða öfugt, bygt þar fyrst sem þörfin er brýnust. Í sambandi við þetta vil eg geta þess, að það hafa fallið hér í deildinni ýmisleg orð um Hólaskóla, sem eru þannig vaxin, að þau eiga ekki að vera ómótmælt. 2 eða 3 háttv. þm. telja það sjálfsagt að skólinn eigi ekki að vera á Hólum. Þingið 1905 var þó á annari skoðun og þess vegna var því með áðurnefndum lögum slegið föstu, að annar bændaskólinn skyldi vera á Hólum. Það er annars fremur kynlegt að heyra háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) taka í þennan streng. Eg hugsaði að hann mundi sízt verða til þess, því þótt hann muni eftir Reykjavík, þá hefir hann þó oft verið að reyna að sýna það í umræðunni sínum á þessu þingi, að hann vilji leggja rækt við forna og fræga sögustaði og höfuðból. Hann ætti samkvæmt þessu, allra manna helzt að styðja það, að skólinn haldi áfram að vera á Hólum, því með því móti er þá haldið í heiðri minningu þess höfuðbóls. Háttv. þm. virðast annars alveg hafa gleymt því, að færa rök fyrir því, hversvegna ætti að flytja skólann. Hvert þeir vilja flytja hann veit eg ekki. Það hafa heyrst einstakar raddir um það, að réttast væri að flytja þessa skóla, eins og aðra, í kaupstaði. Ef til vill meina þessir menn það. Annars er ómögulegt að geta til hvað meint er, með því að ástæðurnar vantar alveg. Eg er samdóma þinginu 1905, að skólarnir eigi að vera þar sem þeir eru nú. Þar eru stórar góðar jarðir, miklar byggingar og alt þetta er eign landssjóðs. Um leið og landið tók Hólaskóla að sér, voru því afhentar allar eigur skólans, sem voru ekkert smáræði. Búið mun hafa jafngilt skuldunum, sem hvíldu á skólanum, og landinu er þannig beinlínis gefin jörðin Hólar með hjáleigum og byggingum öllum og ómögulegt er að meta það minna en 30—40 þús. kr. Það er því auðséð, að hér er eitthvað í aðra hönd og að ekki þarf alveg að yrkja upp á nýjan stofn, enda sé eg að í fjárlagafrv. stjórnarinnar vantar 3700 kr. til þess að veitt sé jafnmikið fé og skólinn þarf til reksturs. Eg býst við, að eignin gefi það af sér sem til vantar. Skólinn er því sannarlega ekki eins þungur baggi á landssjóðnum og margir halda.

Það var eitt af því, sem háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) sagði, sem eg var honum alveg samdóma um, nefnilega það að allar opinberar byggingar séu bygðar úr steini. Eg álít einmitt, að það sé mjög hyggilegt og að ekki sé rétt að horfa í, þó þær yrðu dálítið dýrari í fyrstu, en ef þær t. d. væru bygðar úr timbri; með þessu móti er hægt að gera byggingarnar góðar og varanlegar. Það er gert ráð fyrir steinsteypuhúsi á Hvanneyri en ekki á Hólum. Það getur því komið til mála að gera þá breytingu þar, að það væri líka bygt úr steinsteypu, það er ekki víst að það þyrfti að muna miklu á verði, en þannig hús mundi áreiðanlega verða mikið ódýrara fyrir seinni tímann, Mér er kunnugt um það, að margir eru farnir að byggja úr steinsteypu á Blönduósi, og síðan mönnum fór að lærast þetta munar litlu á verðinu borið saman við það að byggja úr timbri

Eg vildi geta um það, að eg hefði haft sérstöðu í fjárlaganefndinni, hvað þetta mál snerti. Auðvitað gerði eg það þar ekki að neinu kappsmáli. Og það einasta sem vakti fyrir meðnefndarmönnum mínum, og sem réði því að þeir voru á móti byggingunni að svo stöddu, var það að þeir vildu spara og draga svo mikið úr útgjöldunum, sem hægt væri, en eg áleit réttara að spara á ýmsum öðrum liðum.

