24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Ákvæði millilandanefndarfrumvarpsins eru óljós, að því er til fiskiveiðaréttarins kemur, eins og kom fram við umræður á undan kosningunum, því að þótt ákvæði bendi til þess, að fiskiveiðaréttur Dana falli burt, þegar þeir hætti strandvörnunum, þá mundi þó heitið:

»det samlede danske Rige« og »Söterritoriet«, ásamt jafnréttisákvæðinu síðar geta valdið ágreiningi og vafningum. Gæti vel farið svo, að Danir þættust geta gert tilkall til landhelginnar eftir sem áður, enda yrði það þá þeirra maður, oddamaðurinn danski, er skera yrði úr ágreiningnum.

Þá vil eg víkja örfáum orðum að háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) Það var svo á hinum háttv. þm. að heyra, sem honum hefði gramist ummæli í ræðu, sem eg hélt, líklega þegar eg svaraði ummælum hans í vantraustsyfirlýsingarmálinu. Hinn háttv. þm. ætti nú ekki að vera mér gramur fyrir þetta, heldur ætti hann að verða leiður við sjálfan sig. Hann ætti að segja við sjálfan sig: »Þennan skolla skal eg aldrei gera framar, að vera að halda órökstudda skjallræðu um annan.« Eg vona, að hinn háttv. þm. gefi sjálfur ekki um að vera skjallaður; hann ætti þá heldur ekki að skjalla aðra — það er aldrei nema lýti að brúka skjall og fagurgala.

Hinn háttv. þm. játaði, að eg hefði talað af meiri sanngirni í sinn garð í gær. Eg skal þá játa það, að sú ræða sem hann hélt í gær, var alt annars eðlis en nýnefnd ræða hans, því að ræða hans í gær snerist um málefni, en ekki mann.

Að því er snertir tillögur hins háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) skal eg geta þess, að fjárlaganefndin hefir ekki séð sér fært að fallast á þær, og læt eg nægja að vísa til fyrri ræðu minnar, að því er lánbeiðni Björgvins sýslum. Vigfússonar snertir.

Fjárlaganefndin getur og ómögulega lagt með lánbeiðni kaupfélagsins »Ingólfs«, enda var ræða hins háttv. þm. ekki hvetjandi í því efni, heldur miklu fremur letjandi. Yfirlit það, er hann gaf yfir hag félagsins, var þannig lagað, að stóráhætta væri fyrir landssjóð, að lána félagi, sem hefir svo mjög bundið höfuðstól sinn, sem nefnt félag hefir gert, og sem er eins skuldum vafið, eins og þetta félag, — mig minnir háttv. þm. telja skuldirnar nál. 240 þús. Eg veit heldur ekki, hvort bændum væri neinn greiði gerður með slíku láni, því að það fyrirtæki, sem er jafndjúpt sokkið, getur ekki verið arðsamt hluthöfunum.

Þá mætti líka spyrja, hvar það lenti, ef þetta lán yrði veitt? Að öllum líkindum kæmu þá öll eða flest önnur kaupfélög landsins og vildu fá lán; en slíkt yrði landssjóði með öllu ókleift.

Hinn háttv. 2. þm. Rangv. (E. J.) má ekki skilja orð mín svo, að þetta sé sprottið af neinum kala til hans, Rangæinga eða fyrirtækisins, heldur verður að líta á málefnið eins og það liggur fyrir.

Þá vil eg leyfa mér að minnast á ræðu háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. J.) og ræðu háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) um búnaðarskólann á Eiðum; en get þó að vísu í því efni látið mér nægja, að skírskota til þess, sem eg sagði í fyrri ræðu minni um það mál. Það er auðsætt, að sýslunefndir í þessum sýslum hafa komið málinu í þann vanda, að það verður að hjálpa þeim. Spurningin er að eins um það, hvort eigi verði komist hjá því, að veita þeim fé á þessu þingi til skólahússbyggingarinnar; eg álít þess ekki þörf, og ekki rétt, að minsta kosti ekki á undan bændaskólanum.

Háttv. 2. þm. N.-Múl, (Jóh. J.) hafði hundrað afsakanir á reiðum höndum, að því er gerðir sýslunefndanna í Múlasýslum í þessu máli snertir, og áleit þær allar réttmætar. — En það er óbrigðult, er um þá ræðir, sem eigi breyta réttilega, að þeir hafa alt af fjölda afsakana fyrir sig að bera, og þykjast hafa á réttu að standa. Háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. J.) láðist þó alveg að geta þess, hvaða námsmenn úr Múlasýslum hefðu orðið að setjast aftur vegna rúmleysis á bændaskólunum. Eg verð því að efast um, að nokkur af þessum afsakanafjölda, sem eg heyrði áðan sé rétt, meðan þm. rökstyður eigi ummæli sín frekar, og það ætti hann að þekkja, að hin siðferðislega hlið málsins er það sem hún er, hvað sem öllum afsökunum líður.

