01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Sigurður Gunnarsson:

Eg hefi nú hvorki margar né feitar breyt.till. fram að bera. Það er fyrst viðaukatill. (þgskj. 392), er að eins fer fram á lánsheimild til Neshrepps utan Ennis; upphæðin er ekki há, að eins 8500 kr. Og þessu fé er ætlast til að verði varið til að gera Krossavík á Hjallasandi að mótorbátakví.

Eg skýrði þetta mál við 2. umr., allítarlega að mér virtist, og gat þá um undirbúning málsins og benti einnig á fyrirliggjandi skjöl, þar sem er áætlun verkfræðings Þorv. Krabbes. Eg skýrði enn fremur hvílíka nauðsyn bæri til að gera endurbót einmitt á þessum stað, lendingin er þar erfið og viðsjál og hefir orðið þess valdandi, að fjöldi manna hefir farið í sjóinn.

Eg benti á, hve þýðingarmikið þetta væri, þar sem bæði er á þessum stöðvum gott fiskiver, verstöðin góð í sjálfu sér, þrátt fyrir hætturnar.

Eg þykist vita, að allir sanngjarnir menn álíti þessa lánsheimild standa framarlega á hinni löngu lánsheimildaskrá, er nú liggur hér fyrir.

Að öðru leyti þarf eg ekki að tala frekar um þetta mál, en eg hefi þegar gert við 2. umr., enda hefir hv. frsm. fjárlaganefndar (Sk. Th.) tekið því vel og fjárlaganefndin í heild sinni líka. Og kann eg henni miklar þakkir fyrir.

Þá hefi eg leyft mér að koma fram með 2 br.till. við 13. og 5. gr. Upphæðin sem þær fara fram á, nemur alls 1000 kr. (700 + 300).

Br.till. við 13. gr. er þess efnis, að fé það sem ætlað er póstafgreiðslumönnum utan Reykjavíkur sé hækkað úr 18300 kr. upp í 19000 kr. Ástæðan til þessa er sú, að hér hagar svo til, eftir því sem kunnugir menn hafa sagt mér, þar á meðal fyrv. hæstv. ráðh., að til póstmála er ekki veitt fé nema af skornum skamti. Þyrfti því viðbót við það fé, þótt ekki væri stofnaðar nema 1, 2 eða 3 póstafgreiðslur úti um landið. Og það munar í rauninni ekki miklu, þótt 1—300 kr. færu á hvern slíkan stað.

Í Ólafsvík hefir um langan tíma að eins verið bréfhirðing, en eftir því sem póstflutningar aukast í kaupstöðum, verður eðlilega meira að gera og um leið meiri þörf á reglulegri póstafgreiðslu. Enda er það almennur vilji manna þar, að svo verði. Ástæðan til þess, að eg hefi ekki borið þetta fram fyr en nú, er sú, að ósk manna um þetta kom mér ekki í hendur fyr en rétt fyrir skömmu.

Þá er eg flutnm. að viðaukatill. við 5. gr. fjárlaganna, er fer fram á, að prestinum í Staðarstaðaprestakalli sé heimilt að verja árgjaldinu — 300 kr. hvort árið, til viðreisnar kirkjujörðum prestakallsins eftir nánari ákvæðum stjórnarráðsins. Till. kemur nokkuð seint fram, og bið eg afsökunar á því, en ástæðan er sú, að tilmælin um þetta komu fyrir skömmu í mínar hendur.

Eg býst við að ýmsum þm. hafi ekki gefist kostur á að kynna sér, hvernig hlutaðeigandi prestur hefir varið árgjaldinu að undanförnu, og hef því til vonar og vara fengið lánaða skýrslu um það hjá stjórnarráðinu. — Á þessari skýrslu vona eg að hv. þm. sjái, að fénu hefir verið mjög vel varið að undanförnu og að mjög mikið hefir verið gert fyrir ekki meiri peninga. Mér er það ljóst, að svona fé er ekki sleppandi við alla, en í þessu tilfelli er það óhætt, því presturinn sem hér á í hlut, er áreiðanlegur og hygginn maður í alla staði og hefir þegar komið á mjög miklum umbótum á kirkjujörðunum, einkum húsabótum, og kirkjujörðina sem hann býr á, prestssetrið sjálft, hefir hann bætt mjög, sérstaklega að húsum og túngirðingum fyrir eigið fé. Þingið má því ekki líta svo á þetta mál, að það sé viðurkenning til sóknarprestsins, að féð verði veitt, því það er ekki rétt; hann græðir ekkert á því; hér er að eins um það að ræða, hvort þinginu sýnist ekki heppilegt að verja fénu þannig að prestinum sé falið að hafa umráð þess, og verja því í ofangreindu skyni, og ætti þá prestssetrið sjálft einnig að koma til greina. Þetta er í rauninni ekkert annað en að styrkja landbúnaðinn, og það á mjög skynsamlegan og tryggan hátt.

