24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Sigurður Gunnarsson:

Eg er svo heppinn, að eiga einungis eina breyt.till. við þennan kafla fjárlaganna, sem hér er til umræðu, og er hún við 22. gr. og fer fram á lánsheimild til handa Neshreppi utan Ennis. En áður en eg tala nánar um þessa breyt.till., þá vil eg víkja máli að ýmsum liðum, er framar standa í frumv. Þegar eg lít á 16. gr., þá verð eg að játa það, að eg hefi tilhneigingu til að styrkja flestar eða allar tillögur fjárlaganefndarinnar við þá grein. Eg hefi heyrt hér í dag, að menn hafa verið að metast á um landbúnaðinn og sjávarútveginn, eg vildi, að sem minst væri deilt um það, hvor af þeim atvinnugreinum ætti meiri stuðning skilið; báðar hafa þær fult tilkall til stuðnings af fjárveitingarvaldi þjóðarinnar, og eg ætlast til þess, að þingið sjái um jöfnuð milli þeirra eftir ástæðum. — Öðrum þingm. Rvk. (M. B.) miklaðist það í augum, hversu stór upphæð færi til landbúnaðarins. Eg held það sé eðlilegt, þótt sá atvinnuvegur þurfi mikils með, og eg sé ekki betur, en að það sé rétt, sem háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) sagði, að það sé þó, þegar á alt er litið, brýnust ástæða til þess, að klæða og rækta þetta land. Landbúnaðurinn verður þó vissasti atvinnuvegurinn, og þegar maður talar um það, hvort þjóð vor eigi í framtíðinni að geta heitið því nafni, þá er það komið undir því, að landið sjálft verði klætt og ræktað, eftir beztu föngum. Það er tiltölulega stutt síðan, að landið var alt óræktað, nema túnskikarnir. Hinir viðáttumiklu flákar graslendis- og mólendis liggja meira að segja enn að mestu ósnertir af mannshöndinni. Það er seinlegt verk og dýrt, að koma óræktuðu landi í rækt, og ofur skiljanlegt er það, að landbúnaðurinn þurfi mikillar uppörfunar og stuðnings við frá löggjafarvaldsins hálfu. Með þessum orðum, vil eg þó á engan hátt draga úr því, að sjávarútvegurinn sé styrktur eftir mætti, enda hefir verið drepið á ýmislegt, sem gert hefir verið til þess, að styðja sjávarútveginn, og vil eg í viðbót benda á eitt atriði; það eru vitarnir, því þótt þeir séu með fram fyrir landið í heild sinni, þá eru þeir þó fyrst og fremst sjómönnunum að mestu liði. Sama má segja um fiskimatslögin, sem samþykt verða á þessu þingi, að þau eru til þess, að styðja sjávarútveginn. Í sambandi við þetta vil eg leyfa mér að benda á, að einatt hefir það viljað verða svo, og eigi sízt á seinni árum, að fólkið hefir streymt frá sveitunum til sjávarþorpanna og kaupstaðanna. Hver er ástæðan? Eðlilega hlýtur ástæðan að vera sú, að fólkið álítur það lífvænlegra og gróðavænlegra að vera þar, heldur en í sveitunum. En þegar í kaupstaðina og sjávarþorpin er komið, verður oft annað upp á teningnum. Þessi straumur að sjónum er nú að minni ætlan ekki hollur fyrir þjóðfélagið í heild sinni. Hér kemur og mannfæðin til greina. Vér höfum eigi nægilega margt fólk til þess að stunda báða þessa atvinnuvegi til hlítar. En meðan svo er, þá virðist mér landbúnaðurinn hljóta að sitja í fyrirrúmi, að því er fjárframlög snertir.

í sambandi við þetta, þá vildi eg leyfa mér, að minnast á bændaskólann á Hólum, og verð að vera á sömu skoðun og þeir háttv. þm., sem vilja leggja fram fé til hinna nauðsynlegu byggingu á skólasetrinu. Það verður að gæta að því, að það eru bændaefni landsins, sem hér eiga hlut að máli, þeir hinir sömu menn, sem eiga að taka að sér að rækta og klæða landið.

Þá vil eg leyfa mér, að minnast lítið eitt á Eiðaskólann. Hann var ekki svo heppinn, að lenda í tölu bændaskólanna, og eg fyrir mitt leyti get ekki tekið eins hart á Austfirðingum fyrir fjárbeiðnir sínar til hans, eins og sumir háttv. þingm. né fyrir það, að þeir hafa ráðist í að byggja dýra og stóra byggingu, því að þetta er eini skólinn, sem er þar á öllu því mikla svæði, og eg fyrir mitt leyti vildi óska þess, að beiðni þeirra yrði tekin til greina.

