05.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Lárus H. Bjarnason:

Háttv. framsögumaður meiri hlutans, þm. Ísf., sagði að ekki væri ástæða til að eyða mörgum orðum að þessu frumvarpi. Það væri þaulrætt utan þings, á Þingvallafundinum 1907, og í Nd. nú á dögunum.

Eg er háttv. þm. sammála um, að tilgangslitið sé að ræða málið nú, þó ekki af því, að það sé þaulrætt, utan þings eða innan. Utan þings hefir það alls ekki verið rætt, þegar af þeirri ástæðu, að það er nýorðið til í neðri deild.

Háttv. þm. lagði mikið upp úr Þingvallafundinum, og kallaði hann þjóðfund, en sá fundur á hvorki lof þingm. né nafn skilið. Fundurinn 1851 var þjóðfundur í sönnum skilningi orðsins. Til hans var kosið eftir lögum í öllum kjördæmum landsins, en Þingvallafundurinn 1907 var hreinn og beinn flokksfundur. Eg hefi nýlega farið yfir nöfn þeirra manna, sem þann fund sóttu, og fann þar engan mann, er líklegt væri um að hefði nokkra sérþekkingu, til að leggja á nýtileg ráð um jafn vandasamt og viðkvæmt mál, sem sambandsmálið er. Af lagamönnum voru þar ekki aðrir en einn ungur lögfræðiskandidat, og ekki við því að búast, að hann legði öðrum fremur ábyggilegt til málanna, enda hafði hann ekki gjört það. Auk þess var fundurinn aðeins sóttur úr helmingi af hreppum landsins. Og hvað sem aðsókninni líður, þá er hitt víst, að slíkir fundir eru allsendis óhæfir til að ræða slík mál með nokkurri skynsemi, enda er víst ekkert dæmi þess í veraldarsögunni, að óvalinn flokksfundur hafi verið látinn segja fyrir um utanlandspólitík einnar þjóðar, fyr en þá.

Og úr nefndaráliti meirihl. í Nd. og umræðum hans þar gjöri eg heldur ekki mikið. Nefndarálit minni hl. og flestar ræður minnihl. manna voru góðar, sumar ágætar, en eg minnist ekki að hafa séð aumara nefndarálit og heyrt auðvirðilegri framsögu, en álit meirihl. og framsögu í Nd. í sambandsmálinu.

En þó að ástæður þær, er háttv. þm. nefndi fyrir því, að eigi þurfi að rökræða málið nú, hrökkvi þannig eigi til, þá er önnur ástæða og hún ein ærin til þess, að tilgangslítið er í rauninni að eyða mjög mörgum orðum að því, og hún er sú, að meirihlutinn hefir þegar fyrir löngu gjört þetta góða lands og þjóðar mál að gífurlegu flokksmáli.

En samt get eg nú ekki lofað að vera fáorður og ber margt til þess, þó að ekki hirði eg um að rekja það hér.

Hv. þm. fann að því, að ekki hefði verið stofnað til nýrra kosninga áður en millilandanefndin var skipuð. En til þess var engin ástæða. Nefndin átti aðeins að búa til frumvarp til laga, er þjóðinni væri frjálst að taka eða hafna, en hún átti ekki að binda þjóðina. Því voru nýjar kosningar óþarfar þá, en sjálfsagðar eftir nefndarstarfið. Annars hélt eg að meiri hlutinn hefði ekki ástæðu til þess að sjá eftir því, að kosið var heldur eftir en fyrir nefndarstarfið.

Háttv. þm. gjörði mikið úr því, að meiri hluti þjóðarinnar hefði ekki viljað ganga að frumvarpinu óbreyttu. Já, það er rétt, að nokkur meiri hluti kosningabærra manna vildi ekki ganga að frumvarpinu óbreyttu. En það sannar lítið, því að mér vitanlega vörðust bæði þingmannsefni og kjósendur allra orða um hverju skyldi breyta. Eg heyrði 4 frambjóðendur, sem nú eru orðnir þingmenn, lýsa því yfir, að þeir færi ekki fram á annað en þær orðabreytingar, að einskis tvímælis orkaði um efnið.

Háttv. þm. vildi ennfremur skjóta ábyrgðinni af sér og samflokksmönnum sínum á umbjóðendur þeirra, en það er hvorki karlmannlegt né siðferðislega rétt. Það má ekki búast við sérþekkingu á svo sérstöku máli, sem þessu, hjá kjósendum, sem koma á þingmálafundi frá orfinu eða öðrum störfum sínum. Þingmannaefnin reifa málin, og hjá þeim er ábyrgðin. Enda veit háttv. þm. það eins vel og eg, að þingmenn eiga að fara eftir sannfæringu sinni, og engu öðru. Stjórnarskráin mælir beint svo fyrir, og þess hafa þeir meðal annars allir unnið eið.

Að svo mæltu vík eg að þeim atriðum, er eg hafði ásett mér að ræða, áður en háttv. framsm. meirihl. tók til máls, og mun þá jafnframt víkja að því í framsögu hans er á milli ber okkar. Og skal eg reyna að gæta hófs meðan ekki er í ráðið á mig, enda þó að ekki neyti eg því, að oft sárni mér, er eg hugsa til meðferðarinnar á þessu máli, sem allra mála sízt mátti verða að flokks- eða æsingamáli.

Það er sitthvað, þó vér gerum einhverjar skyssur í innlendum málum, úr þeim er oftast hægt að bæta. En þær skyssur, sem vér látum oss henda í viðskiftum vorum við aðrar þjóðir, verða annaðhvort ekki bættar, eða að minsta kosti mjög vandbættar. Hafi oss t. d. hent skyssa í aðflutningsbannsmálinu, þá er hægur hjá, að setja kútinn aftur á stokkana. En takist illa til hér, þá er viðbúið að það verði aldrei bætt.

Eg ætla ekki sérstaklega að ræða sambandsmálið frá lagalegu sjónarmiði, þótt sumt í því sé ekki annara meðfæri en lögfræðinga, t. d. hvað orðið »fullveldi« merkir. Eg ætla einkanlega að reyna að skýra málið frá praktísku og pólitísku sjónarmiði. En til þess verð eg fyrst að lýsa réttarstöðu landsins, eins og hún nú er; síðar mun eg sýna fram á, hver hún mundi hafa orðið, ef frumvarp millilandanefndarinnar hefði orðið að lögum, og um leið bera það saman

við neðri deildar frumvarpið og drauma sumra um skilnað eða persónusamband. Og vona eg, að sá samanburður færi mönnum heim sanninn um það, hvert fyrirkomulagið henti oss eftir öllum atvikum bezt.

Samkvæmt stöðulögunum svokölluðu, frá 2. janúar 1871, er Ísland »óaðskiljanlegur hluti Danaveldis«, en þó með »sérstökum landsréttindum.« Það er með öðrum orðum talið jafnbundið við ríkið, og hinir dönsku landshlutar. Að vísu höfum vér engan þátt tekið í tilbúningi þessara laga. Þau eru sett af konungi og ríkisþinginu. Og þeim var enda mótmælt af alþingi 1873.

