24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Pétur Jónsson:

Það hafa spunnist all-langar umræður út af samanburðinum á milli landbúnaðarins og sjávarútvegsins, sérstaklega um þá opinberu styrki, sem hvor þessara atvinnuvega er aðnjótandi. Eg held að þessi samanburður sé óþarfur og óheppilegur, því án tillits til þess, hvor þeirra er arðvænlegri eða þýðingarmeiri, þá þarf að styrkja þá báða eftir föngum. Það er ekki rétt að líta annan þeirra öfundarauga, því þeir eru svo samgrónir, að þeir þurfa að styrkja hvor annan. Samanburður þessi hefir reynst alveg óþarfur, einnig vegna þess, að engin ljós gögn eða rök hafa verið færð, og því einungis valdið töf og hugsunarruglingi.

Í samanburði þessum hafa komið fram öfgar, en þó fundust mér þær mestar hjá háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól). Eg er ekki undirbúinn til þess að geta svarað ræðu hans með tölum, en eg held þó, að eg geti talað af jafnmiklum kunnugleik um hin einstöku atriði málsins og hann. Í svona löguðum samanburði, þegar talað er um hvað landbúnaðurinn leggur fram, verður að taka með gjöldin, hvað goldið er til sveitar, prests og kirkju. Mér fundust það óviðkunnanleg orð að segja, að landbúnaðurinn væri ölmusumaður sjávarútvegsins, allra helzt þegar engin viðlita rök eru færð í málinu.

Það verður að skoða landbúnaðinn meira en atvinnuveg. Hann er ekki að eins atvinnuvegur heldur líka menningarstofnun. Eg vil spyrja. Til hvers gengur það fé, sem lagt er fram til hans? Til þess að hækka landið í verði. Allir þeir peningar, sem lagðir eru fram til jarðabóta hækka jörðina í verði, og mannar það líka þjóðina fyrir alda og óborna. Hið sama gildir ekki með það fé, sem varið er til sjávarins, því ekki hækkar sjórinn í verði. Þeir, sem halda með sjónum gæta ekki heldur þess, að ekki geta þeir notað hann án þess að stíga í land, og að meginþorri sjómanna notar landið sér til styrktar að meira eða minna leyti, sem betur fer. Hinn bezti þrifnaður fyrir sjávarútveginn er sá, að hann geti líka haft sem mest not af landinu, og að greitt verði fyrir ræktun jarðarinnar við sjóinn eins vel og verða má. Þetta hefir líka verið haft fyrir augum, sérstaklega um Ræktunarsjóðinn, og þar stutt að því að fátækir menn við sjóinn geti eignast smábletti, og ræktað þá. Ef strendur Faxaflóa hefðu verið vel ræktaðar, þegar fiskileysið kom þar fyrir nál. 30 árum, þá hefði ekki farið sem fór. Nú eru þær sveitir að blómgvast, og hygg eg að það sé mikið því að þakka, að þar er farið að leggja rækt við landið.

Úr því eg stóð upp, þá vil eg geta þess, að eg kom inn í því í morgun, þegar háttv. 2. þm. N.-Múl. (Jóh. J.) var að tala um Eiðaskólann. Eg heyrði ekki alla ræðu hans, og ætla heldur ekki að fara að svara henni, en samt varð eg var við, að hann var að mótmæla því, sem eg sagði í gær. Það er langt frá því að eg vilji spilla fyrir málinu, og tilgangur minn með orðunum í gær, var að eins að skýra það og greiða í sundur. Háttv. þm. fór annars ekki sem viðkunnanlegustum orðum um tillögurnar um fjárveitingar til skólans. Hann flutti þær ekki sem beiðni, heldur sem ofanígjöf til þingsins fyrir gerðir þess í búnaðarskólamálinu áður. Eg veit ekki, hvort þingið vill taka með þökkum svona ráðningu. Það getur sést á atkvæðagreiðslu um till. um Eiðaskólann.