Um smjörbúin get eg fallist á það, sem háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) sagði, að það sé ekki rétt, að styrkja sömu smjörbúin mjög lengi, en að þau væru styrkt um vissan áratíma, svo þeim gæfist kostur þess, að koma sér vel á laggirnar. En ekki tel eg enn vera kominn tíma til þess, að lækka þennan styrk, þar sem flest eða öll þeirra eru ung og sum að myndast, og óskum vér þess eflaust, að fleiri og fleiri rísi upp.

Eg felst og á það, að styrkur verði veittur Ungmennafélagsskapnum; tel hann hollan og til frambúðar fyrir landið; er því eflaust rétt, að sá félagsskapur sé styrktur af löggjafarþingi þjóðarinnar fremur þó í uppörfunar og viðurkenningarskyni svona í byrjun.

Sömuleiðis tel eg ekki illa ráðið. að styrkja mann til þess, að læra að gera myndamót, og mann til að læra að fara með jarðbora, og grafa námubrunna.

Þá kem eg að breyt.till. háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), er fer þess á flot, að bóndinn á Tvískerjum á Breiðamerkursandi fái dálítinn styrk til þess, að geta haldist þar við. Um þetta er eg samdóma honum og hæstv. ráðherra. Eg er kunnugur á þessu svæði, og þar sem það er upplýst, að það, að bygð á þessu koti þarna í eyðimörkinni hafi orðið til þess, að bjarga skipbrotsmönnum og fleirum frá hörmungum og dauða, þá er það rétt og mannúðlegt af alþingi, að styrkja þennan mann, svo að hann geti haldist við á kotinu, og það því fremur, sem Skaftfellingar yfirleitt eru kunnir að frábærri gestrisni.

Í 18. gr. er farið fram á styrk til nokkurra heiðursmanna, karla og kvenna, og nemur sú upphæð alls eitthvað 700 kr. Eg játa það, að eg er einn af þeim mönnum, sem helzt hefði kosið, að afnema mætti sem fyrst öll lögskipuð eftirlaun, og að eg mun greiða atkvæði með því, þegar því verður við komið og það mál er nægilega undirbúið. Miklu fremur teldi eg það eiga við, að þingið veitti mönnum viðurkenningu, þegar því fyndist sérstök ástæða til.

Eg skal nefna einn af þeim mönnum, sem í því efni ætti að koma til greina; það er séra Hjörleifur próf. Einarsson, sem hefir verið mjög þarfur maður í sinni sérstöku stöðu, en þar að auki einn með mestu jarðræktarmönnum þessa lands, og enn þá er þess að gæta, að það hefir einhvern veginn viljað svo til, að undan handarjaðri þessa manns hafa komið ýmsir nýtustu menn landsins, er hann hefir haft áhrif á í æsku þeirra, sem kennari þeirra og styrktarmaður. Þessi maður hefir því unnið mikið og trútt dagsverk, en er nú kominn á grafarbakkann.

Sömuleiðis tel eg fyllilega maklegt, að styrkurinn til frú Elínborgar verði færður lítið eitt upp. Bæði er það að hún er mesta heiðurskona, og svo er hún móðir Jóns heit. Vídalíns konsúls, sem gefið hefir landinu hina rausnarlegustu gjöf, miklar og dýrar fornmenjar.

Um frú Torfhildi Hólm og frú Ragnheiði Björnsdóttir þarf eg ekki að tala, það hafa aðrir gert.

Þá kem eg að 22. gr., þar sem safnað er í eitt öllum lánbeiðnum. Er það svo löng halarófa, að manni blöskrar. Lánbeiðnirnar nema alt að 400 þús. kr. og sér hver maður, að landssjóði eða viðlagasjóði verður alls ómögulegt að veita þeim öllum fullnægju. Allar hafa þær þó við einhver rök að styðjast og því leiðinlegt að geta ekki mælt með þeim flestum, eða jafnvel öllum. Eitt sýna þessar lánbeiðnir þó greinilega, sem sé, hversu þörfin er mikil á fé og hversu áhuginn er mikill á því að koma einhverju verulegu til leiðar. Ennfremur sjáum vér þar ljóslega, hversu bankarnir eru ófullnægjandi fyrir þessa þjóð. Þeir þyrftu að vera svo úr garði gerðir, að fé og krafti, að þeir gætu fullnægt öllum lánskröfum, sem bygðar væru á viti og þar sem hæfileg trygging væri fyrir hendi.