En samt sem áður verður því ekki neitað, að mikið af efni stöðulaganna og sumt af því, sem oss er verst við, er í raun og veru runnið héðan, og það frá Jóni heitnum Sigurðssyni forseta.

Bæði á þinginu 1867 og 1869 voru samþykt stjórnskipulaga frumvörp, er snertu réttarstöðu landsins út á við, og á báðum þingunum var Jón Sigurðsson aðal forvígismaður málsins. — Eftir þingfrv. 1867 átti Ísland að vera: »erfðaland Danakonungs og einn hluti Danaveldis«. Þar var gjörður greinarmunur á »sameiginlegum málum«, sem Ísland átti engan þátt að eiga í, og »sérstökum málum«, er áttu að vera því nær hin sömu, og þau eru nú. Og það var beint tekið fram, að konungur skyldi skera úr því, hvort mál væri »sameiginlegt« eða »sérstakt«, ef til ágreinings drægi um það. — Í þingfrv. 1869, 1. gr., segir fullum fetum: »Ísland er óaðskiljanlegur hluti Danaveldis með sérstökum landsréttindum«. Þar eru notuð nákvæmlega sömu orðin og í 1. gr. stöðulaganna. Síðan eru talin »sameiginlegu málin«, og meðal þeirra: »viðskifti ríkisins við önnur lönd, vörn ríkisins á landi og sjó, ríkisráðið, réttindi innborinna manna, myntin, ríkisskuldir og ríkiseignir, og póstgöngur milli Danmerkur og Íslands«. Íslendingar áttu ekki að eiga neinn þátt

í stjórn þessara mála, enda ekkert til þeirra að leggja. Þar á eftir voru talin upp »sérstöku málin«, sömu málin og nú eru sérmál eftir stöðulögunum.

Þar að auki fól hið sama alþingi, er mótmælt hafði stöðulögunum, konungi að veita landinu stjórnarskrá. Og stjórnin gleymdi ekki að vitna til þess umboðs í forsendunum fyrir stjórnarskránni, auk þess sem 1. gr. beint nefnir stöðulögin sem undirstöðu stjórnarskrárinnar.

Hér við bætist, að öll íslenzk stjórnarvöld, alþingi, umboðsvaldið og dómsvaldið, hafa óbeinlínis játað stöðulögunum í framkvæmdinni. Alþingi, eða réttara sagt efri deild, gjörði það seinast þessa dagana, með því að kæfa frumvarp neðrideildar um afnám dómsvalds hæstaréttar og stofnun æðsta dóms á Íslandi. Deildin hefir með því óbeinlínis kannast við það, að ákvæði 3. gr. stöðulaganna um dómsvald hæstaréttar yrði ekki breytt af löggjafarvaldi voru einu, og þorði því ekki að láta ráðherrann fara með það á konungsfund. — Sama er um umboðsstjórn vora. Hún hefir altaf, bæði að fornu og nýju, leitað á náðir hinna dönsku stjórnarvalda, þegar um »sameiginleg mál« hefir verið að ræða. Og enginn veit það betur en hæstv. forseti vor, að yfirrétturinn hefir altaf kannast við hæstarétt sem dóm yfir sér, afgreitt mál til hans, tekið aftur fyrir mál, er hæstiréttur hefir vísað heim o. a. frv.

Svona er réttarstaða landsins út á við í framkvæmdinni, landið nokkurs konar »hjáleiga frá herragarði«; það sagði hæstv. ráðherra nýlega í Danmörku, þó óþarfi væri að segja það þar.

Inn á við er vald vort meira, en þó hvorki mikið né vel trygt. Vér höfum umráð yfir einum 9 flokkum alinnlendra mála, og þó ekki fult vald yfir þeim öllum, því að úrslitadómsvaldið er hjá Dönum. Öll önnur mál en þessi 9 sérmál eru aldönsk mál, sem vér höfum alls engin umráð yfir, enda þó að þau séu kölluð »sameiginleg mál« landanna. Og þó er það verra en alt annað, að Danir halda því fram, að þeir geti svift oss þessu valdi, ef þeim býður svo við að horfa. Matzen professor, aðal ríkisréttarfræðingur þeirra, heldur því fram í ríkisrétti sínum, Khöfn. 1888, I. bls. 247, að ríkislöggjafarvaldið, sem setti stöðulögin, geti breytt þeim og afnumið þau eftir vild, og þannig svift oss allri sjálfstjórn. Og þetta er kent á háskólanum enn þann dag í dag.

En þetta er ekkert að marka, segja sumir. Vér höfum rétt til þess að vera fullvalda ríki eftir »gamla sáttmála«, og það viljum vera. Eg skal nú hvorki lasta »gamla sáttmála«, né gjöra lítið úr þessum góða vilja, en sá hængur er óneitanlega á hag vorum, að samningsaðili vor, Danir, viðurkenna ekki gildi gamla sáttmála eða annara sönnunargagna vorra, og oss brestur þrótt til að geta þröngvað Dönum til að játa málstað vorum. Það er því ekki til neins, að veifa gamla sáttmála. Og þaðan af óþarfara að gera lítið úr Dönum og blása sjálfa sig upp.

Það er ekki til nema ein leið út úr ógöngunum, sama leiðin og millilandanefndin fór, samningaleiðin, enda játa því nú allir heilvita menn, jafnvel æstir meirihlutamenn. Aftur á móti halda sumir þeirra því fram, að vér millilandanefndarmenn hefðum ekki átt að taka hinum fengnu réttarbótum, úr því að Danir fengust ekki til þess að kannast við rétt vorn til þeirra. En hvað myndu þeir hinir sömu menn hafa sagt, ef þeir hefðu gjört oss út til að heimta saman útistandandi skuldir þeirra, og vér komið tómhentir heim, af því að vér hefðum ekki viljað taka við framboðinni borgun, vegna þess að skuldunautar hefðu jafnframt borguninni sagt, að í rauninni gætu þeir eigi kannast við réttmæti skuldanna. Þeir hefðu smánað oss fyrir heimskuna, og það með fullum rétti. En söm hefði heimska vor verið, ef vér hefðum hafnað frumvarpinu fyrir það eitt, að Danir töldu oss ekki eiga heimtingu á því.

Eg hefi nú í stuttu máli lýst réttarstöðu landsins og bent á þá einu færu leið til breytinga. En hverjar eru þá þær breytingar, sem til orða hafa komið.

