24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jóhannes Jóhannesson:

Það var eitt atriði í ræðum háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) og háttv. form. og framsm. fjárlaganefndarinnar (Sk. Th.) um fjárveitingarnar til Eiðaskólans, sem eg vildi leyfa mér að gera stuttlega að umtalsefni og það var aðdróttun þeirra til Múlsýslunga um, að þeir hefðu sýnt þinginu lítilsvirðingu og ólöghlýðni, með því að ráðast í byggingu vandaðs skólahúss á Eiðum, þrátt fyrir það þótt þingið 1905 hefði ákveðið að einungis skyldu vera 2 bændaskólar hér á landi, annar á Hvanneyri og hinn á Hólum.

Eg skal leyfa mér að færa rök að því, að Múlsýslungar gátu eigi farið öðruvísi að en þeir gerðu og þeir voru neyddir til þess af ástæðum, sem þeir gátu eigi ráðið við.

Þingið 1905 hafði að vísu samþykt bændaskólalögin og dregið mjög verulega af styrknum til búnaðarskólanna á Eiðum og Ólafsdal; það hafði ákveðið í bændaskólalögunum að skólarnir á Hvanneyri og Hólum skyldu geta tekið á móti alt að 40 nemendum hvor, en það hafði engar ráðstafanir gert til þess, að mögulegt væri húsrúmsins vegna að fullnægja þessu lagafyrirmæli og hefir eigi getað gert enn þá. Þvert á móti leggur háttv. fjárlaganefnd þessarar deildar það til, að neitað sé um fé það til bygginga á bændaskólunum, sem stjórnin hefir farið fram á að veitt yrði á fjárlögunum fyrir næsta fjárhagstímabil.

Á Hvanneyri er húsrúm fyrir 20 nemendur í hæsta lagi og á Hólum eigi sæmilegt húsrúm fyrir fleiri en 30 nemendur. Afleiðingin af þessu hefir orðið sú, að báðum þessum skólum hefir orðið að vísa frá fjölda nemenda vegna húsrúmsleysis og hefir það að sjálfsögðu aðallega komið niður á þeim, sem lengst áttu að, en það eru Austfirðingar.

Ef Eiðaskólinn því hefði verið lagður niður sem teoretiskur búnaðarskóli árið 1906, var það bert, að ungir menn af Austurlandi, er afla vildu sér búnaðarþekkingar, hefðu hvergi getað orðið slíkrar fræðslu aðnjótandi, en af því hefði aftur leitt, að áhugi sá á búnaðarframförum, sem þá var vaknaður eystra, hefði skrælnað upp. Menn með búnaðarþekkingu hefði vantað til þess að glæða hann, halda honum við og vera forgöngumenn búnaðarframkvæmdanna, því það er sannreynt, að að afloknu námi á búnaðarskólunum hverfa nemendurnir heim til átthaga sinna og vilja miklu fremur starfa þar, en leita sér atvinnu í fjarlægum landsfjórðungum.

Hinsvegar var gamla húsið á Eiðum þá orðið svo hrörlegt, að það varð eigi talið byggilegt; hafði enda alla tíð verið ónógt og lítt víðunandi og dró það mjög úr aðsókn að skólanum, meðan búnaðarskólarnir voru 4 og betri húsakynni á hinum skólunum. Húsinu var svo farið, að kennarar fengust eigi til að kenna í því og nemendur vildu heldur fara allrar fræðslu á mis en búa við þau húsakynni, er þar voru.

Ef Austfirðingar því eigi áttu að fara á mis við alla fræðslu í búfræði, varð að byggja nýtt skólahús á Eiðum og halda skólanum áfram. Þetta var eigendum skólans, Múlsýslungum, ljóst, og þeir töldu landbúnaðinn svo þýðingarmikinn fyrir framtíð þessa lands og búfræðina svo nytsama fyrir hann, að þeir eftir ítarlega yfirvegun og eftir að málið hafði verið til umr. í öllum hreppum sýslnanna réðust í að byggja og halda skólanum áfram þrátt fyrir það, þótt landssjóðsstyrkurinn til hans minkaði að stórum mun og það væri undir hælinn lagt, hvernig þingið tæki í að styrkja skólann framvegis. En úr því í það var ráðist að byggja nýtt skólahús á Eiðum, sem liggur í miðju Fljótsdalshéraði, varð að sjálfsögðu að byggja húsið eftir kröfum nútímans til slíkra húsa og hafa það úr steinsteypu, varanlegt; því það lá í augum uppi að þótt bændaskóli eða búnaðarskóli yrði eigi nauðsynlegur á þessum stað í framtíðinni vegna þess, að húsakynni á bændaskólunum yrðu bætt svo, að Austfirðingar ættu kost á að nema búfræði þar, þá mundi húsið verða nauðsynlegt til annars skólahalds og eg held mér sé óhætt að fullyrða, að Austfirðingar sætti sig aldrei við, að hafa eigi aðra skóla hjá sér en barnaskólana í sjóþorpunum.

Eg vona að mér hafi nú tekist að sýna og sanna, að eigendur Eiðaskólans hafa eigi getað farið öðruvísi að en þeir gerðu og að sökin á því, að nú er til í alla staði vel vandað og tímabært hús á Eiðum, en eigi á bændaskólunum hinum lögákveðnu, er eigi að kenna Múlsýslungum eða leiðandi mönnum þar, heldur alþingi Íslendinga og leiðandi mönnum þar, sem hefir fækkað bændaskólunum niður í tvo, en skorið svo fé til þeirra við nögl sér, að þeir eru alsendis ófullnægjandi vegna húsrúmsleysis.

Á Eiðaskóla eru nú í vetur 18 nemendur, sem hvergi hefðu getað notið fræðslu í búfræði, ef hann hefði eigi verið til, því báðir hinir búnaðarskólarnir hafa orðið að vísa nemendum frá. Við skólann eru ágætir kenslukraftar, líklega eigi lakari en við hina skólana, og þar er kent hið sama og þar er og námsskeið. Þegar nú þess er gætt, að landssjóður kostar þá að öllu leyti og að á Hvanneyrarskólanum eru og geta eigi verið nema rúmir 20 piltar, vænti eg að það þyki ekki ósanngjarnt, þótt farið sé fram á að skóli þessi sé, bæði að því er bygginguna og reksturinn snertir, styrktur að nokkru leyti úr landssjóði, sérstaklega þegar þess er gætt, að hann stendur piltum opinn, hvaðan af landinu sem eru og er því eigi sérstaklega fyrir þær 2 sýslur, sem leggja á sig ærin gjöld til að halda honum uppi. Það er því svo langt frá, að styrkur til hans geti skoðast sem ölmusa til Múlsýslunga, að það má jafnvel kasta þeirri spurningu fram, hvort það sé sæmilegt fyrir þingið að neyða þessar tvær sýslur til að svara ærnu fé til fræðslu í búnaði, sem á öllu landinu hvílir að lögum.