05.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Þótt þetta sé 2. umr. þessa máls og heimilt sé því samkvæmt þingsköpunum að fara út í einstakar greinar frv., þá skal eg sleppa því að mestu leyti.

Það mætti kalla að bera í bakkafullan lækinn, að hafa langar umr. um þetta mál hér, því að svo mikið hefir það verið rætt utan þings og innan og löngu áður en þetta alþingi kom saman. Á hinn bóginn munu allflestir vera búnir að mynda sér svo fasta og ákveðna skoðun í þessu máli, að umræður um það yrðu þýðingarlitlar, og þá því síður ástæða til þess að lengja þær.

Eg get því að mestu leyti látið mér nægja að skírskota til nefndarálitsins, enda vona eg að háttv. þingdm. virðist það skírt og gagnort. Eins og nefndarálitið ber með sér, hefir nefndin ekki getað orðið samferða í skoðunum sinum og tillögum um málið.

Það er kunnugt, að þetta mál hefir fengið meiri undirbúning heldur en nokkurt annað mál hér á landi, enda var það sjálfsagt, því hér er um ærið vandamál að ræða. Það var að vísu galli á undirbúningi þess, að það fekst ekki að nýjar kosningar færu fram áður en millilandanefndin væri kosin, þrátt fyrir sterkar áskoranir víðsvegar að um alt land og þvert ofan í fundarályktun þjóðfundarins á Þingvelli 1907. Eg ætla með þessu þó ekki að setja neitt út á þá nefnd, sem skipuð var 31. júlí 1907, því að í hana voru valdir mætir og merkir menn.

Þessi nefndarskipun var bygð á því, að Ísland væri frjáls samningsaðili við Danmörku, og þetta var samþykt af konungi og dönsku stjórninni með útnefningu nefndarinnar. Íslendingar hafa jafnan haldið því fram, að þeir hafi aldrei afsalað sér neinu því fullveldi, er þeir höfðu sem sjálfstætt ríki, frá því er þeir settu hér á fót þjóðfélagsskipun í öndverðu. Menn bjuggust fastlega við því, að íslenzku nefndarmennirnir mundu halda þessu einarðlega fram, enda brást sú von ekki. Þeir gerðu þetta með heiðri og sóma og töldu þetta þann eina grundvöll, sem þeir gætu samið á. Þetta sést bókað í »bláu bókinni« 16. marz 1908. Það var ekki búist við að Danir mundu fallast á þetta, enda sást það, þegar íslenzku nefndarmennirnir báru fram fyrsta frumvarpsuppkast sitt, að undirtektirnar urðu svo af hálfu Dana, að ekki væri unt að ganga að slíku sambandi, því að þeir vildu byggja á alt öðrum grundvelli. Þeir neituðu sögulegum og lagalegum rétti Íslendinga, en vildu byggja á siðferðislegum rétti þjóðarinnar. Þessi skoðun er rótgróin með Dönum og hafa þeir látið færustu menn þjóðar sinnar verja hana. Íslenzka nefndin sá nú, að þessi krafa leiddi ekki til neins árangurs, og þá var ekki nema um tvent að gera fyrir fulltrúa vora, annaðhvort að hætta öllum samningum, eða þá að leita bezta boðs, sem þeir gátu fengið Þeir tóku seinni kostinn, og skal eg sízt liggja þeim á hálsi fyrir það, því að eg álít að það hafi verið rétt ráðið. Þeir skoðuðu sig sem umboðsmenn alþingis og þjóðarinnar, og að það væri skylda þeirra að sjá hve langt Danir gætu slakað til um kröfur okkar, enda væri engu slegið föstu til fullnustu með samningsstörfum nefndarinnar. Árangurinn af þessu starfi hennar varð svo frumvarpið, sem öllum er orðið kunnugt.

Það mætti æra óstöðugan, að rekja allar þær deilur í ræðu og riti, sem orðið hafa meðal landsmanna um þetta frv. Það er bæði mikið mál og hins vegar óviðeigandi að rekja það upp hér aftur, enda er það að miklu leyti orðið skráð mál. Þjóðinni þótti frumv. ekki bygt á réttum grundvelli. Ennfremur þótti mönnum það óviðkunnanlega orðað og óljóst. Sérstaklega var fundið að því, að Ísland væri ekki sjálfstætt og fullveðja ríki. Annað, sem menn fundu frumv. til foráttu, var það, að uppsagnarréttur á sameiginlegu málunum var háður því af hálfu Íslendinga, að Danir vildu góðfúslega ganga að uppsögninni. Þetta gilti aðallega að því er kom til 2.—3. liðs 3. gr.