Sumir hafa nefnt skilnað sem eina eftirsóknarverða hnossið. Þeir segja að oss væri ekki vandara að lifa upp á vort eindæmi nú en til forna. En þeir gleyma því, hinir »ungu og gömlu fautar», að það stendur nokkuð öðru vísi á, nú en þá. Þá kunni enginn að meta kosti þessa lands, hin ríku fiskimið, hið máttuga afl fossanna o. s. frv. Og þá höfðu menn ekki annað en opna báta til að sækja á yfir hið mikla haf. En nú langar margt ríkið vafalaust í matarholur vorar, og nú er hafið ekki meiri þrándur í götu þeirra, en vesöl spræna vöskum manni. En annars þarf væntanlega ekki mörg orð eða sterk til að kveða skilnaðarhugmyndina niður, nú, er ráðherrann hefir kallað hana »hugarburð og loftkastala«, og forsvarað flokksmenn sína fyrir henni í líf og blóð í Kaupmannahafnarleiðangrinum sæla. Annars er leitt að hæstv. ráðherra skuli ekki vera staddur hér í deildinni í dag, og mætti eg ef til vill skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki væri rétt að aðvara hann. (Forseti: Hann hefir fengið dagskrána eins og aðrir). Jæja, það verður þá svo að vera.

Nú munu flestir ráðsettir menn kannast við það, að skilnaður sé ófær. En svo hafa sumir hugsjónamenn í hans stað dauðskotið sig í svokölluðu persónusambandi, og því einu þykist nú meirihlutinn geta unað. Raunar fer frumvarp hans engan veginn fram hreinu persónusambandi. Með löndum, sem eru í hreinu persónusambandi, er ekki eitt einasta mál sameiginlegt, ekkert sameiginlegt nema landsdrottinn einn. En eftir meiri hluta frumvarpinu verða 4 mál sameiginleg milli landanna um ótiltekinn tíma, þó með uppsagnarfresti sé. Meiri hluta frumv. stofnar því í rauninni til málefnasambands eins og millilandafrumv.

Að hreinu persónusambandi yrði það þá fyrst, er öllum sammálum öðrum en konungssambandinu væri sagt upp.

En þá yrði sambandið oss líka gersamlega ónógt, ekki betra, heldur jafnvel verra en skilnaður.

Á persónusambandi eru allir ókostir skilnaðar, því að þá er einskis stuðnings að vænta út á við frá sambandsþjóðinni, en persónusamband hefir auk þess ókosti, sem skilnaður hefir ekki, það bindur að óþörfu þjóð við þjóð, og það er dýrara en skilnaður, því að framlag vort til konungsmötu og lífeyris konungsættarinnar miðaðist þá við framlög miklu ríkari þjóðar í þessu skyni, en gefur þó ekkert meira í aðra hönd. Það væri því miklu nær að taka sér sjálfur landsdrottinn, enda má búast við því, eftir kappinu, sem var um ráðherrastöðuna síðast, að einhver fengist til að vera þjóðhöfðingi hér á landi. Persónusamband er heldur ekki til nokkurstaðar í heiminum, enda kemur nú ríkisréttarfræðingum saman um, að það sé óhafandi, Og eins og eg þegar hefi sýnt fram á, er það heldur ekki persónusamband, sem háttv. meiri hluti fer fram á. Það er í rauninni málefnasamband um ótiltekinn tíma, en verra en það samband, sem millilandanefndin fer fram á, eins og eg skal sanna, þegar eg hefi lýst nefndarfrumvarpinu.

Nefndarfrumvarpið snýr bæði út á við og inn á við, en þó einkum út á við, að réttarstöðu lands og lýðs til Danmerkur og Dana.

Og það gjörbreytir aðstöðu vorri í báðar áttir. Danir skömtuðu oss rétt vorn 1871, og skamturinn var lítill, sannkallaður litli skattur, að eins nokkur umráð yfir 9 málum. Nú skömtum vér oss sjálfir allan rétt vorn, felum Dönum að eins að fara með örfá mál um tiltekinn eða ótiltekinn tíma. Hjálendan, »hinn óaðskiljanlegi hluti Danaveldis«, verður að sjálfstæðu konungsríki, ef frv. gengur fram. Munurinn er hvorki meiri né minni.

Eftir 6. gr. frv. er íslenzku þjóðinni trygt fullkomið einræði inn á við í öllum málum; það sést af niðurlagi 6. gr., er hljóðar svo: »Að öðru leyti« (þegar meðferð sameiginlegu málanna er undanskilin) »ræður hvert landið að fullu öllum sínum málum«.

Og út á við ætlar frv. oss fullkomið jafnræði við Dani að lögum. Það sést af 1. gr. og 6. gr. frv. og viðar. Að vísu eiga Danir að fara með sameiginlegu málin, en það eiga þeir að gera fyrir vora hönd, sbr. 6. gr. — eða í umboði voru, og það dregur enginn í efa, að umbjóðandi hefir fult vald yfir málinu, þótt hann feli öðrum manni að fara með það fyrir sína hönd. Af málum þeim, sem sameiginleg eru samkv. 3. gr., eru 5 af 7 að eins sammál um tiltekið árabil, — eg segi af ásettu ráði 7, en ekki 8, því að það er bein afleiðing konungssambandsins, að konungsmatan verður að vera sameiginleg. Og eitt af þessum 5 málum, og það ekki það lítilvægasta, geta Íslendingar strax tekið að sér að öllu leyti; þeir geta þegar er sambandslögin væru í gildi gengin sett á stofn íslenzkan hæstarétt, og um leið afnumið hæstarétt Dana, sem æðsta dómstól í íslenzkum málum. Af öllum greinum hins opinbera valds, er dómsvaldið í rauninni það valdið, sem mest er undir komið, því að það sker ekki að eins úr þrætum milli einstaklinga innbyrðis, og milli einstaklinga

annars vegar og hins opinbera hins vegar,; heldur og úr þrætum milli einstakra greina hins opinbera valds, enda hefir það alt síðan Íslendingar fyrst hófu sjálfstæðisbaráttuna verið einróma krafa þeirra, að fá æðsta dómsvaldið inn í landið. — Vér fáum enn fremur strax rétt til þess, að veita fæðingjarétt, og sá réttur gildir ekki að eins hér á landi heldur og í Danmörku. Hér takmarkar Danmörk ekki síður fullveldi sitt en Ísland sitt, ef um nokkra takmörkun væri að ræða á annað borð. — Þá gætum vér og þegar í stað lögleitt hér á landi þann fána, sem oss gætist bezt að. Sem stendur er danski fáninn lögskipaður bæði innan lands og út á við. Eftir frv. væri heimafáninn sérmál, og kaupfáninn út á við uppsegjanlegt sameiginlegt mál. Eg skal játa, að það er viðkunnanlegra að sjá sitt eigið merki blakta yfir höfði sér, og eftir þeirri áherzlu, sem lögð hefir verið á þetta atriði af hálfu andstæðinga millilandanefndarfrumvarpsins, hefði mátt búast við, að meiri hlutinn eða ráðherrann kæmu með frv. um sérstakan íslenzkan fána. Reyndar er það ekki ósennilegt, að það hefði fengið sömu viðtökurnar og hæstaréttarfrumvarpið, — verið svæft í nefnd. — Þá er gerðardómurinn einn ásteitingarsteinninn. Eg varð alveg hissa, er eg heyrði Íslendinga hneykslast á því ákvæði. Eftir frumvörpum Jóns Sigurðssonar bæði 1867 og 1869 átti konungur að skera úr þrætum, er um það rísa, hvort eitthvert mál væri íslenzkt sérmál eða ekki, en eftir frv. á að setja á stofn sérstakan dómstól til þess að skera úr slíkum þrætum. Rísi deilan milli einstakra ríkishluta innbyrðis eða milli ríkishluta og ríkisheildar, þá sker ríkisstjórnin sjálf úr þrætunni. Gerðardómurinn er því ótvíræð sönnun fyrir því, að frv. ætlar Íslandi að vera fullveðja ríki. Hitt skiftir minnu, hvor þjóðin hefir fleiri fulltrúa í dómnum, einkum þar sem frv. dregur svo skýr takmörk milli sérmálanna og sameiginlegu málanna, að um þau getur tæplega orðið ágreiningur.

