01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Umboðsmaður ráðherra (Klemens Jónsson):

Það eru að eins fáar og örstuttar athugasemdir, er eg ætla að koma með.

Háttv. framsm. (Sk. Th). gat þess út úr orðum mínum, að eigi ósjaldan hefðu komið skjöl til þingsins án álits stjórnarráðsins. Þetta er svo, en þá hefir ástæðan verið sú, að stjórnin hefir eigi fundið ástæðu til þess að mæla með erindinu. Álitsleysið hefir því í rauninni þýtt hið sama sem að stjórnin væri eigi sinnandi málinu, en viljað láta það alveg í sjálfsvald þingsins, hvern framgang erindið hefði.

Þá var háttv. framsm. (Sk. Th.) æði fjölorður um Guðm. Hávarðsson. Eg held í rauninni, að það sé enginn velgerningur við þann mann, að draga hann svo mikið fram, er hann má sjálfum sér um kenna. Eg þekki hann talsvert persónulega, því hann átti lengi heima á Akureyri, meðan eg var þar. Hann hefir víða verið, en alstaðar átt örðugt uppdráttar, og er þó ómagalaus maður. Kemur þetta af því, að hann er ekki að sama skapi hagsýnn maður sem hann er starfsmaður. Hans örðugu kringumstæður nú stafa alls eigi af stauraflutningnum heldur eru þær miklu eldri. Hann varð strax að fá útborgun fyrirfram, sem hann lét ganga upp í eldri skuldir, og hann varð að fara hingað suður í miðju verki, til þess að greiða úr víxlavandræðum sínum.

Að staurarnir hafi ekki verið komnir í Borgarnes fyr en í maí, er alveg ósatt, en nokkuð af staurunum var skipað upp í Höfn og fékk Guðmundur aukaborgun fyrir flutning á þeim; sú borgun var 1000 kr., og var það gífurlega hátt, enda líka borgað svo vel, af því hann kvartaði undan, að hann yrði hart úti á öðrum flutningi. Á þessum stauraflutningi frá Höfn græddi hann mikið, að því er hann sagði mér sjálfur frá. Mér er því óskiljanlegt, hvernig Guðmundur hefir getað farið að skrifa þinginu eins öfgafult bréf og hann hefir gert, því nú hefi eg fengið að sjá það, þó hann hafi ekki haft fyrir því að senda mér það.

Háttv. framsm. fjárlaganna (Sk. Th.) gat þess að sumir menn væru svo þekkingarlausir og ístöðulitlir, að þeir fyrir fortölur manna og þýðlegt viðtal létu leiðast til að skrifa undir það, er þeim væri til stórskaða, og sem þeir síðar meir dauðsæju eftir að hafa gert, og það mætti leiða þá í gildru með fögrum ummælum, svo sem með því, að segja við þá eitthvað á þessa leið: »Þetta mun alt blessast vel, það er engin hætta á ferðum, getur orðið stórgróði með hjálp hamingjunnar«. En þó þetta sé rétt í mörgum tilfellum þá er því ekki svo varið í þetta sinn, því hvorki eg né skrifstofustjórinn á 2. skrifstofu, sem aðallega sömdum við Guðmund, höfum á nokkurn hátt tælt hann til að taka verkið að sér, eða enda lagt að honum með það, og fullnaðarkvittun, sem eg hefi hér í höndunum, gaf hann eins og sjálfsagt var, þá er hann hafði fengið umsamda borgun, alveg ótilneyddur; átti hann þá eftir að vinna talsvert, sem hann skuldbatt sig til að inna síðar af hendi, sem hann líka gerði. Svona vel fór stjórnin með þennan mann, með persónulegri áhættu. Það er því síður en svo, að Guðmundur hafi ástæðu til að kvarta.

Ummælum hins háttv. framsm. (Sk. Th.) um Eyjafjarðarbrautina, vil eg leyfa mér að mótmæla. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H). hafði minst á þetta atriði, og út af orðum hans fann háttv. framsm. ástæðu til að segja, að áætlanir verkfræðingsins væri alveg eftir því sem stjórnin vildi vera láta. Hann sagði, að verkfræðingurinn væri furðu minnugur á þau kjördæmin, sem fylgdu stjórninni að málum, en honum hætti aftur við að gleyma hinum.

