25.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jóhannes Jóhannesson:

Háttv. frms. (Sk. Th.) reyndi ekki að hnekkja einu orði í röksemdafærslu minni fyrir því, að Múlsýslungar hefðu eigi getað farið öðru vísi að í Eiðaskólabyggingarmálinu en þeir gerðu, en hitt vildi hann vefengja, að Austfirðingum hefði verið vísað frá bændaskólunum, af því að eg nefndi eigi nöfn þeirra.

Þegar eg nú upplýsi eftir sögusögn hv. 2. þm. Skgf. (J. B.) að í haust sóttu um 70 piltar um inntöku á Hólaskóla, sem hefir húsrúm fyrir 30 pilta og eftir sögusögn háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) sem er nýkominn frá Hvanneyri um að 30 piltar sóttu um inntöku á þann skóla, en hann gat ekki veitt viðtöku nema 23 piltum og loks að 18 piltar eru nú á Eiðaskólanum, vona eg að öllum sé ljóst, að eg hefi eigi sagt of mikið, er eg fullyrti að þingið hefði eigi séð búfræðiskenslunni fyrir nægilegu húsrúmi, og því neytt Múlasýslurnar til að halda áfram Eiðaskólanum og byggja þar upp. Háttv. þm. S.-Þing. (P. J) má gjarnan kalla það ofanígjöf við þingið að benda á þetta, eg notaði eigi það orð eða neitt þvílíkt.