01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Hannes Hafstein:

Eg hefi leyft mér að koma fram með nokkrar breyt.till. fáar og smáar, á þgskj. 407 og 408. Þrjár fyrstu till. á þgskj. 407 eru að eins orðabreytingar, til þess að leiðrétta aftur heiti á ýmsum tekjugreinum landssjóðs, sem eftir frumkvæði fjárlaganefndar er búið að aflaga svo við aðra umr. hér í deildinni, að ekki virðist mega við sæma. Væri þessi heiti látin standa eins og fjárlaganefndin hefir gengið frá þeim, þá yrði eftirleiðis að nefna »fiski- og lýsistoll« af t. d. sundmaga, hrognum, hvalskíðum eða beinamjöli, »tetoll« af brjóstsykri, súkkulaði o. s. frv. og »póstferðatekjur« af sölu frímerkja til útlanda. Þetta ætti að halda áfram að heita útflutningsgjald, annað aðflutningsgjald og pósttekjur, og heyrðist mér á framsm. (Sk. Th.) að hann sansaðist á það.

Þá legg eg til, að athugasemdir um skilyrðin fyrir gufuskipastyrknum falli burt. Þar er talað um bygging tveggja nýrra skipa, sem alls ekki stendur til boða, og virpist ekki viðkunnanlegt að vera að samþykkja hér hvað eftir annað ákvæði, sem ekki geta staðið í lögunum, enda nógur tími að setja athugasemd við gufuskipaferðirnar þegar sést hvað verður úr því máli, hvort þingið lætur landið ganga inn í Thore-félagið eða gera samninga um gufuskipaferðir, eins og að undanförnu.

Aftur á móti álít eg sjálfsagt að taka upp aftur athugasemdina við 13. gr. D. 1, viðvíkjandi greiðslunni til Mikla Norræna, og hefir sú aths. fallið burt, líklega af ógáti við tilraun fjárlaganefndarinnar til þess að flytja allar athugasemdir aftur fyrir, sem mistókst. Hér eru ákvarðanir eða upplýsingar, sem ekki mega missa sig, svo sem það, að hér sé ekki um einstæða fjárveiting að ræða, heldur umsamdar ársgreiðslur um 20 ár, frá 25. ágúst 1906 að telja.

Þá hef eg enn leyft mér að fara fram á hækkun á fé til aukakennslu við við lagaskólann. Það er, eins og eg tók fram við 2. umr., ekki unt að komast af með þær 800 kr., sem fjárlaganefndin vill skamta úr hnefa, þar sem aðsóknin að skólanum hefir orðið eins og hún er, en eg hef þó í þetta sinn að eins farið fram á 1600 kr., ef deildinni skyldi þykja aðgengilegra að klípa þó 200 kr. af tillögu stjórnarfrumvarpsins.

Þá hef eg farið fram á, að í stað fjárveitingarinnar til skrifstofukostnaðar umsjónarmanns fræðslumálanna, sem felt var við 2. umræðu, sé tekin upp lítil 500 kr. fjárveiting til aðstoðar við samning skýrslna um alþýðufræðslu og þar að lútandi skrifstofustörf. Þessi tillaga getur naumast með réttu talist »afturganga«, og öllum, sem þekkja starf það, sem hér er um að ræða, hlýtur að vera það ljóst, að umsjónarmaðurinn getur undir engum kringumstæðum annað því aðstoðarlaust, auk allra daglegra eftirlitsstarfa sinna, bréfaskrifta út um alla hreppa landsins, og og undirbúnings reglugerða m. m„ að semja einnig og undirbúa viðunanlega kenslu-statistik, sem er nauðsynlegt fyrir löggjafarvaldið og stjórnina að fá.

Seinasta breyt.till. mín á þgskj. 407 er sú, að skáldinu Guðmundi Friðjónssyni á Sandi verði veittur styrkur, 600 kr. á ári. — Við 2. umr. var hækkaður styrkur til sumra skálda og nýj um bætt við og skal eg ekki að því finna. En fyrst svo er komið, fæ eg ekki séð, að neinn jöfnuður sé í því, að ganga fram hjá þessum manni, íslenzkasta skáldinu síðan Bólu-Hjálmar leið. Allir vita, að hann hefir hina ágætustu skáldhæfileika, og hefir ritað ljóð og bækur, sem standa munu óbrotgjörn í Bragatúni. En hinsvegar er það og alkunnugf, að hagir hans eru ekki þannig, að ætlandi sé til þess, að hann geti gefið sig við list sinni, því að hann er fátækur einyrki, sem vetur og sumar verður að vinna hörðum höndum fyrir búi sínu og fjölskyldu. Það hefir verið sagt, að hann væri ánægður, ef hann gæti fengið vetrarmann til aðstoðar við útiverk og skepnuhirðing á vetrum, til þess að geta þannig fengið nokkurn tíma til ritstarfa, og er ekki til mikils mælst. Þessi litla fjárveiting, sem eg hefi farið fram á honum til handa, er naumast meiri en svo, að hún hrökkvi til vetrarmanns, eða þá í hæsta lagi til vinnumanns árið um í kring, og skil eg ekki, hvernig hægt væri að forsvara fjárveitingar þær til annara skálda, sem nú standa í fjárlagafrumvarpinu, en fella þessa.

Eg er þakklátur háttv. þm. Mýr. (J. S.) fyrir till. hans um styrkhækkun til Guðm. skálds Magnússonar. Ástæðan fyrir því, að eigi var í stjórnarfrumvarpinu stungið upp á hærri styrk til hans var að eins sú, að stjórnarráðið miðaði þar við aðrar upphæðir, sem eru í frumv. og gildandi fjárlögum. En þegar búið er að færa upp styrkinn til Þ. Erlingssonar, E. Hjörleifssonar o. fl., eins og gert hefir verið, virðist ekkert réttlæti í því, að hækka ekki jafnframt styrkinn til G. Magnússonar. Hann er í hinni mestu framför, og vinnur með mestu elju og dugnaði að skáldsagnasmíð sinni, þrátt fyrir það, að hann mestan daginn er bundinn við iðn sína til að vinna fyrir lífinu. Nýútkomið er smásögusafn eftir hann, og nýja bók er verið að prenta á Akureyri og fleiri verk eru í vændum. Hann á því fremur flestum hinum rétt til þess að hann sé studdur. Eg vona fastlega, að háttv. deild samþykki till. þm. Mýr. (J. S.) í þessa átt.

Mér kom á óvart að sjá till. fjárlaganefndarinnar um að fella nú burt fjárveitinguna til Eyjafjarðarbrautarinnar, sem búið var að samþykkja við 2. umr. En eftir því, sem háttv. frsm. (Sk. Th.) við ýms tækifæri hefir látið skilja á sér um mismunandi verðleika hinna ýmsu héraða og ásetning hins nýja meirihluta því viðvíkjandi, fer eg að skynja, að hér muni svipað á seiði eins og um Rangárbrúna, Vestmanneyjasímann o. s. frv. og býst eg því ekki við, að hér muni koma fyrir mikið að beita röksemdum eða færa ástæður fyrir nauðsyn fyrirtækisins. Eg mun því ekki þreyta þingdeildina á því að sakast um það, sem eg þykist vita, að þegar má skoða sem orðinn hlut — fasta flokkssamþykt, það því síður, sem hv. samþingismaður minn (St. St.) hefir skýrt frá því nauðsynlega um þetta efni, sem líka er flestum háttv. þingdeildarmönnum fullkunnugt.