Eins og allir háttv. þm. sjá, liggja mjög margar breyt.till. fyrir við þessa umr., og það væri óðs manns æði að ætla sér að tala um þær allar, og og mun eg því að eins minnast á fáeinar þeirra.

Eg get þá strax lýst því yfir, að eg mun í mörgum greinum fylgja till. fjárlaganefndar, þótt eg geti ekki fallist á þær að öllu leyti. Eg minnist þess hér um daginn í deildinni, að háttv. 1. þm. Rvk (J. Þ.) virtist ráða það af ýmsum teiknum, að sá gamli væri farinn að hafa furðumikil áhrif á þm. Snæfellinga. Eg skal nú ekkert um þetta þrátta við þm. — enda tek eg orð hans tremur sem spaugi en alvöru; en sé svo, sem hann segir, þá er eg hræddur um, að myrkrahöfðinginn sé nú búinn að hafa bústaðaskifti og hafi ekki þurft að seilast langt til með nýja bústaðinn. Þetta ræð eg eins og þm. af ýmsum teiknum, og þá ekki sízt af breyt.till. þessa sama kæra sessunautar míns. Eg veit að þm. gengur að eins gott til, er hann leggur til að skera alla símana niður, það er sparnaðartilfinningin, sem ráðið hefir og tekið þm. slíkum heljartökum, að hann verður þetta harður á fyrsta sprettinum, en hann hefir líka auðsjáanlega oftekið sig þar, og úthaldið er ekki orðið að sama skapi og byrjunin, því allar sparnaðartill. þm. hafa farið á ringulreið, þegar fram í sótti; hann stendur hvorki meira né minna en á 11 þgskj. með breyt.till., sem allar fara í þá áttina að auka útgjöld landssjóðs. Eg vil leyfa mér að benda mínum heiðraða sessunaut 1. þm. Rvk (J. Þ.) á þetta. Eg get ekki felt mig við að nauðsynjafyrirtæki, eins og t. d. símalagningar séu skorin niður, til þess að hægt sé að koma með breyt.till. um að eyða því fé, sem við það sparast, í ýmislegt annað óþarfara. Þótt þarft kynni að vera í sjálfu sér.

Eg skal ekki mæla á móti því, að lán sé tekið til símalagninganna, útgjöldin verða þau sömu í raun og veru; munurinn er að eins sá, að þau skiftast á fleiri ár, ef lán er tekið. En hvað sem lántöku líður, þá getur auðsjáanlega ekkert vit verið í því, að skera alla síma niður í þetta skifti. Úr því búið er að leggja síma um flest héruð landsins, þá verður símaleysið sífelt tilfinnanlegra fyrir þau héruð, sem út undan eru, en borga þó fyrir símana, sem þegar eru lagðir jafnt og þau héruðin, er þeirra njóta.

Eg verð því sterklega að mæla móti því, að till. háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) verði samþ., um það að fella niður Borgarness-Stykkishólms-símann. En verði það engu að síður gert, vil eg halda því fram að lán verði tekið til þess að fullkomna og stækka símakerfi landsins.

Það hefir verið deilt um mann hér í háttv. deild, sem eg reyndar þekki ekki persónulega. Maður þessi er sr. Runólfur Runólfsson. Það liggur fyrir till., sem fer fram á, að honum séu veittar 200 kr. árlega úr landssjóði á meðan hann fær ekkert fast starf. — Hvað till. þessa snertir, þá verð eg að taka undir með háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) að mér þykir ekki viðeigandi að hann sé settur á laun með uppgjafaprestum landsins. En hinsvegar verð eg að játa, að mér þótti háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. ó.) fara óþarflega þungum og fyrirlitlegum orðum um manninn, eg held að hann hafi ekki athugað, að einmitt þessi maður (sr. Run. Runólfsson) virðist hafa nýlega verið ekki lítils metinn af þeim manni, er eg veit að hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) metur hvað mest allra manna (H. Hafstein). Hefði þm. vitað þetta, mundi hann hafa talað gætilegar um sr. Runólf, og ekki haft slík særandi ummæli um fjarverandi mann, er ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér. Á milli mín og háttv. þm. er enginn ágreiningur um styrkinn, heldur ummælin.

Eg ætla ekki að fara lengra út í það að minnast á einstakar till. Eg get að eins getið þess, að eg mun styðja flesta skólana með atkv. mínu. Að öðru leyti vil eg ekki lengja umr., en læt atkv. mitt skera úr því, hvernig eg lít á hinar mörgu till., sem hér liggja fyrir, en dreg enga dul á það, að eg mun greiða atkvæði gegn öllum fjölda þeirra.