Hvað Eiðaskólann snertir, þá vil eg geta þess, að þótt máske þessir hugstóru menn þar eystra hafi reist sér hurðarás um öxl, þá virði eg það framfaraþrek og áhuga, sem lýsir sér í þessu, og eg skal ekki lá þeim það, þótt þeim þætti það sárt, ef þessi eina mentastofnun hyrfi af Austfjörðum. Eg veit ekki, hvort það er heppilegt eða nauðsynlegt, að Eiðaskólinn sé lengur bóklegur skóli, og ef til vill er það heldur ekki meiningin fyrir héraðsmönnum. Þeir hafa sagt, að byggingin væri nauðsynleg til þess að geta haldið áfram verklegu námi, en með tilliti til þess að gera ekki alt bóklegt nám ómögulegt að vetrinum var eg með því að hækka styrkinn til Eiðaskólans um 1000 kr. á ári.

Það hefir verið minst á styrkinn til verzlunarskólans, sem fjárlaganefndin lagði til að ekki væri hækkaður frá því sem nú er. Það var sparnaðurinn hér, eins og annarsstaðar, sem vakti fyrir, og úr því Flensborgarskólinn fékk ekki það, sem hann þurfti, þá er ekki meiri ástæða til að veita verzlunarskólanum það fé, sem farið var fram á að bæta við hann. Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) sagði að mjög mikil eftirspurn væri eftir mönnum þeim, er útskrifuðust af skólanum. Mér datt þá í hug, hvort ekki mundi hægt að útvega skólanum tekjur með skólagjaldi (Jón Ólafsson: Það er gert, hver nemandi borgar 20 kr.) Jæja, það er gott. Ef menn eiga vísa stöðu fyrir aukna þekkingu, þá eru þeir líka færir um að borga dálítið til að fá hana. Eg vil um leið geta þess, að eg efast ekki um að skólinn sé góður og gagnlegur.

Viðvíkjandi þeim 500 kr., sem fjárlaganefndin stakk upp á, að sparaðar væru af kostnaðinum til skóggræðslumannanna, þá skal eg geta þess, að hún áleit að skógfræðingurinn sjálfur gæti haft eftirlit með næstu stöðvunum við Reykjavík og ekki þyrfti neinn sérstakan kostnað til þess. — Það getur annars verið spursmál, hvort það er þörf að halda við þessum stöðvum, það er sagt að alt sé svo mislukkað þar, og því væri máske ástæða til að flytja þær eða leggja niður. Auðvitað er fjárlaganefnd ekkert kappsmál með þetta fé, það er svo lítið.

Eg vil minnast með fáeinum orðum á lánveitinguna til Sláturhúss Suðurlands. 1. þm. Rangv. (E. P.) hefir gert ljósa grein fyrir því, að þetta sé nauðsynlegt, og sýnt fram á að það stafi af peningavandræðunum í landinu. Ef sláturhúsin gætu fengið lán í bönkunum, þá kæmu ekki bænir, en það er ekki svo torvelt að skilja það, að þau þurfa bráðabirgðalán, þegar þeirri reglu er fylgt að borga út meiri hlutann af verði fjárins við móttöku að haustinu. Ef ekki er hægt að greiða úr þessum vandræðum er ekkert sýnilegra, en að þau verði að hætta, en fáir munu þeir vera, sem telja það heppilegt. Eg verð að líta svo á, að þessi lán ættu að sitja fyrir flestum öðrum, og veitast gegn góðri trygging og ábyrgð sýslufélaga.