Eg gat þess áðan, að Danir álíta löggjafarvald ríkisins þess um komið, að fella úr gildi eða breyta stöðulögunum, og kippa þannig fótunum undan þeirri sérmálasjálfstjórn, er vér nú höfum, en verði frv. samþykt, verður ekki einum staf breytt í sambandslögunum án vors samþykkis; þá er grundvöllurinn bjarg, í stað þess að nú er hann sandur. Það hefði átt að mega búast við því, að mál þetta yrði ekki gert að flokksmáli, en svo fór nú samt, því miður.

Skal eg þá víkja að aðfinslunum, og get eg þess þegar, að eg held mér aðallega við aðalblað meiri hlutans — blað ráðherrans, og þess vegna er leiðinlegt, að hæstv. ráðherra skuli ekki vera viðstaddur umræðumar hér í dag. Fyrst var átalið, að frv. skyldi nefna sig frv. »tillaga«, en ekki frv. til sáttmála. Sambandinu milli Austurríkis og Ungverjalands er skipað með lögum, er löggjafarvöld beggja ríkjanna hafa samþykt, og hefði því ekki þurft að finna að þessu, en annars er ekki orðum eyðandi að slíkum hégóma, sízt nú, er meiri hlutinn hefir játað, að aðfinsla sú sé á engum rökum bygð, með því að kalla sitt eigið frv. frv. til laga. Þá var gert mikið veður út af því, að í 1. gr. stendur, að landið verði eigi af hendi látið. Og er þó ekkert eins dæmi, að svo sé ákveðið í stjórnarlögum ríkja. Sams konar ákvæði stendur í stjórnarskrá Norðmanna, enda var það tekið þaðan upp í frv. í því skyni að tryggja oss Íslendingum, að Danir gætu aldrei látið Ísland af hendi, þótt þeir neyddust til láta eitthvað af löndum sinum, því að þótt Danir vildu afhenda Ísland, þá myndi hinn samningsaðilinn ekki taka við því, ef sambandslög landanna bæru það með sér, að Danir hefðu eigi rétt til slíkra ráðstafana. — Þá var sagt, að ríkjasamband væri ekki sama og »Statsforbindelse«, en þetta er blátt áfram rangt. Það er ekki hægt að kalla »Statsforbindelse« eða »Statsforbund« öðru nafni á íslenzku en »ríkjasamband«. Hitt er aftur á móti satt, að »veldi Danakonungs« er ekki beinlínis þýðing á orðtæki því, sem stendur á tilsvarandi stað í danska textanum, en það er heldur ekkert annað en heiti á, sambandinu, sem tekið er upp í frv. úr skipunarbréfi millilandanefndarinnar, og það skiftir engu, hvað sambandið heitir, heldur er alt undir því komið, á hvern hátt því er fyrir komið. — Þá hefir því verið haldið fram, að með 2. gr. frv. væri afsalað rétti, sem Íslendingar hefðu nú til þess að taka þátt í konungskosningu, yrði konungdómurinn laus. Fyrst og fremst má geta þess, að engar líkur eru til, að sú góða ætt, sem nú situr að völdum í Danmörku, deyi út í bráðina, og í annan stað hafa Íslendingar aldrei neytt þessa réttar til að taka þátt í konungskosningu, enda myndu Íslendingar fá litlu ráðið í því efni, þar sem þeir eru 30 sinnum færri en Danir, og áhrif hvers lands færu að sjálfsögðu eftir fólksfjölda þess. Loks má geta þess, að 2. gr. bindur oss, eftir orðanna hljóðan, að eins við þá skipun, er nú gildir í Danmörku um ríkiserfðir o. fl., svo að vér ættum að geta heimtað áhrif á konungskjör, ef til kæmi. — Enn hefir verið snúið út úr því, að í 7. atr. 3. gr. stendur, að löggjafarvald Íslands geti sett á stofn æðsta dómstól í »íslenzkum málum«. Því hefir verið haldið fram, að »íslenzk mál« væru þau ein, er báðir málsaðilar væru Íslendingar, en þetta er svo fjarri öllum sanni, að það er ekki svaravert, enda var það ungur prokurator, er þetta fann upp, en allmerkt blað — Þjóðólfur — flutti það þó. Margir hafa skilið jafnréttisákvæði 5. gr. á þá leið, að það heimilaði Dönum, hvar sem þeir væru búsettir, jafnrétti við Íslendinga búsetta á Íslandi, en það er ekki rétt. í upphafi 5. gr. segir: »Danir og íslendingar á íslandi og Íslendingar og Danir í Danmörku njóta fulls jafnréttis«. Þetta þýðir, að Danir og Íslendingar, sem heima eiga á Íslandi, og Íslendingar og Danir, sem heima eiga í Danmörku, eiga sama rétt að öllu leyti. Hér er því um lítil forréttindi að ræða, því að jafnrétti við landsmenn til atvinnu hefir hver sá útlendingur, er hér sezt að og fullnægir að öðru leyti atvinnuskilyrðum vorum. Og það sést beint á 3. lið 5. gr., að 1. liður greinarinnar tekur að eins til Dana, búsettra hér á landi. 3. liður segir sem sé, að Danir hafi að eins rétt til fiskiveiða hér í landhelgi, meðan þeir hafi á hendi strandvörn, en ætti 1. liður við alla Dani skilyrðislaust, héldu þeir landhelgisréttinum, eins og öðru jafnrétti, um »aldur og æfi«. — Þá var gert ógnar veður út af því, að Ísland var hvergi nefnt »ríki«, heldur land í frv., en við þeirri aðfinslu liggja þau svör, að Danmörk var þar heldur hvergi kölluð ríki, heldur alstaðar land. Og í annan stað situr það ekki á háttv. meiri hluta, að finna að þessu, því að hann amaðist á Þingvallafundinum 1907 við tillögu, er fór í þá átt, að krefjast þess, að Ísland yrði ríki, og Ísafold sagði líka um það leyti, sem Blaðamannaávarpið var á ferðinni, að það væri ekki meining ávarpsmanna, að heimta að Ísland yrði sérstakt konungsríki. Hún sagði 15. nóv. 1906: »Orðið land merkir, að vér hugsum ekki til að vera ríki sér«. Lengra var hún ekki komin þá. Þá kem eg að utanríkismálum og hermálum, sem. deilan hefir verið hörðust um. Það er algerlega rangt, sem sagt hefir verið, að þau mál væru bundin við Dani um aldur og æfi. Munurinn á þeim og hinum sammálunum er að eins sá, að þau eru falin Dönum um óákveðinn tíma, en hin eru uppsegjanleg að ákveðnum tíma iðnum. Hinn háttv. framsögum. meiri hlutans hélt því fram, að það eitt út af fyrir sig, að ekki er beint tekið fram í frv., að þessi mál séu uppsegjanleg, sé næg sönnun þess, að Íslandi sé ekki ætlað að verða fullvalda ríki. En þessu verð eg að mótmæla. Fullvalda er hver sú þjóð, sem ekki lýtur öðrum skuldbindingum en þeim, sem hún sjálf hefir á sig lagt, sbr. ummæli hins merkasta núlifandi ríkisréttarfræðings, Jellinek: Staatenverbindungen, bls. 34. Ætti sú þjóð ein að vera »fullvöld«, er engum skuldbindingum væri háð, væri engin »fullvalda« þjóð til. Það er ekkert ríki til, sem ekki er bundið einhverjum skuldbindingum gagnvart öðrum ríkjum; sum eru að sumu leyti bundin um »aldur og æfi«. Með Austurríki og Ungverjalandi eru t. d. utanríkismál og hermál sameiginleg um »aldur og æfi«, og Noregur og Svíþjóð áttu utanríkismál saman án nokkurs uppsagnarréttar, og skildu þó. Reyndar er ekki rétt að segja, að nokkur þjóðasamningur gildi um »aldur og æfi«, þegar af þeirri ástæðu að þjóðarviljinn getur ekki bundið sig til fulls og alls, í þeim skilningi að nauðsyn geti ekki brotið, sbr. sömu bók bls. 102 og dæmi Norðmanna og fleiri þjóða, er slitið hafa umsamið bandalag við sambandsþjóðir sinar.

