01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Jónsson, (1. þm. S.-Múl.):

Eg bið um orðið til þess að gera grein fyrir atkv. mínu, þar sem eg hefi orðið í minni hluta í fjárlaganefnd. Eins og menn muna samþ. deildin um daginn allríflegan styrk til Eiðaskólans, til að standa straum af byggingarkostnaði, til þess var ætlað 10,000 kr. hvort árið, eða 20,000 kr. alls. Það var sþ. hér í deildinni með 15 atkv. Eg verð að lýsa yfir því, að það hafi verið rétt og sanngjörn fjárveiting, sem þar var samþ. Eg hygg að það þurfi ekki annað en vísa til þess, sem háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) sagði þá. Hann lýsti því nákvæmlega þá, hve dýr skólinn hefði orðið hlutaðeigendum, og sömuleiðis því, í hve góðu ástandi hann væri nú, og hversu vel úr garði gerður til að vinna gagn. —

Nú hefir meiri hluti fjárlaganefndarinnar borið fram þá tillögu, að láta hina fyrri fjárveiting falla, en að veita skólanum 1500 kr. hvort árið, er á að nægja til þess, að greiða vexti og afborganir af hálfum byggingarkostnaðinum í 28 ár, og með því virðist eiga að gefa í kyn, að landssjóður borgi þessar 1500 kr. á ári í 28 ár, og þá fær skólinn jafnmikið. En það er önnur hlið á þessu máli. Fyrst er þess að geta og gæta, að sýslufélögin, til þess að koma upp skólanum hafa orðið að taka lán til bráðabirgðar, og verða að borga það fljótt, eða sem allra fyrst að unt er. Sýslufélögin hafa ekki getað fengið lán í bönkum, en fengið lánið til bráðabirgða hjá öðrum. Verði þessi breyt.till. samþykt, leysist ekki það vandræði skólans, að geta leyst þau bráðabirgðaskuldabönd, sem nú hvíla á honum, þótt hann fái að eins 1500 kr.; eg veit um mitt kjördæmi, að því mun veita örðugt að standa straum af skólanum, ef nú verður breytt fjárstyrknum til skólans, ef þessi nýja till. verður samþykt. — Eg vil líka leyfa mér að benda á það, að sú hlið, sem snýr að fjárveitingavaldinu og landssjóði er ekki heppileg. Beinu fjárútlátin eru auðvitað mikið minni í bráð, og »ballansinn« á fjárlögunum verður 17,000 kr. betri, en eg álít athugavert að fresta nauðsynlegum útgjöldum úr landssjóðnum einungis til þess að fá jafnvægi á fjárlögin. Ef svo fer að þessi tillaga verði samþ., í um að borga 1500 kr. í 28 ár, þá er það sama, sem að landssjóðurinn taki 20,000 kr. lán með 5% vöxtum. En það mun enginn telja fjárhagslega rétt, og ekki er hagur landssjóðs svo bágur enn, að hann eigi að þurfa að borga svo háa vexti.

Annað atriði, sem eg var í minni hluta með, var tillagan um þennan litla styrk til séra Runólfs Runólfssonar. Eg get ekki sagt, að landssjóð muni um það, en eg verð þó að vera á móti því. Ástæður mínar eru aðallega þær, — því að mér dettur ekki í hug að segja neitt um manninn sjálfan — að hann hefir varið kröftum sínum og starfi ekki á Íslandi heldur í Ameríku, og heldur en að fara að veita fé fátæklingum, sem koma frá Ameríku, ætti að styrkja þá sem nær eru.

Þá kemur till. sem ekki er frá fjárlaganefndinni, en sem eg vildi leyfa mér að mæla með. Það er að veita Jóhanni Sigurjónssyni 1000 kr. fyrra árið, þessum unga mjög efnilega manni. Svo stendur nú á, að hann í fyrra samdi leikrit, Bóndinn á Hrauni, og ritaði hann það samtímis bæði á dönsku og íslenzku. Sé eg ekki betur en að verðleikar hans vaxi að mun við að rita samtímis á öðru máli en íslenzku, því það hlýtur að auka okkar sæmd, ef gott er. Gerði hann síðan samning við Dagmarleikhúsið um leikrit þetta, og var honum áskilið ákveðið »honoror«, er það væri leikið, en hann var ekki svo gætinn að láta taka það skýrt fram í samningnum, að leikritið skyldi leikið í vetur. Nú er hann beint þurfandi fyrir dálítinn styrk og vantar fé til að starfa fyrir. Fengi hann það, eru mjög miklar líkur til, að starf hans þetta ár mundi bera þann ávöxt, að hann gæti vel lifað af því, og tel eg styrkveitingu þessa mjög þarfa, og manninn styrksins verðan, og mun eg verða deildinni mjög þakklátur, ef hún vill samþykkja þessa beiðni.