Þótt í bændaskólalögunum standi ákvæði um það, að skólarnir eigi að rúma vissa nemendatölu, þá álít eg, að þau ákvæði verði að skiljast eins og t. d. ákvæði laganna um vegalagningar. Þar standa ákvæði um það, að flutningabrautir og þjóðvegir skuli vera þar og þar; en þó er alls ekki talið skylt, að leggja t. d. allar flutningabrautirnar í einu. Og sama skilning verður að leggja í fyr greind ákvæði bændaskólalaganna, að tilætlun sé að eins sú, að skólunum verði, svo fljótt sem tök eru á, eða ástæður leyfa, komið í það horf, sem lögin kveða á um eða gera ráð fyrir, að verði.

Stjórnin hefir líka sótt um fé til skólahúsabygginganna á Hólum og á Hvanneyri á fjárlögunum, en ekki á fjáraukalögunum fyrir 1909. Þetta sýnir, að byggingarnar eru ekki mjög bráðnauðsynlegar. Ef féð hefði verið veitt á fjáraukalögunum, mundi það hafa flýtt fyrir. En stjórnin hefir nú eigi talið þörfina svo brýna, og telur því skólahússrúmið geta nægt næstk. vetur, og sé féð því veitt á næstu fjáraukalögum, greinir að eins á um einn vetur. Það sem háttv. þm. verða að gera sér ljóst er því það, hvort ástæða sé til, að veita fé þetta á fjárlögunum nú, þegar það að eins skiftir einum vetri. Eg vil samt geta þess, að það varð ágreiningur um þetta atriði í fjárlaganefndinni og get eg því búist við, að málið fari á annan veg, en meiri hluti fjárlaganefndarinnar leggur til, og tek mér það ekki nærri. Sama er að segja um Eiðaskólann, þar sem hinir ráðandi menn þar eystra hafa farið svo að ráði sínu, sem kunnugt er.

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) fer fram á að veittur verði 5 ára gjaldfrestur á láni til tóvinnuvélanna á Reykjafossi. Meiri hluti fjárlaganefndarinnar sér sér ekki fært að leggja með þessari tillögu. Það hefir enn ekkert verið greitt af láninu, og einmitt þegar lántakendur eiga að fara að sýna skil, þá sækja þeir um framlengingu á afborgun af láninu. Eg held það sé ekki góð regla að veita hana, þegar svona stendur á.

Eg skal ekki blanda mér í deilu við háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) og háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) um það, hvort meira skal meta landbúnaðinn eða sjávarútveginn. Þó vil eg leyfa mér að benda á það, að ekki er það rétt, að kveða upp þann dóm, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) kvað upp, að landbúnaðurinn sé nokkurs konar ölmusumaður sjávarútvegsins. Málið er órannsakað, og þess vegna ekki rétt að kveða upp þennan dóm, og málið er líka þess eðlis, að slík rannsókn er alls eigi auðveld, né áhlaupaverk, ef ábyggilegt skal vera. Til þess að það væri hægt, þyrfti að vita hvað miklu af tollskyldum vörum er eytt af hvorum um sig, þeim er landbændur eru, og hinum, sem af sjávarútvegi lifa; en það er eigi auðgert, því að landbúnaður og sjávarútvegur er víða samtvinnaður, fjöldi útgerðarmanna stundar jafnframt landbúskap, að meiru eða minna leyti, og margir landbændur hafa og bátaútveg eða senda menn til sjávar um lengri eða skemmri tíma; og því má ekki gleyma í þessu sambandi, að þegar harðæri er við sjóinn, þá ganga fátækraflutningarnir þaðan til landsveitanna. Hitt mun og fáum dyljast, að landbúskapurinn hefir einatt reynst vera tryggari, en sjórinn stopulli, þótt arðurinn sé þar fljótteknari annað veifið. Að öðru leyti virðist mér matningur óþarfur, en skylt að hafa í huga, að rétt er, að hvor þessara aðalatvinnuvega landsins styrki annan, sem bezt má verða.

Eg vil að lokum leyfa mér að mæla með hækkun ellistyrksins til ekkjunnar Elínborgar Friðriksdóttur. Hún getur ekki lifað af þeim tekjum, sem hún hefir nú, og mér finst þessi hækkun ellistyrksins mjög sanngjörn, þegar minst er hinnar rausnarlegu gjafar sonar hennar, sem hann gaf landinu.