En mér er ekki kunnugt um, að stjórnarráðið hafi nokkurntíma lagt fyrir verkfræðinginn, hvernig áætlunum hans skyldi hagað. Það er alkunnugt, að fyrir nokkrum árum var stjórninni fundið það til foráttu, að öll slík »plön« eða áætlanir vantaði. Fjárlaganefnd hafði kvartað yfir því, að hún gæti ekki fjallað neitt um samgöngur landsins eða lagt fé til þeirra, á meðan ekki lægju fyrir slíkar áætlanir. Þegar svo nýja stjórnin var komin (1904), þá var það eitt af fyrstu verkum hennar að láta verkfræðing Jón Þorláksson gera slíkar áætlanir, án þess í nokkru að leggja neinar kvaðir á starfa hans, heldur skyldi hann gera þetta frá sínu eigin brjósti.

Hinn háttv. framsm. tók sínu máli til sönnunar sem dæmi, að Múlasýslur hefðu notið hlunninda í þessu efni — af því að þær hefðu verið stjórnar megin. En það er þó kunnugt, að á þessum tíma voru 3 af 4 þingmönnum þessara sýslna einmitt á móti stjórninni. Ástæðan gat því ekki verið sú, að þær væru stjórnarmegin.

Mér skildist á háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) er hann talaði um Eyjafjarðarbrautina, að mótspyrnan gegn þessari braut mundi stafa af því, að of snemma hefði verið byrjað á henni, og ætti hún því ekki að sitja fyrir öðru, sem byrjað hefði verið á síðar.

En af því að eg átti aðalupptökin að þessu verki, þegar eg var hér á þingi, þá vil eg ítreka það — því að eg hefi áður margoft lýst yfir hinu sama — að þessi skoðun er ekki á rökum bygð. Það sést líka bezt á umferðinni á því svæði, bæði af vögnum og kerrum; það sést líka af þeim notum, sem Eyfirðingar hafa yfirleitt af brautinni, að þetta fyrirtæki hefir ekki verið óþarft. Það hefir verið fylsta þörf á brautinni, ekki síður fyrir það, þótt annarsstaðar kunni einnig að vera brýn þörf í líka átt. Eg vona því, að háttv. þingdm. sjái nú jafnmikla ástæðu til að brautinni verði haldið áfram, eins fyrir því, þótt byrjað hafi verið á henni fyrir 10 árum, og láti þá ástæðu ekki hindra sig frá að greiða þessu máli atkvæði sitt.

Þá vil eg minnast lítið eitt á það, sem sagt hefir verið hér um séra Runólf Runólfsson.

Það hefir verið sagt hér í deildinni nokkuð í þessu efni, sem eg hefi ekki heyrt áður: að sanngjarnt væri að veita Runólfi Runólfssyni nokkurn styrk, af því að fyrverandi biskup hefði gefið honum von fyrir brauði, Gufudal eða öðru, en svo hefði það brugðist. Eg get nú að vísu ekki um þetta borið, mér er það með öllu ókunnugt, en hitt þykist eg mega fullyrða, að mjög litlar líkur séu til, að þessu sé í rauninni þannig varið, með því að stjórnin hefir í samræmi við það sem Nellemann ráðherra fyrir mörgum árum (1882) hefir haldið fram, neitað að taka gilda prestsvígslu, er fram hefði farið í Ameríku. Og núverandi biskup hefir einnig neitað að vígja hann upp aptur.

Ef nú stjórnin heldur enn fram þessum skilningi, sem sjálfsagt virðist, og biskup landsins heldur fram neitun sinni að vígja manninn aftur, og það hefir hann fullyrt við mig, þá er þar með útilokað, að þessi maður geti fengið veitingu fyrir brauði hér.

Skal eg svo ekki fara um þetta frekari orðum, en taldi mér skylt að gefa þessar upplýsingar út at orðum háttv. framsögumanns.