Þessari deilu lauk 10. sept. síðastliðið haust með úrskurði þjóðarinnar. Hún lét uppi þann vilja sinn, að ekki yrði gengið að frumv. óbreyttu, og enda gerðar gagngerðar breytingar á ákvæðunum um sameiginlegu málin. Með kosningunum var fyrirsjáanlegt, að frv. gengi ekki fram óbreytt á þingi, að minsta kosti ekki í bráðina, og eftir kosningarnar kom það sama í ljós á þingmálafundunum. Í öllum eða allflestum þingmálafundargerðunum var það rauði þráðurinn, að Ísland væri frjálst og fullvalda ríki, og að uppsagnarréttur væri skýlaus um öll sameiginlegu málin, að undanteknu konungssambandinu.

Þetta er sá rauði þráður, sem gengur gegnum mestan hluta fundargerða þingmálafundanna. Það var því sjálfgefið, að fulltrúar meiri hlutans mundu ekki sjá sér fært, að ganga að uppkastinu óbreyttu og mundu gera á því þær breytingar, sem meiri hluti kjósenda óskaði. En auðvitað verður að ætla, að hér falli saman skoðun kjósenda og þingmanna, að það sé ákveðinn vilji þingmanna sjálfra, að hafna uppkastinu óbreyttu. Eg verð að leggja áherzlu á þetta vegna þess, hvernig ræður féllu í Nd. Þar var því haldið fram, að ábyrgðin á úrslitum þessa máls hvíldi á meiri hluta þings. Auðvitað ber meiri hlutinn ábyrgðina, en hann ber hana í umboði þjóðarinnar, og ábyrgðin lendir að síðustu á umbjóðendunum, sem með skýrum yfirlýsingum hafa falið fulltrúum sínum að hafna uppkasti millilandanefndarinnar. — Eg fer ekki út í deilurnar á undan og eftir kosningunum, en eins og þá var auðsætt, að þjóðin skiftist í tvo hluta, eins standa nú hér á þinginu meiri og minni hluti gagnvart hvor öðrum. Meiri hlutinn heldur því fram, að ekki verði út úr uppkastinu dregið, að Íslandi sé samkvæmt því ætlað að verða sjálfstætt, fullvalda og fullveðja ríki. Það byggir hann á ummælum frumvarpsins og einkum þeim, að Ísland geti ekki fengið umráð yfir vissum málum, nema með samþykki Dana. Þessu hélt meiri hlutinn fram strax, þó mikið væri gjört til að sannfæra Íslendinga og jafnvel aðrar þjóðir um að Ísland yrði samkvæmt uppkastinu dálítið fullveðja konungsríki. því bregður svo undarlega við, að Danir lögðu engan dóm á það, hvor hefði rétt fyrir sér, minni hlutinn eða meiri hlutinn, fyr en kosningarnar voru afstaðnar, en þá reis upp hver maðurinn á fætur öðrum í Danmörku og sagði, að það hefði aldrei verið meiningin, að Ísland ætti að verða fullvalda ríki, jafnrétthátt Danmörku, og að frumvarpsandstæðingar hefðu skilið uppkastið hárrétt. Eg skal geta þess, að eg legg minna upp úr því sem einstakir menn meðal Dana hafa sagt, heldur en ummælum blaðanna. — það er síður en svo, að eg áfellist nefndarmennina fyrir starf þeirra. Eg veit að þeir hafa gengið að því með samvizkusemi og gert það sem þeir hafa getað. Hinu gátu þeir ekki að gert, að þeir komust ekki að svo góðum samningum, að þjóðinni líkaði. Þeirra var að eins að leggja fram fyrir þjóðina þá samninga, sem þeir gátu útvegað henni til handa, en svo var hennar að segja til um það, hvort hún vildi ganga að þeim eða ekki. — En svo eg hverfi nú að aðalágreiningnum milli flokkanna, þá er hann um það, hvort Ísland skuli í framtíðinni vera í málefnasamdi eða konungssambandi einu við Danmörku Þetta skilst mér vera aðalágreiningsefnið sem stendur. Minni hlutinn telur málefnasamband sjálfsagt, telur sjálfsagt, að Íslendingar og