Annars væri harla lítið leggjandi upp úr því, þó að Ísland væri kallað »fullvalda« í frumvarpinu. Helztu ríkisréttarfræðingum kemur t. d. saman um, að Pólland hafi verið fullvalda ríki, þrátt fyrir samning þess við Rússland frá 5. og 16. okt. 1793, og átti þó Rússland ekki að eins öll umráð yfir hermálum Póllands og utanríkismálum, heldur var Póllandi auk þess óheimilt að breyta stjórnarskrá sinni án samþykkis Rússastjórnar. Þetta mundu meirihluta »ríkisréttarfræðingarnir« nú að vísu ekki kalla »fullveldi«, en svo er nú samt, bæði að dómi Jellineks, bls. 56, og annara sérfræðinga.

Og því fer svo fjarri, að vér verðum ófullvalda þjóð, þó að Dönum sé falið að fara með utanríkismál vor og hermál án uppsagnarréttar af vorri hendi um ótiltekinn tíma, að samband um þau 2 mál, auk konungssambandsins, er þvert á móti lágmark þess, sem sameiginlegt hlýtur að vera milli sambandslanda, sem í málefnasambandi eru, sbr. Jellinek bls. 214, og um utanríkismál sérstaklega segir hann á bls. 219, að þjóðir, sem eru í málefnasambandi, hljóti samkvæmt eðli sambandsins að hafa sameiginlega utanríkispólitík. Þetta eru engar fræðimannagrillur, því að reynslan sýnir, að þannig er því varið í framkvæmdinni. Svona er sambandinu háttað milli Austurríkis og Ungverjalands, sem er eina málefnasambandið, sem nú er til hér í álfu, og svona var því háttað milli Noregs og Svíþjóðar. Aftur á móti er ekkert persónusamband til og mun ekki verða til, því að það er ósamrýmanlegt við venjulegt stjórnarfyrirkomulag vorra tíma. Annars er það ekki Jellinek einn, sem hefir þessa skoðun á fullveldinu, er nú hefi eg nefnt; eg get t. d. bent á, að Hagerup, sendiherra Norðmanna í Kaupmannahöfn og frægasti lögfræðingur Norðurlanda, sagði við mig í fyrra og leyfði mér að hafa það eftir sér, að það væri enginn vafi á, að Ísland yrði »fullvalda« ríki, ef frumvarp sambandslaganefndarinnar gengi fram.

En enda þó að einhverjar af aðfinslum þessum hefði verið réttmætar að meira eða minna leyti, þá skyldi maður ætla, að meiri hlutanum þætti frv. nú aðgengilegt með breytingum þeim, sem minni hlutinn hefir gert á því. — Að vísu eru breytingar þessar flestar eða allar orðabreytingar frá sjónarmiði minni hlutans, en þær hljóta flestar eða allar að vera efnis-breytingar eftir þeim skilningi, sem meiri hlutinn hingað til hefir lagt í frumvarpið. Eg heyri spurt, hví minni hlutinn beri þessar breytingartillögur fram, úr því að þær séu í rauninni óþarfar. Það gerir minni hlutinn fyrst og fremst af því, að frumv. ætti að vera aðgengilegra í hinu breytta formi, er búið er að laga það sem helzt var fundið að, og svo í öðru lagi til þess að friða þá, sem undir lögunum ættu að búa. — Og skal eg svo víkja nokkrum orðum að breytingartillögum minni hlutans og jafnframt geta þess, að athugasemdir mínar um breytingar við hinar ýmsu greinir eiga allar við greinir sambandslagafrumvarpsins.

Með breytingartillögunum við 1. gr. er því slegið föstu með berum orðum, að Ísland sé »ríki«, og einn af helztu ásteytingarsteinunum, kenningarheitið »det samlede danske Rige«, eða veldi Danakonungs, jafnframt felt burtu. Þar næst er slept orðinu »sérstaklega« úr 2. lið 3. gr. og þar með tvímælalaust heimtað samþykki ísl. stjórnarvalda til allra þjóðasamninga um ísl. hagsmuni utan sameiginlegu málanna eftir 3. gr. Þá tekur viðaukinn við 4. lið 3. gr. af öll tvímæli um það, að ekki þarf samþykki Dana til að vér aukum strandvörn vora. Það er skýrt tekið fram, að samkomulagið við Danmörku nái að eins til hinnar nánari tilhögunar á eftirlitinu. Og um það verður samkomulag að nást, ef báðar þjóðir eiga að hafa eftirlitið á hendi. Annars er eftirlit beggja ónýtt.

Með viðaukanum við 1. lið 5. gr. eða orðunum »að öðru jöfnu«, er því slegið ómótmælanlega föstu, að Danir utan Íslands hafa ekki jafnrétti á við Íslendinga, sem heima eiga á Íslandi, og oss þannig tvímælalaust heimilað að heimta búsetu hér á landi af Dönum, sem skilyrði fyrir því, að þeir njóti jafnréttis við hér búsetta Íslendinga. Þetta hlýtur meiri hlutinn að telja mikilsverða breytingu.