Það hefir orðið töluverð deila hér í deildinni um styrkinn til smjörbúanna og það er alveg rétt, sem hér hefir verið tekið fram, að hann var að eins veittur þeim til uppörvunar í byrjuninni og því er rétt að draga úr honum smátt og smátt, og stjórnin farið eftir því í frv. Þetta er líka að mínu áliti alveg rétt stefna, jafnvel þó eg gæti haft ástæðu til að halda í hann, með því eg er sjálfur einn af stofnendum og meðeigandi að mjólkurbúi í minni sveit. Eg verð að álíta að þeim ætti að koma önnur hjálp, en opinber styrkur, því sé fyrirtækið gróðavænlegt þarf það hans ekki og er óeðlilegt. — Nei, eg hygg einmitt að það væri önnur hjálp, sem væri mikið þýðingarmeiri nefnilega að koma betra lagi á samgöngurnar, svo hægt væri að koma smjörinu fljótt og óskemdu á markaðinn.

Það hefir orðið dálítil deila um landbúnaðinn og sjávarútveginn og ekki laust við að öfgar hafi fylgt með eins og oft vill verða. Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) gat t. d. ekki komið auga á nokkra fjárveiting til sjávarútvegsins í þessari (16.) gr. fjárlaganna, og þó stendur þar einmitt fjárveitingin til fiskiveiðasjóðsins. Svo skal eg benda honum á að ef hann flettir við einu blaði og lítur á fjárlögin framar, þá getur hann sér til huggunar séð þar margar fjárveitingar til sjávarútvegarins. — Þessi matningur er afaróviðfeldinn; þm. ættu að líta svo sanngjarnlega og rétt á alla atvinnuvegi, að enginn matningur gæti átt sér stað.

Eg fæ ekki skilið, hvernig menn sem þykjast unna þessu landi vilja draga úr því, sem styður landbúnaðarframfarir. Hvar yrði landið statt, ef landbúnaðurinn dregst meira saman, en nú er orðið; þá yrði það ekkert annað en nokkurskonar veiðistöð með sjóbúðum. Nei, það er einmitt það, sem er miklu meira vert, það sem skáldin góðu hafa oft kveðið um og hvatt til, að rækta landið, að klæða landið. Háttv. 1. þingm. G.-K. (B. Kr.) nefndi það sem dæmi upp á það, að fjárveitingarvaldið setti sjávarútveginn hjá, að það hefði verið færður niður styrkur til þess að veiða botnvörpunga í landhelgi. En þessi styrkur hefir ekki verið notaður og það vissi fjárlagan., og þess vegna ekki ástæða til þess, að halda honum eins háum eins og að undanförnu. Þó að háttv. l. þm. Rangv. (E. P.) hafi skýrt frá því, að það er ekki að ófyrirsynju gert, að lána til vegagerðar í Fljótshlíð, þá vil eg benda á, að það er eitt af þessum myndarlegu og gagnlegu fyrirtækjum, sem er afar-nauðsynlegt og skemtilegt að styðja, þegar sýnt er að hlutaðeigendur vilja sjálfir leggja mikið á sig til þess að koma þeim í framkvæmd.

Þá hefir verið minst á styrk til búnaðarfélaganna, og hefir mér þótt leiðinlegt að heyra, hversu kalt margir þingm. anda til hans. Eg get ómögulega séð hina minstu ástæðu til þess, að færa þann styrk niður, því honum er áreiðanlega og eingöngu varið til þess að rækta og klæða landið — og einkis annars. Það fé gefur á sínum tíma margfaldan ávöxt í landssjóðinn. Eg held að óþarft sé að vitna í þau not, sem búnaðarfélögin hafi af búnaðarfélagi Íslands; eg verð að segja það, að eg hefi ekki orðið var við, að það hafi styrkt búnaðarfélögin sérstaklega, að minsta kosti ekki þau, sem eg þekki til. Eg segi það aftur, að mér þykir leiðinlegt, að heyra þingm. anda svo kalt til landbúnaðarins, eg held, að það komi af því, að hér á á þingi eru svo margir nærsýnir kaupstaðarmenn.