Danir hafi ávalt nokkur mál sameiginleg, sem Danir fari með, en Íslendingar hafi auðvitað dálitla hlutdeild í meðferðinni. Hann telur þetta svo lífsnauðsynlegt fyrir þjóðina, að heill og hagur hennar í nútíð og framtíð velti á því. Konungssambandið, sem meiri hlutinn telur æskilegast, segir minni hlutinn að sé háskagripur og skaðsemi og ekki annað en grímuklæddur skilnaður við Dani, og skilnað telja þeir óheppilegan. Um skilnað er nú ekki að tala; meiri hlutinn fer heldur ekki fram á hann. En af því ágreiningurinn virðist vera svo mikill, gæti verið mikilsvert að athuga, hve víðtækt þetta málefnasamband er, sem minni hlutinn telur nauðsynlegt, hve mörg og mikil þau mál eru, sem hann telur nauðsynlegt að séu sameiginleg til þess að velferð þjóðarinnar sé engin hætta búin. Eftir 3. gr. uppkastsins áttu sameiginlegu málin að vera 8; 5 af þeim voru uppsegjanleg, en 3 óuppsegjanleg, það er að segja, við gátum að eins sagt þeim upp með samþykki Dana. Þessu er breytt í frv. meiri hlutans, sem hér liggur fyrir. Samkvæmt því á að eins eitt mál að vera óuppsegjanlegt, en hin öll uppsegjanleg, og 2 er slept. Málefnasamband minni hlutans getur því í framtíðinni að eins orðið um tvö mál, auk konungssambandsins, utanríkismál og hermál. Háskinn fyrir framtíðargæfu Íslands ætti þá að stafa af því, að Danir hættu að fara með þessi mál. Ekki eru þau nú mörg talsins, en hins vegar er þá þess að gæta, hvort þau eru svo afarmerkileg, að búast megi við, að Íslendingar geti aldrei orðið færir um að fara með þau; ef svo væri, þá væri skiljanlegt, að minni hlutinn vill halda dauðahaldi í málefnasambandið. Um annað málið, hervarnirnar, verð eg að játa, að eg skil ekki, að lífsnauðsynlegt sé fyrir okkur að hafa það sameiginlegt við Dani. Íslendingar hafa aldrei viljað vera hernaðarþjóð. Þó væri nokkuð annað, ef hér væri um hervarnarsamband að ræða, sem við gætum haft nokkurn styrk og vörn af; en eg hygg, að hverjum sé það ljóst, að Danir mundu lítið geta hjálpað okkur, ef á okkur væri ráðið. Þá er hitt málið, utanríkismálin. Ísland hefir verið svo statt hingað til, að utanríkismálin hafa aldrei verið mjög mikil og verða varla nokkurn tíma mikil, — það helzta er verzlunarviðskifti við aðrar þjóðir. En ali maður þá von í brjósti, að Íslendingum vaxi með tímanum pólitískur þróttur, þá verður að ætla að þeir tímar komi, að þeir verði færir um að fara með þessi mál án hjálpar frá öðrum þjóðum. En það fer auðvitað eftir því, hverjar vonir menn gera sér um framtíð Íslands. Eg álít því að í raun og veru sé hér verið að berjast um keisarans skegg. Ágreiningsatriðin eru í raun og veru miklu minni en í fljótu bragði virðist, þegar litið er á hávaðann og fullyrðingarnar frá báðum hliðum. Báðu megin hafa menn hleypt sér út í öfgar. — Minni hlutinn í nefndinni í Nd. kom með nokkrar breyttill. við frv. stjórnarinnar. Sumar þeirra voru að eins orðabreytingar til skýringar, en aðrar efnisbreytingar. Eg játa, að þær eru fremur til bóta. Þær sýna líka tilslökun af hendi minni hlutans. Þær sýna það, að skilningur háttv. minni hluta á frumv. hefir skýrst, þar sem þeir nú telja rétt að gera breytingar á því, sem þóttu algjörlega ónauðsynlegar, þegar uppkastið kom frá nefndinni og var til umræðu í sumar. En eftir því sem á horfist, lítur ekki byrlega út jafnvel með