Með viðaukatillögunni við 6. gr. eða tilvitnuninni til 9. gr. í viðbót við 3. gr., er það skýrt tekið fram, að Danir geti ekki farið með þau sameiginleg mál, er löglega kynni að hafa verið sagt upp. — í 7. gr. er tekið upp orðið »ríkissjóður« í stað »landsjóður«, og skal eg jafnframt geta þess, að þar sem segir í nefndaráliti voru, að vér berum fram nokkuð fleiri breytingartillögur en minni hlutinn í neðri deild, þá er þar að eins átt við orðabreytingar til betra samræmis. Minni hlutinn í neðri deild hafði gleymt að setja sumstaðar »ríki« í stað »lands« í framhaldi af breytingunni á 1. gr., en úr því höfum vér nú bætt

Og svo vil eg hugga þá, sem hafa amast við gerðardóminum, með því, að með tilvitnuninni til 3. gr. er því væntanlega slegið föstu, að dómurinn að eins á að skera úr því, hvort mál sé sameiginlegt samkv. 3. gr. eða eigi.

Þá býst eg við, að háttv. þm. Kjósar og Gullbringusýslu og aðrir þeir, sem óttast hafa ákvæði 9. gr., geti aðhylst hana með breytingu minni hlutans, þar sem sagt er fullum fetum, að konungur skuli slíta sambandinu um öll þau mál, er sagt kynni að verða upp af annari hvorri hálfu. Og segi báðir aðilar upp, en annar fleiri málum en hinn, þá á konungur að fara eftir þeirri tillögunni, er lengra fer.

Þessar breytingartillögur, sem óhætt mun vera að segja um, að séu fáanlegar, sýna það fyrst og sanna, að minni hlutinn hefir skilið sambandslagafrumvarpið rétt. Og í annan stað sanna þær það alveg ugglaust, að Ísland yrði fullveðja ríki, ef frumvarpið gengi fram.

Og gæti um nokkra frekari áréttingu verið að ræða í þessu efni, þá áréttar stjórnarskrárfrumvarpið það, sem konungur fyrir sitt leyti hefir samþykt í ríkisráðinu og stjórnin lagði fyrir alþingi í þingbyrjun, þetta enn áþreifanlegar. Frumvarp þetta var sett í nefnd í neðri deild í þingbyrjun, en er ekki komið frá henni enn, og þó eru nú að eins fáir dagar til þinglausna. Á síðasta þingi þótti ekki mega bíða með að gera fremur ómerkilegar breytingar á stjórnarskránni eftir áliti sambandslaganefndarinnar, sem víst var um að leiða mundi til ýmsra breytinga á stjórnarskránni, en nú, þegar sambandsmálinu er fatað, má alt sitja við það, sem þá þótti ósætt við!

Nú hefi eg lýst þeim kjarakostum, sem frumvarpið býður fram: lögmæltu jafnræði við Danmörku út á við og fullkomið einræði inn á við og hvorttveggja án nokkurs kostnaðarauka. Að vísu eigum vér eftir frv. að leggja nokkur þúsund á konungsborð, en upp á móti því vegur það fyllilega, að borgunin fyrir strandgæzluna félli þá niður. Og skal eg nú reyna að sýna fram á, að staða landsins samkvæmt frumvarpi meiri hlutans yrði miklu verri en eftir frumvarpi millilandanefndarinnar.

Eftir frv. meiri hlutans má að 25 árum liðnum segja upp öllum sammálunum nema konungssambandinu. Hvor málsaðila um sig er jafnborinn til uppsagnar og uppsagnarfresturinn er ekki nema 1 ár. Danir eiga eftir því að geta sagt oss upp með 1 árs fresti öðrum eins málum og utanríkismálum, gæzlu fiskiveiðaréttar o. fl. Eg er hræddur um, að Íslendingar verði ekki miklu færari um að taka við öllum málum sinum eftir 25 ár en þeir eru nú, og að þeir þá mundu finna ónotalega til þess stórmikla gjaldaauka, sem leiða mundi af því, ef Danir segðu þeim alt í einu upp t. d. utanríkismálum og strandvörn. Og þó að það kynni að verða fjárhagslega kleift, þá er eg hræddur um, að 1 ár mundi reynast nokkuð stutt til að koma því öllu í kring. Og hvaðan ættum vér að taka menn í allri manneklunni til þess að berjast fyrir sjálfstæði landsins með vopnum, ef á það yrði ráðið? Þá dygði ekki orðaglamrið, sem svo mikið er til af meðal vor.

Vér gætum búist við að verða herfang þeirra, sem fyrst réttu út hendina eftir oss. Það er ekki svo að skilja, að eg geri mikið úr hervörn Dana, ef á landið væri ráðist. En eg legg mikið upp úr þeim siðferðislega stuðningi, sem vér höfum af að vera í sambandi við gamalt ríki, sem stórveldin mundu ekki líða að væri tekið herskildi. Lega Danmerkur ein út af fyrir sig er þannig löguð, að ekkert ríki mundi unna öðru að eignast hana. Vér minni hluta menn erum heldur ekki einir um þessa skoðun. Að minsta kosti einn meiri hluta maður, háttv. 1. þm. Skagf., lagði svo mikla áherzlu á þetta, að og bjóst satt að segja við, að hann mundi greiða atkv. með breytingum minni hlutans, eða að minsta kosti sitja hjá.

En að öllu þessu sleptu er annar ekki óverulegur hængur á frv. meiri hlutans, hængur, sem allir kannast við, sá, að það er með öllu ófáanlegt. Það vitum vér allir nú, eftir för forsetanna, og það vissum vér raunar mjög vel áður. Því að fulltrúar allra stjórnmálaflokka Dana lýstu því yfir í millilandanefndinni, að ekki gæti komið til mála, að hermál og utanríkismál væri uppsegjanleg, ef sami ætti að vera konungur landanna.

En til hvers er þá meiri hlutinn að veifa þessu frumvarpi, úr því það er vitanlega ófáanlegt? Jú, meiri hlutinn segir að það sé »stefnuskrá« flokksins. Flokkurinn segist þá ætla að keppa að því, sem er sýnu verra en það, sem nú er í boði, og sem hann játar sjálfur, að sé alveg ófáanlegt. Eg vil heldur kalla það dulu en stefnuskrá, dulu, sem veifa á framan í fólkið. Meiri hlutinn hefir heyrt getið um rauðu dulurnar, sem spænskir nautaatsmenn brúka til að æsa nautin með, og ætlar nú kanske að brúka þessa dulu til þess að æsa Íslendinga innbyrðis og á móti Dönum. En sé svo, vona eg að skýrum skjótist. Meiri hluti Íslendinga lætur naumast leika eins áþreifanlega á sig við næstu kosningar eins og 10. sept. f. á.

