01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Þorleifur Jónsson :

Eg er hér ásamt öðrum þm. riðinn við breyt.till., sem fer fram á að hækka tillagið til Flensborgarskólans upp í 7000 kr. á ári. Það var sýnt fram á það við 2. umr, að skólinn yrði að hætta, ef hann ekki fengi hið umbeðna fé, og er eg sannfærður um, að það er rétt sagt. Stjórn skólans hefir sent skýrslu, sem sýnir hve mikið fé skólinn þarf til þess að launa kennara, afborga lán o. fl. og það er ekki hægt að neita því að skýrslan sé rétt og á rökum byggð, og skólinn verður því að fá þetta fé, og þess vegna hefi eg borið þessa br.till. fram, með því að eg get ekki litið öðru vísi á en það sé afaróheppilegt, ef skólinn gæti ekki haldið áfram að starfa. Það hafa heyrst raddir um það hér í deildinni, að ónauðsynlegt og óheppilegt væri að styrkja 2 skóla hvorn við hliðina á öðrum, er kendu hið sama og stefndu að sama takmarki, og að það væri tilfellið með neðri bekki hins almenna mentaskóla og Flensborgarskólann. Eg verð að líta svo á, að þetta sé ekki rétt álitið. Gagnfræðadeild mentaskólans er þannig hagað, að hún verður aðallega þeim að gagni, sem ganga í gegnum lærdómsdeildina, en hún er ekki fyrir þá, sem að eins vilja og eiga kost á að afla sér lítilfjörlegrar mentunar. Fyrir þá menn er Flensborgarskólinn hentugri.

Reynslan hefir líka sýnt að svo er. Aðsóknin að Flensborgarskólanum hefir verið mikil og engin líkindi eru til þess, að hún fari minkandi, því kenslukraftarnir eru góðir og skólinn vinsæll. Það er því rangt að skera þessa fjárveitingu til skólans niður. Flensborgarskólinn er líka miklu ódýrari fyrir nemendur, heldur en bæði Akureyrarskólinn og gagnfræðadeild mentaskólans og veldur því margt. Skólatíminn er styttri en beggja hinna skólanna og er það heppilegt fyrir þá menn, sem aðeins hafa úr litlum tíma að spila, þeir geta þá notað sumarið til vinnu og þannig spilað upp á eigin spýtur. Eg álít annars óþarft að mæla langt mál með fjárveitingu þessari, skólinn mælir bezt með sér sjálfur hjá öllum, sem til hans þekkja og háttv. framsm. fjárlaganefndarinnar (Sk. Th.) tók einnig vel í þessa málaleitun. Eg vona því að breyt.till. fái góðan byr hér í háttv. deild og nái að ganga fram. Í sambandi við þetta vil eg lýsa yfir því, að breyt.till á þgskj. 420, sem fer í ömu átt og þessi verður tekin aftur.

Um aðrar breyt.till. sem liggja fyrir háttv. þingd. við þessa umr. skal eg ekki vera fjölorður, eg mun yfirleitt hallast að því að greiða atkv. með þeim, sem draga úr útgiöldunum. eg álít að fjárhagurinn sé þannig, að ekki sé rétt að auka tekjuhallann; álít yfirleitt mjög óheppilegt, ef fjárlögin þurfa að fara frá þinginu með geysimiklum tekjuhalla. — Eg vil taka það fram, að mér ekki ljúft að þurfa að kvarna af því fé, sem um er beðið, og sem full þörf er á að veita í mörgum tilfellum, en þegar eins er ástatt og nú með fjárhaginn, álít eg samt að ekki sé unt að fara öðruvísi að.

Það hefir verið mikið talað um það af háttv. þm. Dal. (B. J.), hvað litlu fé sé varið til þess að styrkja listir og vísindi. Eg held nú að við getum naumast styrkt þessar greinir miklu meira en gert er, hversu nauðsynlegar, sem þær kunna að vera; það er svo margt sem að kallar og veita verður fé til, sem alveg er bráðnauðsynlegt, og þessvegna verður að spara ýmislegt annað, sem ekki kallar alveg eins eftir. Háttv. þm. sagði, að aðeins 16000 kr. væru veittar á fjárlögunum í þessu skyni, en þetta mun nú tæplega rétt. Eg veit ekki betur en að fé það, sem veitt er í 15. gr. fjárl. sé varið til vísinda, lista og bókmenta og það er, eftir því sem mér telst til, rúmlega 134 þús. Þetta sýnist töluvert fé, eftir efnahag og ástæðum landssjóðs, og þá held eg að ekki sé hægt að segja, að tillag til bókmenta, lista og vísinda sé mjög skorið við neglur sér. Eg skal geta þess að eg mun styðja þá till., sem fer fram á að fella símana að þessu sinni, að vísu skal eg játa, að þetta er leiðinlegt, en eg sé ekki hvaðan hægt er að fá peninga, sem með þarf til allra þessara síma á næsta fjárhagstímabili.

Eg hygg að sýnt hafi verið fram á það hér í háttv. þingd., að Vestmanneyjasíminn mundi gefa tiltölulega mestar og vissastar tekjur, en nú er búið að fella hann. Ef nokkur sími ætti því að standa á fjárlögunum þá ætti það að vera Vestmanneyjasíminn, þótt hinir féllu. En eg álít réttast að halla sér að till. háttv. framsm. fjárlaganefndar um það að rannsakað verði, hvort ekki mundi betra að nota loftskeytaaðferðina til að koma Vestmanneyjum í hraðskeytasamband og væri þá hugsanlegt, að sum héruð, sem ómögulegt er að koma í símasamband með þræði gætu komist í þráðlaust samband í sambandi við lottskeytastöð í Vestmanneyjum, og vil eg t. d. benda á að Skaftafellssýslur gætu máske notið góðs af og komist í slík sambönd. Af þessum ástæðum álít eg réttast að fresta málinu og bíða eftir því, að það verði rannsakað betur. Eg skal svo ekki lengja umræðurnar meira, álít það óþarft. Stefna mín viðvíkjandi einstökum till. mun sjást þegar gengið verður til atkv.