þessar breytingar. Og enda þótt þær fengjust, þá er þó ófullnægt aðalkröfu meiri hlutans, að öll mál, nema konungssambandið, skuli vera uppsegjanleg, svo að honum nægja þær ekki. Hitt verður hver gætinn maður að spyrja sjálfan sig um, hvort nokkrar líkur séu um tilslökun frá hinum málsaðilanum. Því miður lítur svo út, eftir yfirlýsingum frá Dana hálfu, að litlar líkur séu til, að við fáum þessari aðalkröfu okkar fullnægt nú. En þá rís sú spurning, hvort við eigum að gera svo mikið úr erfiðleikunum á að fá aðalkröfu okkar framgengt, að við eigum að slaka til og taka þeim samningum sem í boði eru. Svarið verður einróma neitandi, hygg eg í öllu stímabrakinu í sjálfstæðismáli okkar höfum við lært, að ekki fellur eik við fyrsta högg. Við vitum það, að það sem áunnist hefir í sjálfstæðisbaráttu okkar hefir ekki fengist alt í einu, heldur höfum við fikað okkur áfram fet fyrir fet. Stundum hefir í langan tíma alt staðið kyrt, en svo alt í einu fengist það sem danska stjórnin hafði lengi talið alveg ófáanlegt. Eg gæti nefnt mörg dæmi. Það er ekki meira en nokkur ár síðan það var talið að rjúfa ríkiseininguna, að ráðherrann væri búsettur hér, en nú er það fengið. Sömuleiðis má benda á undirtektir Dana eftir þjóðfundinn 1851. Engar vonir gáfu Danir þá um nokkrar umbætur. Eg álít því, að meðan þjóðin er ekki ánægð með það sem í boði er, þá eigi hún ekki að taka því, heldur halda áfram að reyna að sannfæra Dani, í þeirri von, að smátt og smátt rakni úr og þeir láti undan sjálfsögðum kröfum okkar. — því hefir verið haldið fram, að réttarstaða vor yrði betri eftir uppkastinu en nú. Eg játa að hún yrði betri að því leyti, að hún yrði ákveðnari; sambandið yrði bundið föstum samningum, og væri það auðvitað bót. En hinsvegar stöndum við nú á okkar gamla réttargrundvelli og höfum ekki bundist neinum samningum við neina þjóð. Og þá er á það að líta, hvort við teljum svo mikið unnið með því, að réttarstaða vor sé ákveðin með föstum samningum, að við viljum til þess vinna, að ganga að samningum, sem við erum ekki ánægðir með, af því þeir fullnægja ekki kröfum okkar, og leggja höft á þjóðina. Eg verð að álíta, að hversu æskilegt sem það er, að fá réttarstöðu vora ákveðnari, þá megum við að engu hrapa í því máli. Svo mikið hefir þó áunnist í stjórnarbaráttu vorri, að sambandið við Dani eins og það er nú, er ekki mjög því til fyrirstöðu, að við getum tekið sæmilegum framförum og þroska. Eg segi þetta ekki af því, að eg sé ánægður með það ástand sem nú er. En meirihl. vill heldur láta sitja við þá óákveðnu stöðu, sem við höfum nú, og reyna að fá frekari bætur, heldur en taka því sem í boði er, svo að ekki sé hægt síðar meir að vitna í það, að Íslendingar hafi bundið sig og afsalað sögulegum réttindum sinum. Það hefir verið sagt af minnihl. mönnum í Nd., að með þessari meðferð málsins á þingi, væri settur slagbrandur fyrir frekara áframhald á sjálfstæðisbrautinni. Eg get ekki verið á þeirri skoðun. Eins og eg sagði áðan, þá hafa Danir oft sjálfir kipt frá þeim slagbrandi, sem þeir lengi töldu óhagganlegan, en auðvitað af því, að Íslendingar hafa knúið á hurðina. — Að svo stöddu sé eg ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið. Eg hefi reynt að tala með stillingu og æsingarlaust um málið, og vænti þess sama af háttv. deildarmönnum.