Íslenzku nefndarmönnunum hefir verið borið margt á brýn, og eitt er það, að þeir hafi rekið erindi sitt slælega. Nú hefir hæstv. ráðherra kannast við það, eftir utanför sína, að frekara væri ekki fáanlegt. Og má nú meiri hlutinn renna niður því góðgætinu, eins og mörgu öðru sem hann bar á borð fyrir nefndarmennina. — Hafi nokkrir slakað til í millilandanefndinni, þá voru það dönsku nefndarmennirnir, eins og allir geta sannfært sig um, sem nenna að lesa bláu bókina, og hana ætti hver hugsandi maður í landinu að hafa lesið. En það er nú öðru nær, því að eg hefi það fyrir satt, að sumir þeir menn, sem vitnað hafa mjög í bókina, hafi aldrei lesið hana, t. d. hefir einn hinna málugustu meiri hluta manna í neðri deild játað sjálfur, að hann hafi aldrei lesið hana. Og að minsta kosti annar maður til hefir talað svo innan þings og utan, seinast undir framsögu málsins í neðri deild á dögunum, sem hann hefði ekki litið í hana. — En hver maður sem vill spyrja að vopnaviðskiftum í nefndinni, getur séð það í bláu bókinni, að fyrsta frumvarp Dana, frv. frá 27. marz 1908, var ekki annað en uppsuða úr stöðulögunum. Annað frumv., er kom fram 7. apríl, var nokkru skárra, og seinasta frumv. þeirra, frumv. frá 14. apríl, var enn skárra. En frumv. okkar Íslendinga frá 18. apríl, er síðar varð að samningi með örfáum óverulegum breytingum, var þó miklu bezt. Vér fengum öllum aðalóskum vorum fullnægt. Danir könnuðust að vísu ekki við að skulda oss neitt að lögum, en greiddu þó skuldina, og vér tókum eðlilega við henni. Þá hefir meiri hlutinn fært það fram á móti frumvarpinu, að vér mundum verða ver staddir í baráttunni framvegis, ef vér tækjum frumvarpinu, en það alveg þveröfugt. Einn af hinum mörgu kostum frumvarpsins er meðal annars sá, að gangi það fram, er því ómótmælanlega slegið föstu, að vér erum réttir samningsaðilar. Vér eigum heimting á að fá Dani til viðtals aftur um endurskoðun á samningnum. Setjum nú svo, að endurskoðun leiddi ekki til nýs sáttmála. Þá mundum vér segja upp öllum uppsegjanlegu málunum, og Danir mistu þá jafnframt ýmsa hagsmuni, svo sem fæðingjarétt og landhelgisveiði. Hermálin og utanríkismálin yrðu þá ein eftir í höndum Dana, en upp úr rekstri þeirra mála fyrir vora hönd hafa Danir ekkert nema — bláberan kostnað. Þeir myndu því, er alt annað væri farið, líklega verða fegnir að sleppa oss alveg lausum, ef vér færum fram á það, bæði úr konungs-, hermála- og utanríkismálasambandi.

En hvernig stendur á því, að frumvarpinu er hafnað, þrátt fyrir alla kosti þess? Til þess liggja margar ástæður. Sú fyrst, að þjóðin er ekki nógu þroskuð, enda hefir hún ekki gefið annað fyrir frelsi sitt en orð, og oft æði innantóm; því kann hún heldur ekki að meta það. Því fer hún nú að ráði sínu eins og barn mundi gjöra, er boðið væri leirugt gull í annari hendi, en gyltur leir í hinni. Hún tekur gylta leirinn, frumvarp meirihlutans, en fúlsar við frumv. millilandanefndarinnar, gullinu, sem meiri hlutinn ataði í leir.

Tíminn, sem þjóðinni var veittur til umhugsunar, var líka bæði illa valinn og alt of stuttur, víða ekki nema 8 vikur, og þær úr aðalannatíma manna. Það mátti búast við því, að málið yrði gjört að æsingamáli, úr því að svo slysalega tókst til, að íslenzku nefndarmennina greindi á. Öfgarnar þurfa tíma til að hjaðna niður, eins og rykið á götunum þarf tíma til að setjast og forin tíma til að þorna.

En hvorugt hefði þó dugað hinum góða málstað til falls, ef ósvífnir menn og samvizkulausir hefðu ekki kynt eld tortryggninnar og annara illra hvata jafn ósleitulega og raun varð á. Hér var að ræða um hjartfólgið mál öllum almenningi, enda fór svo, að hjörtun réðu meiru en höfuðin. Góðir menn en áthugalitlir snerust unnvörpum í lið með æsingamönnunum.

Loks má geta þess, að frumvarpsmenn höguðu málsmeðferð sinni öðru vísi en sigurvænlegt var. Þeir reifðu málið rétt svo sem skylda þeirra var. En þeir gjörðu meira. Þeir tóku helzt til þvert fyrir breytingar, bæði eg og aðrir, ekki af því að þeir sæu ekki, að það var miður sigurvænleg aðferð, heldur af því einu, að þeir vildu segja satt. Þeir vissu, að ekki var efnisbreytinga von, og vildu því ekki vekja tálvonir hjá kjósendum. Þeir treystu um of á hinn góða málstað og glöggsýni kjósenda.

Og þó var það fyrirsjáanlegt fyrir lifandi löngu, að svona mundi fara. Eg þóttist t. d. sjá, hvert stefndi, þegar blaðamannaávarpið birtist, og get í því skyni vitnað í grein í »Rvík« 29. desbr.

1906, sem heitir: »Hingað og ekki lengra«, og svo til orðakasts okkar þm. N.-Ísf. um sambandslaganefndina á þingi 1907 í umræðunum um stjórnarskrármálið, þar sem íslenzka blaðamarkaðinum er líkt við uppboð. Það var þá þegar bert, að farið var að vinna móti því, að nokkur árangur yrði af þingmannaförinni 1906.

Fyrst var reynt að spilla því með öllu móti, að hún yrði farin. Ísafold óttaðist að eitthvað gott mundi leiða af henni og smánaði hana þess vegna sem mest hún mátti. En er ekki lánaðist að ónýta förina og heldur ekki spilla góðu samkomulagi þingmannanna, sneri Ísafold við blaðinu og þakkaði sér og sínum mönnum (!) árangur fararinnar. En við svo búið mátti ómögulega lengi standa. Það leit út fyrir að Íslendingar ætluðu að verða sammála og hafa sitt hjá Dönum með því móti. En það mátti umfram alt ekki ske. Þá var Þjóðræðisflokkurinn í voða. Því varð eitthvað til bragðs að taka. Og sjá! Því var blaðamannaávarpið sæla fundið upp. Það fór einkum því fram, að Danir hjálpuðu oss til að taka ríkisráðsákvæðið út úr stjórnarskránni. Það var viðbúið, að Heimastjórnarflokkurinn vildi ekki fara að leggja stjórnarskrárbreytingar undir Dani, og að ávarpið því mundi gjöra upp á milli flokkanna aftur, enda fór svo.

