24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Eggert Pálsson:

Eg skal vera mjög stuttorður, því umr. eru nú orðnar langar. Það var að eins stutt aths., sem eg vildi gera viðvíkjandi því, sem 1. þm. Rvk. (J. Þ.) og 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sögðu um styrkinn til rjómabúanna og lánið til Sláturfél. Suðurl., og jafnframt að minnast mjög stuttlega á þennan margrædda samanburð milli landbúnaðarins og sjávarútvegsins.

Háttv. framsm. fjárlagan. svaraði h. 2. þm. S.-Múl., og eg er honum samdóma um það, að bezt sé að hafa engan matning á milli þessara tveggja aðal-atvinnuvega okkar. Það er á svo margt að líta í því máli, að enginn tími eða kostur er á því að tína alt það til sem með þarf, til þess að nokkurt vit væri í þeim samanburði, og þótt tíminn væri nægur, þá eru gögnin nægileg alls ekki fyrir hendi — engar áreiðanlegar skýrslur á að byggja — og Það ynnist því lítið við að henda hitt og þetta til samanburðar, enda ekki rétt að meta á milli þessara atvinnuvega, sem óhjákvæmilega verða að styðjast hvor við annan.

Það er farið fram á að hækka till. til smjörbúanna, frá því sem farið er fram á í frumv. stjórnarinnar. Eg hygg að hver þm. hljóti að sjá, að tilgangur okkar flutningsm. till. er, að láta styrkinn lækka, en að eins að hann lækki þar sem hann er ætlaður lægri síðara árið, en hið fyrra hægari fetum, en farið er fram á í frumv.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) kvaðst koma með breyt.till. við þennan lið fjárlagafrumv. við 3. umr., og eftir því sem mér skildist, þess efnis, að reyna smátt og smátt, en þó enn fyr, en nokkrum hefir dottið í hug, að murka lífið úr rjómabúunum. En eg vil vænta þess, að þótt landbúnaðurinn kunni að eiga fáa formælendur í þessari háttv. deild, þá muni þeir þó ekki verða margir, sem vilji styðja hann að því verki.

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) fann sláturfélagi Suðurlands ýmislegt til foráttu. Eg hygg, að háttv. þm. vanti nægilegan kunnugleik í þessu máli, til þess að geta rétt og sanngjarnlega um það talað, og fari því líkt og þá blindur dæmir um lit, er hann dæmir um það. Sláturfélagið starfar á alveg nýjum grundvelli, og því er ekki að vænta, að það sé komið enn þá að öllu leyti í gott horf. Eg viðurkenni það, að sumt fer þar ekki eins vel og það ætti að fara, en það er ekki hægt að kenna félaginu um það, vegna þess að ekki hefir verið hægt að laga það enn, vegna ýmsra annmarka, sem félagið eins og hvert anna nýtt félag á við að stríða, og þar á meðal efnaskort. T. d. vil eg geta þess, að félagið hefir ekki getað bygt ís- og frystihús, og því engin furða, þótt matvæli kunni að hafa máske einhvern tíma skemst frekar en þurft hefði að vera, ef slíkur útbúnaður væri til.

Hvað það snertir, að Reykjavík hafi ekki æfinlega getað fengið kjöt, þá er það mjög eðlilegt, og stafar af því, að tímabilið, sem fé er slátrað á hér á landi, er mjög stutt, nál. 2 mán. Í sláturtíðinni hefir ekki alt kjöt sláturtélagsins selzt jafnharðan, því Reykvíkingar hafa aldrei komist upp á það lag, að byrgja sig upp með kjöt, þegar það hefir nóg til verið, og því hefir orðið að salta það til útflutnings. Að Reykjavík geti ekki æfinlega fengið nýtt kjöt, stafar eingöngu af því, að eftirspurnin er jöfn alt árið, en sláturtíminn stendur aðallega yfir í 2 mán. Og þessu verður því ekki breytt með öðru móti en því, að Reykvíkingar læri að taka gæs þegar hún gefst, eða verja kjötið í ís, svo þeir geti daglega fengið ís-varið kjöt til neyzlu. Því hinu geri eg ekki ráð fyrir, að búskaparlagið — með þeim samgöngum sem nú eru — breytist í bráðina svo, að sauðfé verði hér slátrað nokkurn veginn jafnt um allan ársins tíma.

Sami h. þm. hefir látið það klingja að Sláturfélagið væri einokunarfélag. Þetta er ekki tilgangurinn og verður ekki svo í reyndinni. Tilgangur félagsins er einungis sá að koma vörunum — sérstaklega kjötinu — í betra álit, ekki einungis í Reykjavík, heldur aðallega á heimsmarkaðinum, en ef það tekst og verðið þarafleiðandi hækkar þar þá er ekki nema eðlilegt að það hækki líka í Reykjavík. Og yfir því hafa Reykvíkingar enga ástæðu til að kvarta.

Til þess að koma í veg fyrir þessa ímynduðu einokun félagsins, ætlast hinn háttv. þm. til, að öðru sláturhúsi sé veittur styrkur, sem líka standi hér í Reykjavík. Háttv. þm. mun komast að raun um, að þessi tilgangur hans næst ekki frekar fyrir það, þótt öðru sláturhúsi væri haldið hér uppi við hliðina á Sláturhúsi Suðurlands. Undanfarin ár hafa fleiri sláturhús verið hér, hvort við annars hlið, og þó held eg Reykvíkingum hafi þótt kjötið nógu dýrt. Hvað veldur því? Ekkert annað en samvinna milli sláturhúsanna. Og þessi samvinna mundi því haldast framvegis eins og hingað til, ef sláturhúsin væru tvö. Það þarf því enginn að halda, að kaupmenn fari að selja kjötið ódýrara en sláturhúsið, þeir mundu hafa sama verðlag og það, og alt standa við það sama.

Þeir sem halda því fram, að einokunin sé brotin, með því að sláturhúsin séu tvö, hljóta að viðurkenna, að hún hafi þó ekki átt sér stað að undanförnu, þar sem sláturhúsin hafa verið 2 eða fleiri í Reykjavík til þessa, svo að öll kvörtun þeirra um, að það sé og hafi verið einokun í þessari grein, sýnist vera einber mótsögn eða fávizka.

Hvað viðvíkur hnútum þeim, sem kastað hefir verið að háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), fyrir það, að hann heldur hér uppi svörum fyrir landbúnaðinn, þá ætla eg ekki að fara að verja hann, því að eg álít að þess þurfi ekki. Hann er að vísu dauður við þessa umr. en mun lifna við 3. umr. og svara fyrir sig. Og þótt báðir hinir háttv. þm., sem hér hafa gengið ótrauðast fram, séu orðheppnir að almenningsáliti, og eigi síður að eigin dómi, þá álít eg að háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) muni einfær um að svara þeim, svo þeir þurfi ekki að telja til skuldar hjá honum. En með því að ráðast þannig báðir á hann dauðan — leggjast á náinn — hafa þeir óbeinlínis viðurkent, að þeir eigi hættulegan mótstöðumann þar sem hann er.