Þá kem eg að einni breyt.till. við þennan kafla, sem eg á, sem sé viðaukatill. 309, um heimild til lánveitingar, úr viðlagasjóði til bátakvíar við Krossavík á Hjallasandi. Eg veit eigi hvort þgm. hafa kynt sér skjöl þau, sem hér að lúta, og þótt fjárlaganefndin hafi haft þetta mál með höndum, veit eg ekki, hvort hún hefir rætt það að nokkrum mun. Finn eg því ástæðu til að fara um það nokkrum orðum, til glöggvunar háttv. deild. Eins og kunnugt mun flestum er Hjallasandur á norðanverðu Öndverðarnesi. Hefir þar frá ómunatíð verið fiskiver, hin fiskisælasta verstöð. Er það mál gamalla manna kunnugra, að þar bregðist aldrei fiskur, svo að einhver vertíð árs lánist ekki. En galli er á; brimlending er á þessum stað og hefir þar margur maðurinn drukknað nærri landi, og tíðast í sjálfri lendingu, og er eigi langt síðan, að drukknuðu 9 menn í lendingu. Sú harmafrétt er mér ný borin til eyrna. Þegar um svona auðga fiskistöð við mynni Breiðafjarðar er að tala, en hins vegar þessi mikli erfiðleiki, hafnleysið og lendingarhættan gerir sjósóknina svo áhættusama og dregur stórum úr henni, er eigi nema sanngjarnt, að þingið hlaupi undir bagga til þess að reyna að bæta úr þessum annmarka. Eg hefði helzt kosið, að landssjóður hefði veitt beint styrk til hér fyrirhugaðrar bátakvíar, og þess hafa þorpsbúar óskað. En eg hefi komist að raun um, að við það hefir eigi verið komandi sakir hins bága fjárhags. Þess vegna hefi eg tekið það ráð, að beiðast þessarar lánsheimildar, heldur en ekki, í þetta sinn.

Nú stendur svo á, að rétt fyrir utan þorpið Sand er vík, sem nefnd er Krossavík, lón með skerjagarði fyrir framan, en renna gengur inn í lónið að norð-austan. Í ókyrrum sjó gengur súgur mikill inn yfir skerjagarðinn og er því af nauðsynlegt að byggja brimbrjót ofan á garðinn og mundi þá víkin vera sem spegill fyrir innan, og hið ágætasta bátalægi. Þetta er afarmikið nauðsynjaverk ekki sízt, ef notaðir eru mótorbátar, sem nú fer mjög í vöxt, og þykir óhjákvæmilegt, er sækja verður til hafs, því fiskur legst dýpra nú en fyr.

Í þorpinu Sandi og þar í grend eru hér um bil 400 manns, en enginn efi er á, að kæmi bátakví í Krossavík, mundi bygðin aukast að mun. Enn mælir það með lánveitingu þessari, að jarðir þær, sem liggja að Krossavíkinni eru landssjóðseign. Meir að segja, það eru allar líkur til, að það mundi beint borga sig fyrir landssjóð að taka að sér fyrirtæki þetta að öllu leyti.

Frá Sandi hafa gengið síðastliðið ár 46 bátar, en í raun réttri eru þeir miklu fleiri á vetrar- og vorvertíðum, því þangað sækja menn víðsvegar að úr Snæfellsnessýslu, víða úr Dalasýslu, og jafnvel Vestmannaeyingar hafa leitað þangað síðastliðið sumar.

Hin rétta aðferð til stuðnings fiskiveiðum vorum virðist meðal annars, og ekki sízt vera sú, að bæta hafnir og lendingar. Eg vil jafnframt benda hinum háttv. deildarm. á, að málið er ekki óundirbúið. Stjórnin hefir látið Krabbe verkfræðing rannsaka staðinn árið 1906 og hefir hann gefið skýrslu um rannsókn sína og uppdrátt af staðnum, með kostnaðaráætlun, og liggja þessi skjöl öll nú fyrir þinginu. Lætur Krabbe það álit í ljósi, að verkið sé mjög vel framkvæmanlegt og miði bygðunum þar vestra mjög til eflingar. Eg ætla að taka það fram, að eftir áætlun verkfræðingsins kostar mannvirki þetta hér um bil 16,000 kr.; en hann hefir síðar í skjali sínu og nýlega í samtali við mig, ráðið til þess að framkvæma verkið í tvennu lagi; gera fyrst aðalbrimbrjótinn að norðan, er kosta mundi 8500 kr.; væri þá hægra að dæma um, hvernig haga skyldi síðari hluta verksins. Er lánbeiðnin því miðuð við þessa upphæð. Sem trygging kæmi ábyrgð sveitarfélagsins og sýslunefndar; enn fremur skyldi tollur sá, sem Krabbe verkfræðingur leggur til, að lagður sé á hvern þann bát, er notar kvína, standa sem trygging skilvísrar greiðslu.

Vonast eg eftir að eg hafi nú skýrt þetta mál fyrir hinni háttv. deild og að mönnum skiljist, að þetta mannvirki er vert stuðnings. Engum fær dulist hve afarnauðsynlegt það er, að styðja þessa menn þar norður á Snæfellsnesi til þessara framkvæmda, svo mjög sem atvinna þeirra veltur á þeim, enda hafa þeir eigi eytt fé úr landssjóði til þessa.

Eg vil að endingu láta þess getið, að eg mun breyta till. minni að formi og efni, áður en til 3. umr. kemur.