En það dofnaði fljótt yfir ávarpinu, og því þurfti að finna nýtt ráð. Og sjá, tækifærið kom upp í hendurnar á Ísafold og hennar liðum. Millilandanefndin var í aðsigi. Það var reynt að ónýta setning hennar á allar lundir. Og þegar það lánaðist ekki, var reynt að eitra fyrir hana innanlands og utan á allar lundir, til þess að enginn skyldi verða árangur af starfi hennar. Íslenzku nefndarmennirnir voru tortrygðir á allar lundir innanlands. Og Danir voru svívirtir og smánaðir meira en dæmi eru til. út af örkinni

Þingvallafundinum var hleypt á stað með bumbuslætti og básúnum. Hann var skýrður »þjóðfundur« og látinn samþykkja kröfur, sem voru svo fráleitar, að óhugsandi var fyrirfram að þær gengju nokkru sinni fram.

Og þegar svo millilandanefndin þrátt fyrir alt og alt, þar á meðal mjög svo ískyggilega kúvendingu eins íslenzka nefndarmannsins, komst að mjög svo heppilegri samningsniðurstöðu, þá var öllum illum öndum sigað út af örkinni til að ónýta frumvarpið. Landið huldist moldviðri taumlausra blekkinga og rangfærsla. Frumvarpið, sem leysir þjóðina á höndum og fótum, var kallað »innlimun«, »Gleipnir hinn nýi« o. s.frv. Nú var það ástand, sem alt til þessa hafði verið talið hin argasta innlimun og þótt allsóhafandi, alt í einu gott og blessað og hafði þó í engu breyzt.

Með þessum ósköpum, sem nú líkjast illum draum, tókst að spilla hinu góða máli, svo að það er nú ekki að eins ónýtt í bráðina, heldur líklega í bráð og lengd.

Vér áttum og eigum enda enn kost á frumvarpinu, af því vér höfðum eignast ekki að eins samhygð Dana, heldur og annara þjóða. Alt var ágætlega í garðinn búið. Þingmannaförin 1906 og konungsheimsóknin 1907 höfðu lánast vel og aflað oss álits og góðvildar annara. En nú er þessu öllu innan stundar spilt, bæði áliti voru og góðum horfum vors mesta máls. Í næsta mánuði fara fram nýjar kosningar í Danmörku, og hvernig sem þær fara að öðru leyti, má telja alveg víst, að hinir nýkosnu þingmenn telji sér ekki skylt að standa við boð hins fyrra þings, eftir þeirri meðferð, sem bæði það, dönsk stjórnarvöld og Danir yfirleitt hafa orðið fyrir af vorri hendi.

Eg þykist raunar vita, að íslenzka þjóðin vakni, og að sú víma, sem á hana rann í september, renni af henni aftur, og þá mun jafnframt vakna eftirsjá eftir frumvarpi því, sem nú er hafnað, en þá ekki verður kostur á að fá. Og eg tel víst, að afturslagið sé byrjað. Það sýna meðal annars þakkarkveðjumar til H. Hafstein, ekki sízt kveðja Reykvíkinga. Og það skal sannast, að um það leyti, sem sú 6 ára betrunarhússvinna, sem meiri hlutanum hepnaðist að hneppa þjóðina í 10. sept. f á. endar, verður runnin mesta gyllingin af sumum af þeim görpum, sem hæst hafa talað á móti frumvarpinu, sem ekki var séreign Heimastjórnarflokksins, þar sem 2 af helztu mönnum Þjóðræðisflokksins höfðu unnið að því eins og við hinir.

En nú er svo komið sem komið er. Og engin bót að sakast um orðinn hlut. Þetta kjörtímabil líður líka. Og Heimastjórnarflokkurinn þykist ekki þurfa að skammast sín fyrir kjörtímabilið, sem nú er liðið.

Á þeim 6 árum, sem nú eru liðin, var stjórnin flutt inn í landið, sett lög um ábyrgð ráðherra, landsdómur stofnaður og lagaskóli reistur. Og þannig fullnægt hinum elztu og helztu kröfum þjóðarinnar. Á þessum sömu árum varð til hið mesta mannvirki, sem á Íslandi hefir verið unnið: ritsíminn og talsíminn, sem hverju mannsbarninu nú þykir vænt um, en einu sinni átti litlum vinsældum að fagna hjá núverandi meiri hluta. Auk þessara stórmála mætti minna á mörg mjög mikilsverð mál, svo sem stofnun geðveikrahælisins, ýmsa sjóði svo sem byggingarsjóð, fiskiveiðasjóð, byggingu safnahússins, fornmenjalögin og fræðslumálin. Sum af þessum málum hafa andstæðingar Heimastjórnarflokksins stutt, svo sem háttv. 6. kgk. þm. fræðslumálin, en flest af þessum málum, og einkum hin stærstu, hefir Heimastjórnarflokkurinn borið fram til sigurs gegn megnum andróðri andstæðingaflokksins. Þetta komst hann og lengra þó, því að honum lánaðist með hjálp góðra manna utan flokks að flytja þjóðinni heim í hlaðið það hnossið, er hún hefir lengst og heitast þráð og vandsóttast hefir verið hingað til, viðurkenningu landsréttinda hennar í góðum búningi, þar sem er frumvarp millilandanefndarinnar og svo stjórnarskrárfrumvarp hinnar frá förnu stjórnar. En lengra en í hlaðið komst hnossið heldur ekki. Þar greip meiri hlutinn fram í sem kunnugt er. En alt um það munu þessar vörður, sem Heimastjórnarflokkurinn hefir reist síðastliðin 6 ár, ekki strax fenna í kaf. Og þó eg sé ekki spámaður, þá ætla eg nú samt að spá því, að nafnið Hannes Hafstein muni þola samanburð við nafnið Björn Jónsson um það er næstu 6 ár eru á enda.

Um leið og eg nú fyrir hönd minni hlutans legg sambandslagafrumvarpið með fáanlegum skýringarviðaukum fram í formi breytingartillagna við frumvarp meiri hlutans, get eg þess, að minni hlutinn mun hve nær sem málið kynni að verða tekið upp aftur í alvöru fús á að taka öllum breytingum, sem til bóta kynni að horfa á frumv. og kostur væri á að fá. En minni hlutinn mun aldrei stofna málinu í hættu, og því ekki ganga að öðrum breytingum á frumvarpinu en þeim, sem hann veit að eru fáanlegar. Frumvarp meiri hlutans er allsendis ófáanlegt, eins og meiri hlutinn sjálfur kannast við, og því er hér í rauninni leikinn skollaleikur, leikur, sem minni hlutinn ekki vill taka þátt í. Hins vegar óskar minni hlutinn nafnakalls um allar breytingartillögur sínar við frumvarp meiri hlutans, svo að nöfn þeirra sjáist svart á hvítu, sem tóku á sig þá ábyrgð, að drepa sambandslagafrumvarpið grein fyrir grein.